Fyrir þá sem hafa áhuga á myndasögum er ekki slæm hugmynd að kíkja í Norræna húsið og skoða úrvalið. Síðasta mánuðinn hefur verið þar afar girnileg útstilling með myndasögum norrænna kvenhöfunda, en einn af eftirlætisbókaflokkunum mínum er einmitt sænska serían um Johönnu eftir Li Österberg og Patrik Rochling (sá hinn síðarnefndi er raunar ekki kona, en hann er mjög töff). Johönnu kynntist ég í bókasafni Norræna hússins þegar ég byrjaði að lesa safnbækurnar Allt för konsten sem eru gefnar út í Svíþjóð og innihalda úrval norrænna myndasagna. Fyrsta bókin kom út 1998 og nú eru þær orðnar tíu, mjög djúsí bækur sem hafa kynnt mig fyrir ýmsum spennandi höfundum. Eins og títt er um safnrit tengi ég mismikið við höfundana en í hverju bindi hafa verið einhverjar sögur sem mér finnst alveg frábærar. Ég fékk nr. 7 og 8 lánaðar á bókasafninu um daginn og nú vantar mig bara tvær síðustu til að hafa lesið allar. Ég held þær séu allar uppseldar hjá útgefanda en eru eflaust til á alls kyns bókasöfnum á Norðurlöndunum. Það er Optimal Press sem gefur út Allt för konsten; sérhæfð forlög með svona katalóg vekja alltaf með mér ákveðinn pirring yfir að við skulum vera dvergþjóð þar sem ekkert þrífst nema það almenna.
Það var einmitt önnur bók frá Optimal Press sem ég féll algjörlega fyrir núna í haust. Í Norræna húsinu fékk ég að láni dönsku myndasöguna Glimt (las hana reyndar á sænsku undir heitinu Glimtar) eftir Rikke Bakman, sem er núna nýja uppáhalds mín.