Sýnir færslur með efnisorðinu Tim Burton. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Tim Burton. Sýna allar færslur

8. febrúar 2012

Eins konar X-Men

Sjáiði, hún svífur!
Miss Peregrine´s Home for Peculiar Children er unglingabók eftir Bandaríkjamanninn Ransom Riggs (já, ég held hann heiti það í alvörunni).

Hún fjallar um unglinginn Jacob sem á ríka foreldra sem virðast hvorki hafa tíma fyrir hann né mikinn áhuga á honum. En hann og afi hans, pólskur gyðingur sem missti alla fjölskyldu sína í útrýmingarbúðum í seinni heimsstyrjöldinni, eru afar nánir. Afi hans segir honum ótrúlegar sögur af því þegar hann barðist í stríðinu, hvernig hann lærði á byssur, hvernig hann lærði að komast af í óbyggðum og síðast en ekki síst sögur af börnunum sem hann ólst upp með á munaðarleysingahæli á velskri eyju, undir dyggri stjórn Miss Peregrine.

Þar voru engin venjuleg börn, sagði hann, heldur gátu sum flogið, önnur voru ósýnileg og önnur með andlit aftan á hausnum o.s.frv. Hann á meira að segja myndir af þeim öllum sem hann sýnir Jacob. Hann varar hann líka við skelfilegum skrímslum sem hafa elt hann á röndum alla ævina og lýsir þeim niður í smæstu smáatriði.