2. febrúar 2012

Faðir og dóttir

Richard og Ianthe Brautigan
Ég les stundum minningargreinarnar í Morgunblaðinu, líka þó ég viti engin deili á því fólki sem um ræðir. Mér finnst áhugavert að sjá hvernig fólk tjáir sorgina og endurskapar samband sitt við hinn látna - innsiglar það á prenti. Textinn fjallar jú fyrst og fremst um þann sem skrifar, ekki þann sem dó.

Á dögunum las ég bók sem í einhverjum skilningi er löng minningagrein. Það er dóttir sem minnist föður síns sem stytti sér aldur árið 1984 en hann var einn fremsti rithöfundur Bandaríkjanna á tuttugustu öld, Richard Brautigan. Ég hef sjálf haldið upp á hann síðan ég keypti fyrir löngu Vatnsmelónusykur í þýðingu Gyrðis Elíassonar á bókamarkaði í Perlunni. Þetta var einhverntíma um miðbik Clinton tímans og ég man að bókin kostaði heilar 480 krónur. Mögulega eru þetta bestu kaup sem ég hef gert á ævinni. Eintakið fylgdi mér árum saman - ég flatmagaði með það á strönd við Adríahafið og í íslenskum fjallakofa. Ég veit reyndar ekkert hvar það er í dag, líklega í góðri geymslu.

Ianthe Brautigan var 24 ára gömul þegar faðir hennar skaut sig í höfuðið á heimili sínu í hippabænum Bolinas í Kaliforníu. Það liðu nokkrar vikur áður en líkið uppgötvaðist og sagan segir að hann hafi skilið eftir miða sem á stóð "Messy, isn't it?" Eðlilega hafði dauði Brautigans mikil áhrif á dóttur hans og hún upplifði mikla sjálfsásökun og höfnun. Það var líka sársaukafullt fyrir hana að fylgjast með því hvernig blaðamenn túlkuðu ævi rithöfundarins og persónu hans. Hún þekkti ekki þennan mann sem minnst var í öllum helstu fjölmiðlum. Ianthe fór í sálfræðimeðferð ári síðar, þá hafði hún sjálf eignast dóttur og vildi síst af öllu verða bitra mamman sem horfðist aldrei í augu við fortíðina. Þá byrjaði hún að skrifa og afraksturinn er bókin You Can't Catch Death. A Daughter's Memoir.


Um tilurð bókarinnar segir hún sjálf í formála:

"This writing is very private. It is not a biography of my father. He doesn't need to be explained.    Everything that was important to him can be found within the pages of his books. And it is not a biography of me, nor is it a public summing-up of our relationship, or a celebrity tell-all. Instead it is a young woman's memoir about her own grief and what went on inside herself while she dealt with the mysteries of her father's life and suicide."

Brautigan kvæntist Virginíu Alder árið 1957 og þau eignuðust Ianthe þremur árum síðar. Rithöfundurinn var ekki auðveldur í sambúð – hann var þungur í skapi og drykkfelldur og svo fór að þau hjón skildu að skiptum þegar Ianthe var fimm ára. Hún heimsótti föður sinn reglulega í íbúð hans í San Francisco. Hann virðist hafa verið hinn ágætasti faðir þegar hann var vel upplagður þó hann hafi ekki alltaf vitað hvað hann ætti að gera við stúlkubarnið. Hann gat sannarlega verið fyndinn og skemmtilegur, hann sagði óborganlegar sögur og kom fram við barnið sem jafningja. Eftir því sem árin liðu fór hann að reiða sig fullmikið á hana þegar kom að tilfinningalegum stuðningi. Ianthe var til dæmis mjög ung þegar hún byrjaði að eiga alvarlega samtöl við föður sinn um alkóhólisma hans og hann ræddi oft þunglyndi sitt við hana. Brautigan giftist reyndar aftur, japanskri konu að nafni Akiko Yoshimura, sem hann kynntist þegar hann bjó um tíma í Tokyo en samband þeirra varð ekki langlíft.

Ég geri mér grein fyrir að einkunnin "löng minningargrein" hljómar alls ekki vel í eyrum sumra en Ianthe er prýðilega ritfær og gerir þetta afskaplega fallega. Ég byrjaði að lesa bókina vegna þess að mig langaði að vita meira um þennan sérvitra rithöfund en ég fékk fljótt miklu meiri áhuga á dótturinni sjálfri og hennar hugarheimi. Bókin er eins og klippiverk, frásögnin er ekki línuleg heldur ægir öllu saman í stuttum textum undir einföldum fyrirsögnum. Ljósmyndir og stöku brot úr bókum Brautigans fylgja. Iantha hefur einkar þokkafullan stíl og henni lætur vel að draga upp myndir úr fortíðinni og lýsa í smáatriðum, til dæmis íbúðinni í San Francisco og morgnunum þeirra feðgina saman.

Fyrir alla þá fjölmörgu sem halda upp á Brautigan er bók dóttur hans svo sannarlega áhugaverð lesning en hún er ekki síður merkileg í samhengi sjálfs síns – ljúfsár lýsing á sorginni og sambandi föður og dóttur.

2 ummæli:

Maríanna Clara sagði...

hljómar vel! Ég væri gríðarlega til í að lesa þessa - minningarbækur aðstandenda "frægra" eru oft sérstaklega áhugaverðar (þegar þær eru ekki óbærilega leiðinlegar - sem gerist líka stundum).

Erla Elíasdóttir Völudóttir sagði...

Þessa vil ég lesa! takk fyrir ábendinguna.