Sýnir færslur með efnisorðinu Bókasöfn. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Bókasöfn. Sýna allar færslur

19. desember 2013

Gott myndasögustöff frá Norðurlöndunum (hinum sko)

Alltaf við og við man ég hvað bókasafnið í Norræna húsinu er mér mikil uppspretta gleði og þá fer ég margar ferðir í röð, yfirleitt alveg þangað til ég fer til útlanda, gleymi að skila bókum og þarf að biðja bóngott foreldri um að skila þeim áður en sektin skellur á. Núna er Norræna hússhrina í gangi hjá mér og ég hef nælt mér í nokkrar góðar skruddur síðustu vikurnar.

Fyrir þá sem hafa áhuga á myndasögum er ekki slæm hugmynd að kíkja í Norræna húsið og skoða úrvalið. Síðasta mánuðinn hefur verið þar afar girnileg útstilling með myndasögum norrænna kvenhöfunda, en einn af eftirlætisbókaflokkunum mínum er einmitt sænska serían um Johönnu eftir Li Österberg og Patrik Rochling (sá hinn síðarnefndi er raunar ekki kona, en hann er mjög töff). Johönnu kynntist ég í bókasafni Norræna hússins þegar ég byrjaði að lesa safnbækurnar Allt för konsten sem eru gefnar út í Svíþjóð og innihalda úrval norrænna myndasagna. Fyrsta bókin kom út 1998 og nú eru þær orðnar tíu, mjög djúsí bækur sem hafa kynnt mig fyrir ýmsum spennandi höfundum. Eins og títt er um safnrit tengi ég mismikið við höfundana en í hverju bindi hafa verið einhverjar sögur sem mér finnst alveg frábærar. Ég fékk nr. 7 og 8 lánaðar á bókasafninu um daginn og nú vantar mig bara tvær síðustu til að hafa lesið allar. Ég held þær séu allar uppseldar hjá útgefanda en eru eflaust til á alls kyns bókasöfnum á Norðurlöndunum. Það er Optimal Press sem gefur út Allt för konsten; sérhæfð forlög með svona katalóg vekja alltaf með mér ákveðinn pirring yfir að við skulum vera dvergþjóð þar sem ekkert þrífst nema það almenna.
Það var einmitt önnur bók frá Optimal Press sem ég féll algjörlega fyrir núna í haust. Í Norræna húsinu fékk ég að láni dönsku myndasöguna Glimt (las hana reyndar á sænsku undir heitinu Glimtar) eftir Rikke Bakman, sem er núna nýja uppáhalds mín.

30. ágúst 2012

Frönsk börn frekjast ekki

Ég bý bandarískri borg sem státar af prýðilegum almenningsbókasöfnum og almennt læsi hér um slóðir er með því besta sem gerist á landsvísu. Það kostar ekki krónu að fá bókasafnsskírteini og kom sú staðreynd mér þægilega á óvart. Ég var búin að búa hér í nærri ár þegar ég gerði mér fyrst ferð á bókasafnið. Tveggja ára sonur minn beið spenntur með krypplaðan 20 dollara seðil í lúkunni sem hann hugðist rétta miðaldra bókasafnsfræðingi íklæddum peysu skreyttri maískólfum, í skiptum fyrir skírteini. Hún saup hveljur og sagði "oh no my dear! It´s public service!"

 Það eru fjölmörg bókasafnsútibú í borginni og þjónusta við börn og heimavinnandi mæður er umtalsverður hluti af starfsemi þeirra. Jafnréttisbaráttan er nefnilega fremur stutt á veg komin hér eins og kunnugt er og ekki útlit fyrir að hún taki nein stökk upp á við í nánustu framtíð. Fæðingarorlof er ekki lögbundið og dagvistun er rándýr. Það er því mjög algengt að mæður séu heima með börn sín allt fram á skólaaldur, og jafnvel að þær annist líka heimakennslu barnanna. Í kringum þetta allt saman skapast risavaxinn heimur sem getur verið erfitt fyrir konu frá hálfköruðu, skandinavísku velferðarríki að skilja.

Flesta daga eru bókasöfnin full af börnum undir sex ára aldri í fylgd mæðra sinna sem eygja þarna kærkomna stund til þess að draga andann utan veggja heimilisins og leyfa afkvæmunum að njóta samvista við önnur börn. Þessu fylgir auðvitað heilmikið fjör og læti og hin hefðbunda hugmynd um bókasafn - musteri þagnar og þekkingar - hefur örlítið látið undan síga í mínum huga. En ekki kvarta ég því syni mínum finnst afskaplega góð skemmtun að kíkja á bókasafnið, dvelja svolitla stund í barnakróknum og velja sér bækur. Við kíkjum því reglulega eftir leikskóla til þess að kynna okkur nýjustu stefnur og strauma í barnabókmenntum og slaka svolítið á. Í króknum góða er líka hugsað fyrir því að mæður hafi eitthvað til þess að glugga í meðan börnin hafa ofan af fyrir sér. Það eru reyndar eingöngu uppskrifta- , handavinnu- og uppeldisbækur sem eru í boði. Ef maður vill lesa eitthvað annað þarf maður að standa upp og gera sér ferð yfir safnið þvert og endilegt. Ég er ekkert að láta það fara í taugarnar á mér heldur kíki yfirleitt í einhverjar matreiðslubækur, enda finnst mér mjög gaman að elda.

Um daginn sá ég bók í hillunni sem ég ákvað að taka með mér heim. Ég hafði heyrt um hana á ýmsum stöðum á internetinu og yfirleitt verið ágætlega af henni látið. Hún ber titilinn Bringing Up Bébé. One American Mother Discovers the Wisdom of French Parenting og fjallar, eins og undirtitillinn gefur til kynna, um bandaríska móður sem er sannfærð um ágæti franskra uppeldisaðferða og ákveður að kynna sér þær nánar. Mig rámar í bók sem kom út fyrir nokkrum árum um franskar konur og þeirra matarsiði, hún kom meira að segja út í íslenskri þýðingu og heitir að mig minnir Franskar konur fitna ekki. Ég las hana aldrei en þessi bók ímynda ég mér að sé skrifuð á sömu nótum. Þessar Frakkar eru að gera eitthvað frábært og rétt, förum og könnum hvað það er!

5. ágúst 2012

Hinsegin bókasafn og bókmenntaviðburðir

Það er alltaf gaman að fara á bókasafnið í Samtökunum '78 og okkur þykir vel við hæfi að minna á það núna þegar Gay Pride-hátíðin er að ganga í garð, enda ekki víst að öllum sé kunnugt um safnið eða ágæti þess.

Bókasafnið er til húsa í höfuðstöðvum Samtakanna '78 á Laugavegi 3, á fjórðu hæð. Það er opið frá 9-17 virka daga og frá 20-22 á fimmtudagskvöldum. Á safninu kennir ýmissa hinsegin grasa, en þar má finna bækur, tímarit, myndbandsspólur, mynddiska og blaðaúrklippur tengdar hinsegin sögu á Íslandi. Leita má í safnkostinum á Gegni og Leiti, en í bókasafninu má finna mikið af myndefni og bókum sem ekki er hægt að finna í öðrum söfnum.

Bókasafnskort hjá Samtökunum '78 er frítt fyrir þá sem eru meðlimir í Samtökunum, en kostar 1000 kr. fyrir aðra. Bækur eru leigðar út til mánaðar í senn, en myndefni til einnar viku og kostar það 300 kr. fyrir meðlimi í Samtökunum en 600 kr. fyrir aðra. Safnið er lítið og notalegt, hægt að setjast þar niður til að lesa og styttra á barinn en í nokkru öðru bókasafni í Reykjavík.

13. júlí 2012

Bókasöfn á gististöðum, 13. þáttur: Druslubókadama gerist bókasafnslögregla



Í íbúð sem ég leigði gegnum BHM á Geldingsá í Vaðlaheiði er úrval lesefnis heldur rýrt, en þó vel þess virði að um það sé fjallað hér. Fyrst ber að nefna afar áhugavert úrval gamalla tímarita:

1) Þrjú tölublöð af Frjálsri verslun frá 2009 og 2010, sem ég verð að játa að ég nennti ómögulega að lesa.

