21. ágúst 2012

handavinna í kreppunni

Á síðustu árum hefur holskefla af handavinnubókum skollið á landsmönnum – bæði íslenskar og þýddar. Fróðir menn/konur telja þessa miklu handavinnuástríðu vera eina birtingarmynd kreppunnar – nú eru allir í sjálfsþurftarbúskapnum, búa til frá grunni osfrv. Það er kannski eitthvað til í því en garn kostar reyndar handlegg og fótlegg svo nema þú prjónir allt úr plötulopa (sem ég geri mikið af – hræódýr og fallegur) þá ertu kannski ekki að spara neinar fúglur með prjónaskapnum. En alla vega, þessar handavinnubækur hafa vægast sagt verið afar misjafnar af gæðum og ég ljóstra því hér með upp að þetta hefur valdið talsverðum æsingi í hópi Druslubókadama. Færum handavinnukonum innan hópsins hefur ofboðið sumt það sem á boðstólnum er svo ekki sé meira sagt.




En innan um grjótið leynast auðvitað demantar líka – Nýleg ægifögur bók: Þóra - heklbók eftir Tinnu Þórudóttur Þorvaldsdóttur er falleg að innan sem utan – þ.e.a.s. flíkurnar sem sýndar eru þykja mér afskaplega fínar og svo er uppsetning og útlit bókarinnar sjálfrar mjög fallega unnið enda hæfileikakonur þar á ferð líka: Ingibjörg og Lilja Birgisdætur. Bókin er víst tileinkuð Þóru - langömmu höfundar sem kenndi henni að halda á nál. Þóru - heklbók hef ég nú bara dáðst að í bókabúðum, ég hef ekki enn lært að hekla svo ég hef ekki tímt að kaupa mér hana en kannski er einmitt komin tími til að ganga í það mál? Önnur falleg handavinnubók er Hlýtt og mjúkt fyrir yngstu börnin sem kom út núna í ár. Þegar ég blaðaði fyrst í henni fannst mér myndirnar lofa mjög góðu en þegar ég fór að lesa textann runnu á mig tvær grímur:

Inngangur: Ég átti von á barni...Fyrstu tólf vikurnar voru liðnar. Jú, ég var barnshafandi! Hvað geri ég nú? Prjóna!
Já ok – ég var reyndar tiltölulega nýbúin að eiga barn þegar mér áskotnaðist bókin en mundi ekki alveg eftir þessari innri kröfu...eða jújú – ég man ég hugsaði að það væri alveg gaman að prjóna eitthvað á barnið en einhvern veginn liðu mánuðirnir við leik og störf...aðallega störf og þegar upp var staðið náði ég bara að henda í tvö lítil teppi...nú er barnið sjö mánaða og á engar flíkur prjónaðar af ástúðlegum móðurhöndum. Hann ber sig vel. Nema hvað – ég gat svo sem samþykkt þetta en á næstu síðu kom:

Það er gott að finna að þörfin fyrir að prjóna eykst í réttu hlutfalli við ummál magans. Kannski hefur þú ekki snert á prjónum síðan þú varst í grunnskóla og fyllist áhuga þegar þú sérð uppskrift sem fellur þér í geð. Þú bara verður! Frumhvötin ræður og segir þér að útbúa eitthvað hlýtt og notalegt fyrir barnið þitt! [það eru tíu upphrópunarmerki á fyrstu tveimur síðunum...og það er ekkert sérlega mikill texti milli þeirra] Svo þú lendir ekki í grátkasti eða fáir taugaáfall, brjótir allt og bramlir á heimilinu og jafnvel ráðist á þá sem verða á vegi þínum ÞÁ SKALTU LESA ÞAÐ SEM HÉR FER Á EFTIR ÁÐUR EN ÞÚ HEFST HANDA!

Mér varð nú svo um og ó eftir að May B. Langhelle hafði æpt svona á mig að ég varð að leggja frá mér bókina í nokkra daga. En þegar þessum meðgönguhúmor loksins lýkur verður að segjast eins og er að það eru margar góðar ábendingar í bókinni. Eins og að nota stærri prjóna og gófara garn ef maður er mjög óþolinmóður því maður er auðvitað mun lengur að prjóna með fínum prjónum og garni. Og að það er voðalegt vesen að rekja upp mjög loðið garn - og að velja einfaldar uppskriftir eins og teppi í garðaprjóni ef maður ætlar að prjóna fyrir framan sjónvarpið (þetta hefur einmitt verið mín reynsla í gegnum árin). En aðal kostur þessarar bókar er að í henni eru skiljanlegar uppskriftir að fallegum flíkum sem maður sér alveg fyrir sér að væri gaman að klæða barnið sitt í – nú eða gefa öðrum litlum börnum (t.d. ef maður er svo lengi að lufsast með garnið á prjónunum að barnið er löngu vaxið upp úr flíkinni þegar hún er loksins til). Hér eru líka raunverulega margar mismunandi uppskriftir en ekki (eins og stundum hefur viljað brenna við) margar síður af sömu flíkinni með örlitlum breytingum (eins og mismunandi litum í munstrinu). Leiðbeiningar eru á stöku stað dálítið ruglingslegur en ég átta mig ekki á því hvort það er við May eða þýðandann (Ingveldi Róbertsdóttur) að sakast. En almennt eru uppskriftirnar ágætlega skiljanlegar og margar sáraeinfaldar. Nú er bara að fitja uppá (og vona að ég rústi ekki heimilinu!!!)

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þóra heklbók er dásamlega falleg og skemmtileg. Hún fékk mig til að vilja hekla og ég er að læra það hægt og rólega með hjálp bókarinnar (og mömmu). Skemmtilegar uppskriftir í henni líka. :)