28. ágúst 2012

Tipping the Velvet: Æsispennandi nítjándualdarlesbíumelódrama með kyngervisusla og kynlífi í hæfilegum skömmtum

Fyrir um það bil þremur árum var ég í bókabúð í London og sá bók sem mér fannst ég kannast við, líklega hafði ég lesið um hana einhvern tímann. Ég setti hana með bókunum sem ég ætlaði að kaupa og stakk henni svo í hillu þegar ég kom heim. Ég tók hana ekki úr hillunni fyrr en einn fagran sunnudagsmorgun núna í sumar og mér varð afskaplega lítið úr verki þar til lestrinum var lokið. Ég hef ekki orðið svona spennt yfir bók lengi, svo lengi að mér fannst það hálf óraunverulegt að hún skyldi hafa beðið mín örfáum metrum frá rúminu mínu í allan þennan tíma og ég látið eins og ég sæi hana ekki.

Tipping the Velvet, fyrsta bók Söruh Waters, kom út árið 1998. Sögusvið bókarinnar er England undir lok nítjándu aldar og í henni er sögð saga Nancy Astley, stúlku sem vinnur í eldhúsi ostruveitingastaðar fjölskyldu sinnar í Whitstable í upphafi bókar. Á hverju laugardagskvöldi fer Nancy með systur sinni til Kantaraborgar þar sem þær heimsækja Canterbury Palace og horfa á söngvara, loftfimleikamenn og ýmiss konar listafólk koma fram. Kvöld eitt stígur söngkonan Kitty Butler á svið, með drengjakoll, í jakkafötum og með pípuhatt. Nancy verður svo hrifin að hún tekur lestina til Kantaraborgar á hverjum degi næstu vikuna bara til að sjá hana – og fljótlega tekur Kitty eftir henni líka. Atburðarásin sem fer af stað eftir að Nancy kynnist Kitty er spennandi og ófyrirsjáanleg, melódramatísk í þeim skilningi að hún einkennist af tilviljunum, dramatískum umskiptum (ýktum breytingum í aðstæðum aðalpersónunnar) og sterkum tilfinningum. Þeir sem vilja raunsæjar bókmenntir ættu því kannski að sleppa þessari, annars er hætta á að þeir verði pirraðir yfir smáatriðum (eins og til dæmis því að næstum allar konurnar sem Nancy hittir séu samkynhneigðar).

Bókin er bæði ástarsaga og þroskasaga, hún fjallar um það hvernig Nancy uppgötvar kynhneigð sína og „verður til“ sem kynvera og fullorðinn einstaklingur. Mér varð hugsað til bóka eins og Hungurleikanna og þó sérstaklega Ljósaskipta-seríunnar við lesturinn, en ég hafði einmitt lesið einhverjar bækur úr þeim bókaflokkum undanfarna mánuði þegar mig langaði að dreifa huganum og upplifa allar tilfinningarnar sem vakna við lestur ástar- og spennubóka. Mér þótti Hungurleikarnir aðeins betri en Ljósaskipti, en hvorugar bókanna voru eins spennandi og bók Waters, sem kemur ef til vill á óvart þar sem hún fjallar ekki um baráttu milli lífs og dauða og forboðna ást á jafn ýktan hátt og hinar bækurnar. (Erum við kannski komin á þann stað að ást konu og vampýru er einhvern veginn hversdagslegri og leiðinlegri en ástir kvenna?)

Kitty og Nancy í BBC-þáttunum
Ég veit að bók Waters er ekki skrifuð sérstaklega fyrir ungt fólk, eins og Hungurleikarnir og Ljósaskipti, en ég gæti þó ímyndað mér að unglingar hefðu jafn gaman af henni og fullorðnir. Mér þykir hún betur skrifuð en hinar bækurnar (og unglingar þurfa líka góðan texta), valdajafnvægið milli para í Tipping the Velvet er miklu jafnara en í Ljósaskiptum (þar sem yfirráð karlmannsins/vampýrunnar eru allt að því blætisgerð), hefðbundin kynhlutverk eru á reiki og kynlífssenurnar alveg frábærar – en þær skortir sárlega í þær Ljósaskipta- og Hungurleikabækur sem ég er búin með. Ef ungt fólk á að nenna að lesa verður bara að vera svolítill dónaskapur í bókunum sem það fær.

Við Kristín Svava horfðum um daginn á BBC-þættina sem gerðir voru eftir Tipping the Velvet árið 2002. Þeir voru svosem ágætir (þótt okkur hafi þótt aðalpersónurnar málaðar eins og í tískuþætti Nýs lífs árið 1994), en ég mæli mun frekar með lestri bókarinnar. Hún er miklu, miklu betri.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Vona að einhver heppin hafi fundið Tipping the Velvet og framhaldsbókina (sem ég man ekki hvað hét) í Góða hirðinum. Ég var nefnilega að enda við að senda þær áfram í heiminum.

Lana

guðrún elsa sagði...

Vonandi! Bækurnar eru nefnilega ekki til á mörgum bókasöfnum, í rauninni alveg fáránlega fáum. Ég hlakka alveg sérstaklega mikið til að lesa Fingersmith, hef heyrt hún sé mjög góð.

Nafnlaus sagði...

Oh tipping the velvet og fingersmith eru æði…

Erna Erlingsdóttir sagði...

Sarah Waters er í miklu uppáhaldi hjá mér. Tipping the Velvet var fyrsta bókin sem ég las eftir hana og mér fannst (og finnst) hún æði en Fingersmith er ennþá betri, svo þér er alveg óhætt að hlakka til, Guðrún Elsa. Reyndar finnst mér allar bækurnar hennar góðar en 19. aldar bækurnar (þessar tvær og Affinity) standa upp úr. Reyndar vissi ég óþarflega mikið um The Night Watch (sem gerist í seinni heimsstyrjöldinni) áður en ég las hana, ég hefði sennilega orðið hrifnari ef ég hefði ekkert heyrt af henni fyrirfram.