4. febrúar 2012

Bókabúðir í Singapúr: Kinokuniya og Books Actually

Myndin tengist efni pistilsins alls ekki beint.
Á nýliðnu ferðalagi um Víetnam var ég að vanda tíður gestur í ýmsum bókabúðum, jafnvel þótt þar hafi sjaldnast verið seldar margar bækur sem ég gat lesið. Það er bara svo notalegt að hanga í bókabúðum, hvort sem bækurnar eru á tungumáli sem maður skilur eða ekki. Ég get svo sannarlega gert orð sem Guðrún Elsa lét falla í gamalli og góðri færslu að mínum: "bókabúðir gera mig hamingjusama".

Í agalega stóru ljósmyndasafni sem bíður flokkunar og úrvinnslu er að finna ófáar myndir úr bókabúðum sem ég kannaði á ferðalaginu. En áður en ég leggst undir feld til að ákveða hvort betra sé að reyna á þolinmæði lesenda með maraþonbloggfærslu um víetnamskar bókabúðir eða beinlínis með greinaflokki verður hér fjallað um tvær bókabúðir í Singapúr þar sem ég kom við á leiðinni.

Enska er eitt af fjórum opinberum tungumálum í Singapúr, hin eru kínverska, malasíska og tamílska. Stundum má sjá öll fjögur tungumálin á skiltum, t.d. því með ónotalegu myndinni fremst í færslunni, en annars er enska mest áberandi. Í bókabúðum í landinu er því úr ýmsu að velja fyrir þá sem eru læsir á ensku en skortir kunnáttu í asískum tungumálum.

Borgríkið Singapúr reyndist fjölbreytilegra og áhugaverðara en ætla mætti af öllum boðunum og bönnunum sem það er kannski þekktast fyrir. Vissulega eru borgarhlutarnir misspennandi. Sumir hafa kannski smekk fyrir Orchard Road þar sem komið hefur verið fyrir verslunarmiðstöðvum í löngum röðum. Það er aftur á móti ekki skemmtilegasta umhverfið sem ég get ímyndað mér en þar sem ég vissi af stórri bókabúð á svæðinu gerði ég mér ferð þangað.

Kinokuniya, sem er í Ngee Ann City verslunarmiðstöðinni, er hluti af japanskri bókabúðakeðju. Ég veit ekki hvort það er þess vegna sem kennslubækur í japönsku voru áberandi í tungumáladeildinni eða hvort það er til marks um japönskuáhuga í Singapúr. Þarna er annars einnig töluvert úrval af japönskum teiknimyndasögum og kínverskum bókum en annars er yfirgnæfandi meirihluti bókanna á ensku. Búðin er risavaxin (eftirfarandi mynd sýnir einungis lítinn hluta hennar) en nokkuð karakterlaus.


Umhverfið var ekki heldur yfirþyrmandi vinsamlegt, t.d. kom öryggisvörður að máli við mig rétt eftir að ég tók myndina hér fyrir ofan og tilkynnti mér að myndataka væri bönnuð í búðinni. Öryggisvörðinn má sjá undir heiti bókabúðarinnar á næstu mynd sem ég laumaðist til að taka þegar ég var komin út úr búðinni. Ég hefði gjarnan viljað verja aðeins meiri tíma í að ná betri mynd en þar sem músíkin í miðrýminu var Last Christmas í panflautuútsetningu og álíka horror forðaði ég mér snarlega (mér finnst Last Christmas alveg skemmtilegt lag en panflautur eiga sjaldnast við). 


Kosturinn við Kinokuniya var hins vegar að eins og vænta má af þetta stórri búð var úrvalið þokkalegt, þarna fékk ég götu- og landakort sem mig vantaði og áttu eftir að nýtast vel og úr hillunum með "local literature" valdi ég eina nóvellu og safn smásagna eftir singapúrskar konur. Að líkindum les ég þessar bækur og skrifa kannski um þessar bækur síðar á árinu þegar ég endurheimti þær (vonandi). Í Saigon lentu þær nefnilega í kassa með ferðahandbók, orðabók o.fl. sem ég ákvað að senda í pósti til að létta ferðatöskuna svo ég gæti keypt fleiri matprjóna, silkiklúta, víetnamskar kaffisíur og fleira skemmtilegt síðasta daginn. Eins og sjá má af eftirfarandi mynd sem ég tók á pósthúsinu í Saigon var böggullinn teipaður í bak og fyrir þannig að innihaldið ætti ekki að skaðast en það verður mjög spennandi að komast að því hversu lengi hann verður á leiðinni.


Á bakaleiðinni kannaði ég síðan aðra bókabúð í Singapúr sem var gerólík þeirri fyrri. Á Yong Siak Street er krúttleg bókabúð sem heitir Books Actually.Úrvalið er fínt þótt búðin fylli ekki marga fermetra. Þarna eru bæði seldar gamlar og nýjar bækur, mest skáldskapur en líka ýmislegt annað.
Búðin er skemmtilega laus við að vera rúðustrikuð. Hún er t.d. skreytt með margvíslegum sérviskulegum hlutum, m.a. gömlum myndavélum en einnig kom skemmtilega á óvart að sjá þar bauka undan Royal-lyftidufti. Þeir eru aðeins öðruvísi útlits en þeir sem við þekkjum en ekki síður fagrir.


Á vegum búðarinnar er líka starfrækt bókaútgáfa, Math Paper Press, þar sem einkum eru gefnar út nóvellur, ljóð og esseyjur. Þær sem ég sá af bókunum voru í einföldum og smekklegum útgáfum og mig langaði að kaupa margar en lét eina nægja: I'm Still Here eftir Belindu Wan sem hefur að geyma ritgerðir um ljósmyndun (en ég er ekki enn búin að lesa hana).

Ef einhver lesenda verður á ferðinni í Singapúr og ákveður að líta við í búðinni (það er vel þess virði) má síðan benda á til viðbótar að hinum megin við götuna er virkilega gott kaffihús sem heitir 40 Hands Coffee. Ég ætlaði að taka mynd af kökunni sem ég borðaði þar því hún var bæði falleg og góð en græðgin hafði yfirhöndina og hún var horfin ofan í mig áður en ég mundi eftir myndavélinni. Kaffið var líka stórgott og starfsfólkið afar liðlegt þótt það væri brjálað að gera. Það væri hægt að hugsa sér margt leiðinlegra en að kaupa sér bók í Books Actually og fara svo með hana yfir á kaffihúsið. Ef ég fer einhvern tíma aftur til Singapúr verður það tvímælalaust á verkefnalistanum.

2 ummæli:

Maríanna Clara sagði...

mikið vona ég að ég muni einhvern tíman eiga erindi í Books Actually og geta nýtt mér tipsið um kaffihúsið beint á móti!

Þórdís Gísladóttir sagði...

Ég er búin að setja Singapúr á listann.