13. desember 2011

Tilnefningar til Fjöruverðlaunanna

Miðvikudaginn 14. desember kl. 17.30, verður tilkynnt í Borgarbókasafninu við Tryggvagötu hvaða bækur eru tilnefndar til Fjöruverðlaunanna - bókmenntaverðlauna kvenna. Allir áhugasamir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

Þrjár nefndir, skipaðar bókmenntahugsjónakonum, hafa undanfarið setið við og lesið mikinn fjölda bóka. Tilnefnd verða níu verk; þrjú skáldverk fyrir fullorðna, þrjú fyrir börn og unglinga og þrjú fræðirit. Verðlaunin fyrir eina bók í hverjum flokki verða svo veitt í febrúar 2012.

Fjöruverðlaunin voru fyrst veitt árið 2007, en síðast hlutu Agniezka Nowak og Vala Þórsdóttir verðlaun fyrir tvítyngdu barnabókina Þankagöngu, Kristín Steinsdóttir fyrir skáldsöguna Ljósu og Kristín Loftsdóttir fyrir fræðiritið Konuna sem fékk spjót í höfuðið.

Engin ummæli: