20. ágúst 2012

Hungurleikarnir - blóð, ofbeldi en varla kynlíf

Sú fyrsta er best 
Þríleikur Suzanne Collins The Hunger Games eða Hungurleikarnir hefur farið sigurför um heiminn á undanförnum árum og bækurnar verið þýddar yfir á fjöldamörg tungumál, tvær fyrri eru komnar út á íslensku á vegum Forlagsins og fyrsta kvikmyndin leit dagsins ljós nú í vor. Bækurnar eru markaðsettar sem Young Adult eða fyrir unglinga en eru í raun lesnar jafnt af börnum, unglingum og fullorðnum. Slíkar bækur sem svo að segja brúa kynslóðabilin hafa átt vaxandi velgengni að fagna á síðustu áratugum eins og bækurnar um Harry Potter og vampýrurnar í Ljósaskiptunum eru gott dæmi um.
þessi hressa mynd birtist með frétt um að Hunger Games
hefði selt fleiri bækur á Amazon en Harry Potter
Hungurleikarnir gerast í ónefndri framtíð, einhvern tíman eftir að miklar hörmungar hafa dunið á jörðunni og skelfileg stríð verið háð. Sigurvegarar stríðsins ráða ríkjum og stjórna úr höfuðvígstöðvum sínum, borginni Kapítól. Eftir að stríðinu lauk fyrir nærri heilli öld hafa yfirvöld í Kapítól stjórnað hinum umdæmunum með harðri hendi og til minna á eigin styrk og berja niður hvers kyns uppreisnir halda þau Hungurleikana svokölluðu á hverju ári. Þeir fara þannig fram að hvert umdæmi neyðist til að senda dreng og stúlku undir tvítugu til höfuðborgarinnar þar sem ungmennin tuttugu og fjögur eru send á afskekkt svæði og verða þar að berjast uppá líf og dauða þar til einn sigurvegari stendur eftir. Þessari atburðarás er svo sjónvarpað til ríkisins alls, í umdæmunum er fólk neytt til þess að horfa en í Kapítól er þetta gríðarlega vinsælt skemmtiefni.

Lífið í Kapítól er raunar ljómandi fínt – eða virðist að minnsta kosti vera það. Þar er ofgnótt af öllu, munaðarvörur og nýjasta tækni aðgengileg, læknavísindin hafa náð ótrúlega langt og tískan tekur spennandi stökk með hverri árstíð. Í hinum borgunum eða landsvæðunum tólf blasir annar veruleiki við. Þar sveltur fólk, skortir ekki bara munaðarvörur heldur flestar nauðsynjar, heilbrigðiskerfi og menntun. Þó eru það landsvæðin tólf sem framleiða öll matvæli, eldsneyti og raunar allar vörur fyrir Kapítól. Það þarf ekki leita lengra til að lesa út úr þessu ákveðna ádeilu á samband Vesturlanda við þriðja heiminn en framsetning Collins er snjöll því við hefjum söguna í tólfta umdæmi með hinni fátæku en úrræðagóðu unglingsstúlku Katniss. Það er í gegnum hana sem lesandinn kynnist aðstæðum, fyrst í tólfta umdæmi en síðar í Kapitól og þannig má segja að hann nálgist yfirborðsmennskuna og neysluhyggjuna utanfrá og er jafnvel löngu byrjaður að fordæma lifnaðarhætti borgarinnar áður en hann áttar sig á að þeir eru í raun lítið ýkt stæling á raunveruleika okkar.

Söguþráður Hungurleikanna snýst svo um að yngri systir Katniss er valin til að taka þátt fyrir hönd tólfta umdæmis og Katniss býður sig fram til að fara í staðinn fyrir hana. Við fylgjumst svo með henni berjast fyrir lífi sínu og neyðast til að taka önnur líf í vinsælasta skemmtiþætti Kapítól-borgar. Í flestum umdæmunum er lífsbaráttan hörð, lífið snýst um að reyna að útvega mat og aðrar lífsnauðsynjar. Katniss er sextán ára þegar sagan hefst en eftir að faðir hennar lést í námuslysi og móðir hennar lamaðist af þunglyndi fjórum árum áður neyddist hún til að fullorðnast og taka ábyrgð á fjölskyldunni. Hún eyðir dögum sínum mikið til við veiðiþjófnað í skógunum umhverfis tólfta umdæmi og er afraksturinn ýmist seldur á svarta markaðinum eða matreiddur í kvöldmatinn. Ólíkt mörgum kvenhetjum bókmenntanna hefur Katniss lítinn sem engan tíma eða áhuga fyrir útliti sínu eða ástarmálum. Það eru reyndar tveir drengir eða menn í lífi hennar, veiðifélaginn hennar, Gale og Peeta – sem er hinn keppandinn frá tólfta umdæmi. En þó að þeir verði henni báðir mikils virði hefur hún í raun og veru ekki mikinn tíma til að velta sér upp úr því hvað þeim finnist um hana eða hvort þeir hafi áhuga á henni í rómantískum skilningi. Þeir eru vinir, félagar – og sem slíkir lífsnauðsynlegir í hörmungunum sem dynja yfir.

Hugmyndin um raunveruleika sjónvarp þar sem í raun og veru er barist upp á líf og dauða er svo sem ekki ný af nálinni, eitt frægasta dæmið er japanska skáldsagan og kvikmyndin Battle Royale. Hins vegar er margt frumlegt og áhugavert við framsetningu Collins og heimurinn sem hún skapar í kringum þessar aðstæður er sérlega óhugnanlegur. Í upphafi Hungurleikanna eru keppendur gerðir að nokkurs konar raunveruleikastjörnum, þau fá stílista, nýtt útlit og jafnvel nýjan persónuleika – meðvitaðar ákvarðanir eru teknar um hvernig manngerð hver og einn eigi að vera til að öðlast almenningshylli og endurspeglar þetta væntanlega raunveruleikasjónvarp okkar tíma. En síðar þegar Katniss verður uppreisnarhetja og uppreisnarherinn tekur hana upp á sína arma hefst í raun ekki síðri hagræðing sannleikans eða meðvituð mótun hans. Katniss þarf að líta út rétt til að verða þreyttum og þjáðum uppreisnarmönnum innblástur og hvatning. Orrustur eru háðar fyrir linsum sjónvarpsvélanna og þarf jafnvel aðeins að púðra nefið á fólki áður en það kastar sér fyrir byssukúlurnar.

Bækurnar eru mjög blóðugar og oft grimmdarlegar – lýsingar á því hvernig keppendur drepa hver aðra og skelfilegum pyndingaraðferðum yfirvalda eru vægast sagt hrikalegar. Katniss sjálf er hörð og getur verið óvægin þegar hún þarf á því að halda - það fer því næstum fram hjá lesandanum hvað hún er að sumu öðru leyti mikil fyrirmyndarstúlka. Hún drekkur ekki (það er yfirleitt bara heimska fólkið frá Kapítól sem drekkur - og reyndar ónýtar manneskjur að flýja veruleikan), hún lifir engu kynlífi fyrir hjónaband þótt kossi sé stolið hér og þar og hún fórnar öllu fyrir fjölskyldu sína hvurs verndari og staðgengils-móðir hún er. Að því leyti sver hún sig í raun í ætt við margar íhaldssamari kvenhetjur bókmenntasögunnar.

En hins vegar verður ekki af Katniss tekið að hún á sig sjálf, hún er gríðarlega sjálfstæð, ráðagóð og hugrökk. Í einhverjum blaðadómi las ég að ef einhver héldi að Katniss væri týpísk Disney-hetja þá væri þeirri ímynd splundrað strax í fyrsta kafla þegar hún segir frá því að lítið dýr hafi farið að elta hana á ferðum hennar um skóginn – þarna hefðu margir eflaust búist við að dýrið yrði hennar tryggasti vinur bókina á enda en þá vendir Collins kvæði sínu í kross og lætur Katniss drepa dýrið og flá og selja skinnið á svarta markaðinum (það fældi frá henni bráðina). Svo er Katniss ekki fullkomin sem er afskaplega þakklátt. Hún tekur rangar ákvarðanir, hún dregur rangar ályktanir og hún þarf oft að éta ofan í sig stór orð. Þótt hún sé ekki beinlínis sprúðlandi húmoristi sleppur hún við örlög margra hetja – að vera leiðinleg.

Landið Panem - sögusvið bókanna – stendur þar sem í dag er Norður-Ameríka og bókin er leynt og ljóst að vinna með bandarískan raunveruleika (enda höfundurinn bandarísk sjálf). Með augum Katniss sjáum við fólk Kapítól hafa raunverulegar áhyggjur af því að velja fataþema fyrir afmælisveislurnar sínar, fara í undarlegar skurðaðgerðir til að halda sér unglegum og fara í veislur þar sem gestir drekka reglulega uppsölulyf til að geta haldið áfram að raða í sig kræsingunum á meðan að þorri manna sveltur. Stjórnvöld eru kannski ill en kerfið gengur upp af því íbúar Kapítól eru eins flissandi hálfvitar – fullkomlega blindir á þjáningar þjóðarinnar. Í öllu þessu felst auðvitað hörð ádeila á Bandaríkin en ekki síður Vesturlönd öll. Þeir sem fara með völdin stjórna umdæmunum með hervaldi og harðræði en íbúum Kapítól með allsnægtum og heiladauðri afþreyingu. Þannig gera íbúarnir sér ekki grein fyrir því að í raun eru þeir ekki frjálsari en þrælar umdæmanna – þetta er enn undirstrikað með vísun til hins rómverska orðasambands Gefum þeim brauð og leika. En hversu augljós sem manni finnst ádeilan vera er auðvitað alltaf hægt að leggja annan skilning í textann þannig ég las t.d. umfjöllun um bækurnar þar sem bandarískur gagnrýnandi taldi augljóst að með lýsingum á stjórnarfari Panem væri höfundurinn að gagnrýna harkalega einræðisríki múslima í dag...

Bækurnar velta upp mörgum áhugaverðum spurningum - um neysluhyggju nútímans, um ógnir stríðs, og um hvað felist í því að vera hetja. En þegar upp er staðið snúast kannski stærstu og áhugaverðustu spurningarnar um það hvernig sé hægt að halda í mennsku sína í aðstæðum sem krefjast ómennsku. Það eru engin einföld svör (sem betur fer) og óhætt að segja að skelfilegir hlutir gerist áður en yfir lýkur en ef einhverja niðurstöðu er að finna þá væri hún um mikilvægi þess að reyna halda í mennskuna, halda í samhyggð og það held ég hljóti að vera ágætis niðurstaða.

(byggt á pistli sem var fluttur í Víðsjá í júlí)

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

SPOILER-BARA FYRIR ÞÁ SEM HAFA LESIÐ ALLAR BÆKURNAR ÞRJÁR.

Ég er frekar ósammála því að Katniss uppfylli einhverja staðalímynd með því að drekka ekki, vera í móðurhlutverki og stunda ekki kynlíf. Ég á til dæmis erfitt með að túlka lok þriðju bókarinnar öðru vísi en svo að Katniss stundi kynlíf, og ekki er hún gift þá. Auk þess er hún frekar ung í gegnum allar bækurnar og því ekki endilega á drykkjualdri, og þó hún hugsi um fjölskyldu sína þá á sú umhyggja sér ekki beint kvenlegan farveg, það mætti ef til vill frekar kalla hana staðgengils-föður. Í það minnsta upplifði ég það ekki svo að þessir þrír þættir væru meginþema í bókunum eða hefðu afgerandi áhrif á persónusköpun hennar.

Ragnhildur.