5. ágúst 2012

Hinsegin bókasafn og bókmenntaviðburðir

Það er alltaf gaman að fara á bókasafnið í Samtökunum '78 og okkur þykir vel við hæfi að minna á það núna þegar Gay Pride-hátíðin er að ganga í garð, enda ekki víst að öllum sé kunnugt um safnið eða ágæti þess.

Bókasafnið er til húsa í höfuðstöðvum Samtakanna '78 á Laugavegi 3, á fjórðu hæð. Það er opið frá 9-17 virka daga og frá 20-22 á fimmtudagskvöldum. Á safninu kennir ýmissa hinsegin grasa, en þar má finna bækur, tímarit, myndbandsspólur, mynddiska og blaðaúrklippur tengdar hinsegin sögu á Íslandi. Leita má í safnkostinum á Gegni og Leiti, en í bókasafninu má finna mikið af myndefni og bókum sem ekki er hægt að finna í öðrum söfnum.

Bókasafnskort hjá Samtökunum '78 er frítt fyrir þá sem eru meðlimir í Samtökunum, en kostar 1000 kr. fyrir aðra. Bækur eru leigðar út til mánaðar í senn, en myndefni til einnar viku og kostar það 300 kr. fyrir meðlimi í Samtökunum en 600 kr. fyrir aðra. Safnið er lítið og notalegt, hægt að setjast þar niður til að lesa og styttra á barinn en í nokkru öðru bókasafni í Reykjavík.


Úrklippusafnið.
Söruh Waters-hillan á sínum stað. Færsla eftir Guðrúnu Elsu um
hina frábæru Tipping the Velvet mun birtast hér á síðunni von bráðar.
Mynddiskahornið. Þar kennir ýmissa grasa eins og sjá má.
Nýjustu bækurnar; Three Women eftir March Hastings, pulp lesbian fiction frá 6. áratugnum,
allt um dragkónga í The Drag King Anthology og skáldsagan Children of the Sun eftir Max
Schaefer, um samkynhneigð og nýnasisma í Bretlandi.
Eins og áður var nefnt eru hinsegin dagar að hefjast í vikunni. Hápunktur hátíðarinnar, gleðigangan, verður farin laugardaginn næstkomandi 11. ágúst, en aðrir viðburðir hefjast strax á þriðjudag. Þá verður meðal annars opnuð í Borgarbókasafninu í Tryggvagötu sýning á teikningum Kristínar Ómarsdóttur af Marilyn Monroe og Gretu Garbo, en druslubókabloggið fjallaði um bók Kristínar um þær stöllur hér. Föstudaginn 10. ágúst verður svo eins og oft áður haldin hinsegin bókmenntaganga í Reykjavík, Mekka kynvillunnar á Íslandi. Gönguna leiða Úlfhildur Dagsdóttir og Darren Foreman og gangan verður í þetta sinn á ensku, en að venju þvílíkt gay. Hún mun hefjast á Ingólfstorgi klukkan 17:00.

Guðrún Elsa og Kristín Svava

Engin ummæli: