20. desember 2011

Milli nándar og næðis

Að leita að hinu fullkomna jafnvægi milli næðis og nándar, að finna sér sinn stað í tilverunni með fólkið sitt allt nærri en samt án þess að skerða persónulegt rými, einhvern veginn þannig mætti draga umfjöllunarefni Jarðnæðis eftir Oddnýju Eir Ævarsdóttur saman. Bókin er eins og fyrri verk hennar ofin sjálfsævisögulegum þráðum og ómögulegt að segja hvar sögumaður bókarinnar endar og Oddný sjálf tekur við. Textinn er jafnframt allur á dagbókarformi og fyrir vikið ber hann þess að vissu leyti merki að hafa ekki verið skrifaður fyrir aðra lesendur en skrásetjarann sjálfan. Vísanir í liðna atburði eða samtöl eru ekki útskýrð í þaula, forsagan er ekki gefin og persónurnar ekki kynntar neitt sérstaklega til sögunnar – ekki frekar en maður myndi almennt kynna fjölskyldu sína, vini eða elskuga til leiks í eigin hugrenningum. En um leið skilur textinn sig líka frá hefðbundnum hugmyndum um dagbókarskrif. Eðli málsins samkvæmt hefur maður jú ekki lesið margar dagbækur aðrar en sínar eigin en ég á í það minnsta erfitt með að trúa að það séu margir sem skrifi svona fallegan texta og geri vangaveltum sínum svo fáguð skil eins og raunin er í Jarðnæði.

Að leita að sjálfum sér er gamalt og stundum dálítið útjaskað þema í bókmenntum. Leitin í Jarðnæði er hins vegar á öðrum nótum. Frásögnin ber þess engin merki að sögumaðurinn þurfi að finna sjálfan sig, textinn er þvert á móti uppfullur af látlausu sjálfsöryggi, laus við allar efasemdir og örvæntingu. Í staðinn er leitað að samastað í tilverunni, að lífsformi sem rúmar eins og áður sagði bæði nánd við þá sem maður elskar og þarfnast en um leið næði til að vinna að hugðarefnum sínum og rými til að vera maður sjálfur. Leitin að jarðnæði leiðir hina ónefndu aðalpersónu bókarinnar víða, bæði um Ísland og önnur lönd, og rennur á einhvern hátt saman við leitina að eigin rótum og uppruna. Fornleifafræði, fjölskyldusaga, náttúra landsins, farfuglarnir, löngu liðin skáld og kveðskapur – allt myndar þetta fínlegan vef sem heldur grunnhugmynd verksins uppi. Það er kannski svolítið erfitt að útskýra þetta með sannfærandi hætti, hvernig nánast allt sem sagt er skiptir máli og tengist hvert öðru, en um leið finn ég að mig langar ekki heldur neitt sérstaklega til að reyna útskýra það eða skilja til fullnustu. Eitthvað við þessa bók gerir það að verkum að allar greiningar á henni eru óþarfar og engin gífuryrði ríma við hið kyrrláta andrúmsloft hennar.

Þrátt fyrir kyrrðina er textinn oft léttur, fullur af orðaleikjum og fjöri: „Hæ, hó, viltu ekki kenna mér að tefla? Ég kann varla mannganginn, er svo hölt og var lengi að læra að synda“. (Bls. 33.). Í upphafi bókarinnar er textinn stundum dálítið óræður og jaðrar við að vera ögn uppskrúfaður. En eiginlega fannst mér það allt í lagi því þeim sem leitar að jarðnæði hlýtur að leyfast að hnita í hringi yfir svæðinu og skima eftir ákjósanlegum stað. Og eftir fyrstu kaflana er ljóst að Oddný er lent, hefur fundið sinn stað og sína rödd. Um svipað leyti og þessi festa kemst á frásögnina ber á sífellt meiri losarabragi á dagsetningunum sem fylgja dagbókarfærslunum. Í staðinn fyrir að kenna kaflana við skilgreindar dagsetningar á borð við þrettándann, bolludag og mæðradag færist í vöxt að þeir séu kenndir við daga á borð við „Jónsmessa og Martinumessa hinnar þýsk-íslensku hestakonu sem átti heima í húsinu áður og sagði okkur sögu þess“. (Kannski skáldskapur og fastur og fyrirframmótaður tímarammi vinni ekkert sérstaklega vel saman?) Frásögnin tapar aldrei léttleikanum, er áreynslulaus en um leið áhugaverð. Orð eins og „ljóðrænn“ koma upp í hugann en eru eiginlega of klisjuleg til að mann langi að nota þau í þessu samhengi. Kannski er best að segja bara að textinn sé fallegur. Sumar línurnar las ég nokkrum sinnum, bara til að njóta þeirra betur: „Iðulega þegar maður er kominn þangað sem maður ætlaði sér er maður búinn að gleyma þránni. En hún rifjast óðum upp. Hún er fíngerðari en í fjarskanum og raðar sér upp í smærri einingum svo að maður finnur henni ekki stað í hjarta sér fyrr en maður fjarlægist aftur. Í endurlitinu“. (Bls. 159.) Og eftir að hafa lesið kaflann sem gerist á Þingvöllum í kjölfar andláts ömmunnar finnst mér eins og aldrei muni sorg eða söknuði verða betur lýst en einmitt með hoppi á trampólíni.

Sem háskólanemi og þriggja barna móðir get ég ekki sagt annað en að átökin milli nándar og næðis séu mér ævinlega ofarlega í huga. Þegar dagarnir snúast að mestu um að þurrka upp eplasafa og piss, tína kubba og púsl upp úr gólfinu, mæta á foreldrafundi og passa upp á að börnin gleymi ekki leikfimidótinu heima er hætt við að lítið verði um næði til að sinna námi eða einu sinni lesa bækur. Vanalega næ ég ekki nema rétt leggja höfuðið á koddann, opna bók og lesa örfáar línur áður en ég byrja að dotta. En eitthvað gerðist þegar ég las þessa bók. Í stað þess að rúlla strax út af las ég oft marga kafla í einu á kvöldin og var enn að lesa löngu eftir að allir aðrir voru sofnaðir. Og þarna, við litla ljóstýru í myrkrinu, með dumbrauða bók í höndunum og þungan andardrátt annarra fjölskyldumeðlima streymandi yfir mér fann ég óvænt mitt jarðnæði.

Engin ummæli: