13. febrúar 2012

Fjöruverðlaunin afhent í sjötta sinn

Sunnudaginn 19. febrúar verða Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, afhent í sjötta sinn. Hátíðin fer fram í Iðnó og hefst dagskráin klukkan 11.00.

Sandi Toksvig
Dagskráin hefst á því að Ljótikór syngur nokkur lög og að því loknu flytur sérstakur gestur hátíðarinnar, Sandi Toksvig, ræðu og svarar spurningum úr sal. Toksvig er vel þekktur rithöfundur, grínisti og dagskrárgerðarmaður. Hún hefur einnig verið formaður dómnefndar Orange bókmenntaverðlaunanna í Bretlandi, en stofnandi þeirra, Kate Mosse, kom hingað til lands árið 2010 til að afhenda Fjöruverðlaunin. Að ræðu Toksvig lokinni verða verðlaunin afhent en samtals níu bækur eru tilnefndar í ár:

Fagurbókmenntir
Jójó eftir Steinunni Sigurðardóttur
Kanill: ævintýri og örfá ljóð um kynlíf eftir Sigríði Jónsdóttur
Jarðnæði eftir Oddnýju Eir Ævarsdóttur

Fræðibækur
Mannvist. Sýnisbók íslenskra fornleifa eftir Birnu Lárusdóttur
Nútímans konur: Menntun kvenna og mótun kyngervis á Íslandi 1850-1903 eftir Erlu Huldu Halldórsdóttur
Ríkisfang ekkert: flóttinn frá Írak á Akranes eftir Sigríði Víðis Jónsdóttur

Barna- og unglingabækur
Flugan sem stöðvaði stríðið eftir Bryndísi Björgvinsdóttur
Gegnum glervegginn eftir Ragnheiði Gestsdóttur
Með heiminn í vasanum eftir Margréti Örnólfsdóttur

Aðgangseyrir er 1500 krónur og innifalið í því verði er samloka, kaffi og gos. Gestir eru vinsamlegast beðnir um að mæta tímanlega en dagskráin er í Iðnó og hefst stundvíslega klukkan 11.00 og stendur til 13.00. Allt áhugafólk um bókmenntir er velkomið á meðan húsrúm leyfir.

1 ummæli:

Hildur Lilliendahl sagði...

Verður hægt að fá kjöt- og fisklausa samloku?