2) Eitt tölublað af hinu prýðilega riti Se og hør, nánar tiltekið 16. tölublað, 57. árgangur, sem kom út árið 1996. Á forsíðunni er sagt frá einhverjum Dönum sem ég kann ekki nánari deili á en þar kemur fram að Morten Stig sé einhleypur eftir að hafa flutt frá konunni, að Maria Hirse hafi gift sig að vori í einhverri höll og að Ole Ernst sé líka að fara að gifta sig eftir tíu ára sambúð. Svo er mynd af Friðrik krónprins og sagt að hann hafi lent í einhverju flugvéladrama og mynd af Alexöndru sem var á þessum tíma gift yngri prinsinum Jóakim (þau skildu svo víst síðar, sem ég skil vel, ekki vildi ég þurfa að vera gift prinsi), í frekar ljótri jólapeysu með hund fyrir framan sig. Sé blaðinu flett má finna umfjöllun um ýmsa Dani sem ég þekki ekkert, nema ég kannast við fyrrnefnda Alexöndru og Jóakim, Leonardo DiCaprio er sýndur í leðurfötum, Jodie Foster, Tom Hanks (með mynd af honum á sundskýlu fylgir athugasemd um holdafar hans) og Sigourney Weaver (við fáum að sjá mynd úr íbúðinni hennar) og við sjáum nærmynd af Jóhannesi Páli II páfa að kyssa beran fót. Eitthvað er svo fjallað um Friðrik krónprins og einhverja kærustu sem heitir Katja. Eftir því sem ég best veit er hann giftur annarri konu í dag þannig að líklega hefur slitnað upp úr þessu hjá þeim Kötju. Svo eru tvær myndir sem sýna aftan á lærin á Díönu Bretaprinsessu og athygli vakin á því að hún sé með appelsínuhúð. Díana þó! Hvernig gastu gert okkur þetta? Inni í miðju blaði er allsber stelpa (Se og hør-pigen) og seinni helmingur blaðsins lagður undir sjónvarpsdagskrá á hvolfi. Sem sagt er blaðið ákaflega keimlíkt því Se og hør sem ég las samviskusamlega vikulega heima hjá ömmu minni og afa, 9 ára gömul, og sjálfsagt er það eins enn í dag. Það eina sem breytist er það hver er með hverjum og hver fær mesta athygli, og svo breytist eitthvað klæðaburðurinn hjá fólkinu með tískusveiflunum.

16. júní 2012

Íburðarmikla háskólabókasafnið í Coimbra

Á ferðalagi okkar um Íberíuskagann höfum við Guðrún Elsa og Kristín Svava lagt okkur fram um að heimsækja bækur, hvort sem er í bókabúðum eða á bókasöfnum. Eitt þeirra fjölmörgu bókasafna sem við höfum heimsótt, og án efa það glæsilegasta, er gamla háskólabókasafnið í Coimbra. Það er í barokkstíl, byggt á 18. öld, og kennt við João konung fimmta. Það mátti ekki taka myndir inni á safninu en við tókum tvær myndir úti fyrir og stálum hinum af netinu.
Framhlið bókasafnsins.

29. apríl 2012

Konunglega bókasafnið í Mafra

Fátt er meira við hæfi á sunnudögum en að heimsækja gamlar konungshallir. Í dag tók ég rútu út fyrir Lissabon og skoðaði konungshöllina og klaustrið í Mafra, sem João konungur fimmti lét byggja á fyrri hluta 18. aldar til að þakka almættinu fyrir að konan hans hefði loksins fætt honum barn (að vísu stúlku, en hey, þú getur ekki fengið allt). Fallegasti hlutinn af konungshöllinni þótti mér að sjálfsögðu bókasafnið og ég tók nokkrar myndir af því til að deila með lesendum bókasíðunnar. Meðal bókanna í safninu ku vera dýrmæt fyrsta útgáfa af frægasta verki stórskáldsins Luís de Camões, Os Lusíadas.

19. mars 2012

Garðbókasafnið í Estrela












Þetta krúttlega almenningsbókasafn hefur verið starfandi í Estrela-almenningsgarðinum í Lissabon frá því á 4. áratug síðustu aldar. Bókasafnið er opið eftir hádegi fimm daga í viku.

28. febrúar 2012

Á bókaslóðum í Manchester

Hvaða bókanjörður kannast ekki við það að leita uppi bókatengd fyrirbæri á ferðum um útlönd? Ég hef farið á Jane Austen-safnið í Bath, gengið um Edinborg á slóðum Rebusar vinar míns, ráfað um Oxford í Morse-nostalgíukasti, og þegar ég fór fyrst til Parísar 17 ára gömul langaði mig að vera Andri hans Péturs Gunnarssonar.

John Rylands Library, Manchester
Svo er líka gaman að skoða almennari bókatengd fyrirbæri. Í síðustu viku eyddi ég afar ljúfum degi í Manchester og eitt af því sem ég hafði ákveðið fyrirfram var að skoða John Rylands-bókasafnið. Það reyndist auðvelt að finna þetta fallega safn, sem er háskólabókasafn undir Manchester-háskóla og staðsett í göngufæri við miðbæinn og t.d. Piccadilly-brautarstöðina. Ekki spillir fyrir að um miðborgina alla ganga ókeypis strætisvagnar sem kallast Metroshuttle og er afskaplega einfalt að nýta sér. Gott framtak í þágu umhverfisins og borgarmenningarinnar.

Byggingin sem hýsir John Rylands-safnið var reist fyrir þarsíðustu aldamót og safnið formlega opnað á nýársdag árið 1900. John þessi Rylands ku hafa verið auðkýfingur úr borginni sem sýslaði með bómull og önnur textílefni, en iðnaðararfleifð Manchester byggist ekki síst á vinnslu og sölu textílefna. Það var ekkja Johns, Enriqueta Rylands, sem stofnaði bókasafnið og styrkti byggingu þess í minningu eiginmannsins sem lést 1888. Ansi veglegur minnisvarði það.

Og hvað er svona skemmtilegt við að skoða John Rylands-bókasafnið?

18. febrúar 2012

Bokasofn eru vinir minir, meira ad segja i Bretlandi

Eg verd ad bidja lesendur ad umbera skort a islenskum stofum i thessari faerslu - eg er stodd i Edinborg og ekki med eigin tolvu, og er sannarlega ekki nogu taeknilega klar til ad finna islenska stafi, ef thad er yfirhofud haegt ...

Mitchell-bokasafnid er med fallegustu byggingum i Glasgow
Af thvi ad eg er i Skotlandi, thar sem eg bjo um tima, vard mer hugsad til horfinna tima og tha medal annars thess thegar eg var ad skrifa mastersverkefnid mitt. Thad sumar var eg mikid a Mitchell-bokasafninu i Glasgow, en vid vinkona min og skolasystir hittumst gjarnan i otrulega tacky lestrarsal sem leit ut eins og eitthvad slys fra upphafi 8. aratugarins. Thar unnum vid i einhverja klukkutima og drukkum svo kaffi saman nidri i kaffiteriunni. Mitchell Library er einn af theim stodum i Glasgow sem mer er serstaklega hlytt til. Gloggir sjonvarpsahorfendur kannast ef til vill vid bygginguna ur upphafsstefi Taggart-thattanna vinsaelu, thar sem ymsum fraegum stodum fra borginni bregdur fyrir. Thar spiludu Belle & Sebastian lika sina fyrstu tonleika fyrir ansi morgum arum, en yfir byggingunni er mikill sjarmi.

Hins vegar er bokasafnamenningin i Bretlandi alls ekki su sama og eg atti ad venjast heima a Islandi. Almenningsbokasofn eru morg hver mjog ospennandi - ef bokasafn getur einhvern tima verid ospennandi - og virdist ekki serlega vel hugsad um thau. Mer skilst ad sofnin seu mun minna notud. Mitchell Library er staersta bokasafnid i Glasgow og vel buid fraedibokum, thott katalogurinn se ad hluta til enn i spjaldskra (sem er reyndar sjarmerandi ef madur er svona retro-typa eins og eg); af skaldsogum og almennu efni er hins vegar fremur fataeklegt urval og thad var ekki mikid glaesilegra i Hillhead-bokasafninu i hverfinu minu.

4. september 2011

Af ástum konu og bókasafns


Í tilefni þess að ég hef nokkrum sinnum á stuttum tíma fengið spurninguna: "Hvar náðirðu eiginlega í þá bók?" ákvað ég að skella inn örstuttri ábendingu fyrir lestrarhesta á Reykjavíkursvæðinu. Ég hef nefnilega rekið mig á það að margir (sérstaklega af minni ágætu kynslóð og yngri) vita ekki af bókasafninu í Norræna húsinu - sem er einmitt svarið við þessari algengu spurningu. Þar næli ég mér iðulega í bækur sem annars er erfitt að nálgast, t.d. hef ég þar fengið aragrúa af góðum norrænum barnabókum, gömlum sem nýjum, skemmtilegar norrænar myndasögur og framhaldsbækur í ýmsum bókaflokkum sem ég hef ef til vill byrjað að lesa á íslensku og ekki getað beðið lengur eftir.

Ef fólk er ragt við að lesa á öðrum norðurlandamálum er upplagt að líta á þetta sem kjörið tækifæri til að bæta við sig lestrarmáli - hugsið ykkur bara allar bækurnar sem bíða manns ólesnar á dönsku, sænsku, norsku og færeysku! Það er að minnsta kosti gulrót sem hrífur á mig.

P.S. Ég sakna samt kaffiteríunnar.
P.P.S. Ég hef enn ekki lagt í finnskuna.

28. ágúst 2011

Bókasöfn heimsins

Ég hef aldrei almennilega getað vanið mig á að lesa og læra í lessölum á bókasöfnum. Mér finnst alltaf svo mikið sem glepur, fólk sem ég þarf að horfa á og allskonar bækur og blöð sem ég þarf að skoða. Þess vegna hef ég aðallega unnið á bókasöfnum þegar ég hef þurft að nota bækur sem ég hef ekki mátt taka með mér út en mestmegnis notað bókasöfn til að fá lánaðar bækur heim, skemmta mér, lesa hitt og þetta óvænt og athuga hvað leynist í hillunum. Bókasöfn eru auðvitað draumastaðir fyrir þá sem kunna að meta bækur (það eru því miður alls ekki allir) og þegar leitað er að myndum af bókasöfnum á netinu rekst bókelskandi kona á margt fallegt. Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir frá ýmsum bókasöfnum. Neðst er mynd og krækja á fleiri myndir af glænýju bókasafni í Japan, það er ansi ólíkt gömlu bókasöfnunum.


Bókasafn í klaustri í Austurríki sem sagt er að hafi orðið Umberto Eco innblástur að Nafni rósarinnar.


Strahov-bókasafnið í Prag, það tilheyrir líka klaustri og flestar bækurnar eru frá 16.-18. öld, yfir 42 þúsund eintök.


George Peabody-bókasafnið við Johns Hopkins-háskólann í  Baltimore í Maryland í Bandaríkjunum.


Lestrarsalur í British Museum í London. Þarna hafa áreiðanlega margir Íslendingar lesið.


Einkabókasafn George Vanderbilt í höllinni hans í New York-fylki. Þarna kom ég þegar ég var barn en man ekkert eftir þessu bókasafani. Þarna eru um tíu þúsund bækur og fínn arinn. Af efri hæð bókasafnsins eru leynidyr inn í svefnherbergi George Vanderbilt, hann vildi auðvitað geta farið beint úr rúminu og inn í bókasafnið.

Í lessalnum í Carolina Rediviva, aðalháskólabókasafninu í Uppsölum í Svíþjóð. Þarna sat Foucault á sínum tíma og vann að Sögu kynferðisins. Um helgar ók hann alltof hratt á sportbílnum sínum til Parísar til að skemmta sér.


Bókasafnið í Norræna húsinu í Vatnsmýrinni. Fallegt og bjart bókasafn þar sem er góður andi.


Háskólabókasfnið í Coimbra í Portúgal, alveg mögnuð mynd af flottu bókasafni.


Örlítið bókasafn í símaklefa í Somerset á Englandi. Þetta finnst mér alveg stórkostleg hugmynd. Ef einhver útvegar mér símaklefa þá heiti ég því að koma upp svona bókasafni í Reykjavík.



Hvernig finnst ykkur nýja bókasafnið í Kanazawa í Japan?

5. júlí 2009

Ljóðabækur á faraldsfæti

Lesendur bloggsins gleðja okkur og ykkur með myndum og bréfum. Anna Hallgrímsdóttir sendi mynd og krækju frá farandbókasafni:

Sælar bókadömur.

Þetta er ekki mín bókahilla, ja þetta er ekki alveg bókhilla per se, heldur farandsbókasafn. The itinerant poetry library.
Bókasafnið hefur ferðast vítt og breitt og þannig hafa ólíklegustu aðilar fengið að njóta góðs af brennandi áhuga bókasafnsfræðingsins á ljóðum.
Ég fékk kort á safnið í fyrra og vona að safnið verði einhvern tímann aftur svo nálægt að ég geti nýtt mér safnkortið mitt.

Kær kveðja,
Anna, nýtilkominn lesandi bloggsins.

Hér er krækja á heimasíðu safnsins.

Við þökkum Önnu að sjálfsögðu af öllu hjarta og bíðum í ofvæni eftir fleiri bréfum og myndum frá lesendum. Netfangið er bokvit@gmail.com.