16. desember 2011

Smábækur en ekki smábarnabækur

Ókeibæ Kur gefa út tvær litlar bækur á ensku í ár. Önnur er Popular Hits II eftir Hugleik Dagsson og hin er Generalizations about nations eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur.

Í Popular Hits II er Hugleikur samur við sig: svartur húmor túlkaður með einföldum teikningum af fólki í starfi og leik. Eins og titillinn gefur til kynna byggir bókin á vinsælum lögum. Hugleikur tekur þarna ýmist titla vinsælla laga frá ýmsum tímabilum eða fræga textabúta úr þeim og túlkar á sinn hátt. „Love Cats“ er til dæmis túlkað með mynd af fremur ókræsilegri konu í hægindastól umkringdri köttum, eða því sem á góðri íslensku kallast crazy catlady. Eins og Hugleiks er von og vísa eru sumar myndirnar ögrandi eða í dónalegri kantinum. Sjálfri finnst mér þetta stórskemmtileg bók og ég mæli með henni sem tækifærisgjöf fyrir erlenda vini, svona í staðinn fyrir hinn klassíska harðfisk og brennivín. Þó er hún líklega ekki heppileg fyrir viðkvæmna, sumt fólk kann jú ekki að meta kaldhæðni.

Generalizations about nations er þýðing á bókinni Alhæft um þjóðir sem kom út í hittifyrra. Á hverri blaðsíðu er alhæfing um einhverja þjóð skemmtilega myndskreytt. Teikningar Lóu eru margslungnar og fullar af sniðugum smáatriðum og vísunum og mér finnst þær drepfyndnar (og flottar!), og alhæfingarnar sem fylgja þeim líka. Þarna má til dæmis finna alhæfingar á borð við „Finnish men find it very uncomfortable when they run into their acquaintances“, „Greeks are very susceptible to fads“ og „Columbians have a hard time falling asleep“ (enda uppfullir af kaffi!). Bókinni er skipt í kafla á landfræðilegum grunni: Norður-Evrópa, Suður-Evrópa, Austur-Evrópa, Asía, Norður-, Suður- og Mið-Ameríka, Eyjaálfa og Afríka. Eins og ég hef þegar sagt finnst mér bókin drepfyndin en eiginlega er full ástæða til að endurtaka það. Mér finnst þessi bók brjálæðislega fyndin og ég get skoðað hana aftur og aftur. Í hvert skipti tek ég eftir einhverju nýju á þeim myndum sem ég skoða. Persónulega höfðar bók Lóu meira til mín en bók Hugleiks en það er sjálfsagt smekksatriði. Alla vega mæli ég með því að allir kaupi þessa bók og gefi erlendum vinum, ja, eða bara til að eiga sjálfir. Hið sama gildir og um bók Hugleiks að þetta er ekki bók fyrir þá sem ekki kunna að meta kaldhæðni (og slíkt fólk er vissulega til) en ólíkt Hugleiksbókinni er hún þó laus við dónamyndir (nema fólki finnist dónó að hafa mynd af einhverjum á klósettinu eða pari í sleik).

Engin ummæli: