16. ágúst 2012

Sagan af Constance Lloyd, Wilde, Holland


Ég giska á að markaðsfræðingar hafi
ráðið leturstærð á nöfnum þeirra hjóna.
Ég var mikil áhugamanneskja um Oscar Wilde þegar ég var unglingur. Áhugi minn á honum stafaði að hluta til af hrifningu á bókunum hans og að hluta til af því hvað líf hans hafði verið ómótstæðilega tragískt, sjálfseyðingarhvötin og hin ódeyjandi ást á skíthælnum snoppufríða Lord Alfred Douglas.

Ég hafði lesið mér til um líf hans og vissi að hann hafði verið giftur og átt tvo syni. Þegar við systir mín skemmtum okkur við að búa til síður á Barnalandi fyrir „börnin okkar“ Brasilíu Mist, Venesúelu Nótt og Enok Sörla var það mynd af hinum bráðfallega syni Oscars Wilde, Cyril, sem við stálum af netinu og settum á síðuna hans Enoks Sörla. (Við fengum meira að segja sérstakan umræðuþráð á Barnalandi í kjölfarið, þótt það geri reyndar enginn sérstaka athugasemd við nítjándu aldar yfirbragð Enoks litla.)

Ég verð samt að viðurkenna að ég hafði aldrei leitt hugann sérstaklega að örlögum hinnar ógæfusömu eiginkonu Oscars Wilde fyrr en mamma lánaði mér ævisöguna hennar, Constance. The Tragic and Scandalous Life of Mrs Oscar Wilde eftir Franny Moyle. Bókin kom út á síðasta ári og er reyndar ekki fyrsta ævisagan sem skrifuð hefur verið um Constance Wilde; mér sýnist á bókalistanum aftast að skrifaðar hafi verið bækur um velflesta þá sem stóðu Oscari Wilde nærri, til dæmis Oscar Wilde and His Mother eftir Önnu Brémont, Son of Oscar Wilde eftir son hans Vyvyan, Robbie Ross: Oscar Wilde´s Devoted Friend eftir Jonathan Fryer, að ótaldri Oscar Wilde and Myself eftir Lord Alfred Douglas.

Oft hefur verið litið á Constance sem hagkvæman aukahlut í lífi Oscars, þýðingarlitla kvenpersónu sem hann giftist til fjár og til að senda samfélaginu réttu skilaboðin, en hér fær hún ákveðna uppreisn æru. Franny Moyle dregur úr fjárhagslegum ávinningi Oscars við giftinguna og telur að þau hafi raunverulega elskað hvort annað í upphafi – þótt það sé alltaf erfitt og ekki endilega æskilegt að reyna að setja hugtök á borð við ást og hagkvæmni í augum fólks sem var uppi fyrir meira en öld í flokka sem okkur finnst passa þeim í dag.

Constance Wilde hét upphaflega Constance Lloyd og var fædd í London árið 1859 inn í vel stæða efri stéttar fjölskyldu. Hún var rétt rúmlega tvítug þegar hún kynntist Oscari Wilde, sem var fimm árum eldri en hún, og eftir nokkurt tilhugalíf gengu þau í hjónaband vorið 1884. Hann var þá byrjaður að skrifa ljóð og halda fyrirlestra og geta sér nafn í samfélaginu. Constance varð fljótlega ólétt og hjónin eignuðust tvo syni, Cyril og Vyvyan, með stuttu millibili.

Samband þeirra hjóna var gott í fyrstu. Þau höfðu sameiginleg áhugamál og unnu jafnvel saman að ritsmíðum og tímaritaútgáfu. Það eru til að mynda ekki allir sem vita að Oscar Wilde var ritstjóri hins framsækna kvennatímarits The Woman´s World um tveggja ára skeið og þau hjónin deildu tiltölulega róttækum skoðunum á kvenréttindum. Constance tók virkan þátt í baráttu fyrir þægilegri klæðatísku kvenna, að þær hættu að ganga í lífstykkjum og hælaskóm sem færu illa með líkamann en tækju upp klæðnað sem hentaði athafnasömu lífi konunnar inni á heimilinu og utan þess; sjálf klæddist hún t.d. oft hinu svokallaða divided skirt, sem var eins konar buxnapils. Sem eiginkona hins þekkta menntamanns Oscars Wilde var hún mikilvæg tískufyrirmynd í ákveðnum kreðsum og því var lýst í tímaritum hvernig hún klæddist við hin ýmsu tilefni. Þessi hápólitíska 19. aldar tískustefna þótti mér mjög áhugavert fyrirbæri. Constance kom ennfremur við sögu hreyfingar sem stóð fyrir fyrstu framboðum kvenna til sveitarstjórnar í Bretlandi.

Constance og hinn fríði sonur hennar Cyril.
Sjálf þótti Constance með fallegustu konum á sinni tíð.
Einn af kostum bókarinnar er hversu mikið Franny Moyle notar sendibréf sem heimildir, meðal annars sendibréf Constance sjálfrar, sem var ötull bréfritari. Gegnum þau kynnist maður persónu hennar, skarpri konu með svolítið prakkaralega kímnigáfu, sérstaklega þegar hún er ung og skrifast á við Otho bróður sinn; þá er hún ekkert að skafa utan af hlutunum. Maður finnur kannski aðeins meira fyrir þeim hundrað og tuttugu árum sem aðskilja mann frá henni þegar hún verður regluleg viktoríönsk efri stéttar húsmóðir, verður trúaðri, gengur í dularfulla spíritistafrímúrarareglu og eignast einhverra hluta vegna heilan her af öldruðum vinkonum sem hún skrifast á við um hversdagsleg áhyggjuefni og kirkjuferðir. Góð efnahagsleg staða hennar veitti henni töluvert sjálfstæði frá heimili og börnum, sem hún yfirgaf oft um lengri eða skemmri tíma til að sinna eigin hugðarefnum. Hún fékkst til dæmis við ljósmyndun, ferðaðist töluvert og hafði mikinn áhuga á hvers kyns listum og menningu. Hún skrifaði og birti ævintýri fyrir börn og Franny Moyle færir meira að segja fyrir því rök að Constance gæti verið höfundur sögunnar um eigingjarna risann sem fræg er úr bók Oscars, The Happy Prince and Other Tales.

Það er dálítið skemmtileg saga í bókinni um aðalágreiningsefni hjónanna í listum, en það voru tengsl siðferðis og listar. Oscar hélt því fram að listin væri óháð siðferðinu, en Constance taldi að engin list gæti verið góð án þess að vera siðferðislega góð. Það hefði verið athyglisvert að fá álit Constance á þessu máli aftur nokkrum árum síðar, þegar Oscar hafði verið dæmdur í fangelsi fyrir ósiðlegt athæfi. Það kemur alltént skýrt fram að virðing hennar fyrir eiginmanni sínum sem listamanni var óskert eftir það. Hún fór til dæmis mjög fögrum orðum um The Ballad of Reading Gaol við bróður sinn, en kvæðið er kennt við fangelsið þar sem Oscar sat inni. (Hið öllu persónulegra rit De Profundis kom ekki út fyrr en eftir dauða bæði Constance og Oscars.)

Þótt Constance og Oscar færu gjarnan saman í leikhús og veislur var líf þeirra utan heimilisins að mörgu leyti aðskilið. Hlutverk Constance var þrátt fyrir allt að vera hin trygga eiginkona en Oscar var bóhemískur listamaður sem svallaði í London og sótti vændishús í París milli þess sem hann dvaldi á heimili þeirra. Smám saman sogaðist hann dýpra í þann heim; fór að drekka óhóflega, djamma út í eitt og steypa sér í skuldir. Á síðari hluta 9. áratugarins byrjaði hann að eiga í ástarsamböndum við karlmenn og um 1890 kynntist hann hinum alræmda Lord Alfred Douglas – Bosie – og varð yfir sig ástfanginn af honum. Hjónabandi þeirra Constance hrakaði mjög og maður fær að sjá öllu neikvæðari hliðar á Oscari og framkomu hans við konu sína.

Einna dapurlegast þótti mér bréf sem vitnað er til í bókinni þar sem Oscar lýsir því fyrir vini sínum hvernig eiginkona hans hefur fölnað eftir að þau hafa verið gift um tíma og hún fætt tvö börn: „In a year or so the flower-like grace had all vanished; she became heavy, shapeless, deformed: she dragged herself around the house in uncouth misery with drawn blotched face and hideous body, sick at heart because of our love. It was dreadful.“ Það hlakkaði í mér þegar ég las þetta og minntist bréfsins sem ég las annars staðar sem Oscar skrifaði Bosie elskhuga sínum nokkrum árum síðar. Þá hafði Bosie veikst og Oscar hjúkrað honum af nærgætni og umhyggju. En svo veiktist Oscar sjálfur og þá var enga blíðu að fá, heldur horfði Bosie á hann með fyrirlitningu, veikan og kvefþrútinn í rúminu, og stakk svo af til að gera eitthvað skemmtilegra. Þegar ég las þetta fyrst engdist ég af samúð í garð Oscars – eftir lýsingarnar á þreyttri eiginkonu hans eftir tvær fæðingar á tveimur árum finnst mér gott á hann að hafa fengið að reyna þetta sjálfur.

Bosie og Oscar
(Það er reyndar alveg magnað hvað Lord Alfred Douglas hefur fengið hræðileg eftirmæli sem manneskja; eigingjarn, barnalegur og illa innrættur. Hún kætti mig þess vegna líka frásögnin í ævisögu Samuels Steward af því þegar hann fór til Bretlands sem ungur bókmenntamaður gagngert í þeim tilgangi að sofa hjá Lord Alfred, þá öldruðum manni, til að komast „þangað sem Oscar hafði verið“. Lýsingarnar á Bosie sem uppþornuðum og tinandi kaþólikka á gamals aldri eru vægast sagt lítið flatterandi, þótt Steward láti sig hafa það.)

En það voru ekki bara langvarandi fjarverur eiginmannsins sem Constance hafði áhyggjur af, enda var hún alltaf á töluverðu flakki sjálf, heldur eyddi Oscar um efni fram og það lenti ítrekað á henni að redda málunum – reyndar ekki bara fyrir hann heldur einnig fyrir móður hans, írsku skáldkonuna Sperönzu, sem Willie bróðir hans sá um að drekka út á gaddinn. Stöðug innkoma heimilisins var það fé sem Constance erfði frá föðurafa sínum þannig að þótt Oscar hafi ef til vill ekki gifst henni til fjár varð hann óumdeilanlega fjárhagslega háður henni í hjónabandinu, ekki síst vegna þess hversu eyðslusamur hann var og hrifinn af því að kaupa blóm og sígarettuöskjur handa ungum mönnum. Það er ekki laust við að maður fái innilokunarkennd fyrir hönd Constance í þessu vonlausa peningavafstri.

Árið 1895 hrundi svo allt saman. Faðir Bosie, markgreifinn af Queensberry, hóf að saka Oscar um að eiga í glæpsamlegu sambandi við son hans. Oscar kærði hann fyrir meiðyrði en tapaði málinu og var í kjölfarið sjálfur kærður og sakfelldur fyrir samkynhneigð, í frægum réttarhöldum sem blöðin sögðu ítarlega frá, og almenningur fylgdist spenntur með niðurlægingu rithöfundarins og leikskáldsins. Oscar var dæmdur til tveggja ára erfiðisvinnu og jafnframt gjaldþrota.

Constance Holland.
Í kjölfar réttarhaldanna flúði Constance til meginlands Evrópu með syni þeirra og þau settust að í Þýskalandi undir nýju nafni; Holland. Otho bróðir Constance hafði sjálfur steypt sér í skuldir í Bretlandi, flúð til meginlandsins og tekið upp millinafn sitt, sem var Holland. Samkvæmt Franny Moyle var ekki óalgengt að Bretar sem höfðu á einhvern hátt komið sér illa í heimalandinu, fjárhagslega eða siðferðislega, dveldu í útlegð í Evrópu þar til hægðist um heima fyrir. Þau systkinin hófu því nýtt líf á meginlandinu undir sama nafni eftir sitt hvorn skandalinn. Constance var í reglulegu sambandi við Oscar, sem flutti til Frakklands eftir að hann losnaði úr fangelsi, og þau orðuðu jafnvel möguleikann á því að sameinast á ný, en þegar til kom hóf Oscar aftur samband sitt við Bosie, Constance og vinum sínum til mikilla vonbrigða. Því miður auðnaðist Constance ekki langt líf og hún dó í kjölfar misheppnaðrar skurðaðgerðar árið 1898. Oscar sjálfur var illa farinn á sál og líkama eftir fangelsisdvölina og lést aðeins 46 ára gamall árið 1900.

Eins og heyra má er þetta engin sérstök gleðisaga en lesturinn var ánægjulegur engu að síður og bókin er prýðileg ævisaga. Síðustu kaflarnir þóttu mér áhrifamestir, enda afar átakanlegir, þegar Constance og Oscar eru komin í algjöra blindgötu, fórnarlömb samfélagsins hvort á sinn hátt. Eiginkonu- og húsmóðurhlutverkið sem hún hefur alltaf litið á sem sitt og reynt að leysa sem best af hendi hefur leitt hana í glötun; eiginmaður hennar situr í fangelsi fyrir glæp sem henni og samfélaginu þykir skelfilegur, hún hefur verið niðurlægð opinberlega, lánadrottnar Oscars eru á hælunum á henni og hún veit ekki hvort eða hvar hún mun geta framfleytt sonum sínum. Oscar sjálfur er fastur í sinni eigin harmsögu, hann sem hefur lifað hinu ljúfa lífi af hugmyndafræðilegum ákafa situr nú í fangelsi við ömurlegar aðstæður, sviptur æru og eignum. Ég hef lúmskan smekk fyrir ljóðrænum fatalisma, þótt hann geti virkað kaldhæðinn í þessu samhengi, og fann hann hríslast um mig í lokaorðum bókarinnar, sem Oscar skrifar vini sínum í bréfi eftir að hafa vitjað leiðis Constance í kirkjugarðinum í Genóa: „„Nothing could have been otherwise and life is a terrible thing.“

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Skemmtilegur lestur, takk fyrir mig!
Æsa

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir áhugaverða grein.

Hef lesið þessa fínu bók um Constance og hún er um margt afar fróðleg. Hún fellur þó í sömu gryfju og verðlaunabók Richard Ellman um Oscar (sem myndin með Stephen Fry var gerð eftir). Þessi gryfja felst í því að bækurnar báðar gera ráð fyrir því að Oscar hafi allt í einu orðið hommi og er þá iðulega vísað til þess að Robbie Ross hafi táldregið hann.

Staðreynd málsins er hinsvegar sú (og það hefur komið fram í fjölda nýrri bóka, m.a. nýlegri bók Neil McKenna um ástarlíf Oscars) að Oscar var alltaf samkynhneigður og var þegar farinn að dúlla sér með karlmönnum í Oxford og jafnvel fyrr. Einnig átti hann í langvarandi sambandi við meðleigjanda sinn Frank Miles löngu áður en hann kynntist Constance.

Það er þó enginn vafi á því að þau elskuðu hvort annað Oscar og Constance. En Oscar elskaði hana fyrst og fremst sem vin og félagskap og jafnvel aðdáanda, en ekki sem elskhuga.