4. ágúst 2012

Leyndarmál síldarverkenda

Í jarðgöngum getur verið gagnlegt
að vita um stystu leiðina út.
Í júlí dvaldi ég um tíma á gömlum heimaslóðum norðanlands. Drjúgur hluti af tímanum fór í að liggja í leti sem var ósköp gott (sumarfrí er dásamleg uppfinning) en ég notaði líka tækifærið til að gerast túristi og kanna staði sem ég hafði sjaldan eða aldrei séð áður. Til dæmi hafði ég bara komið einu sinni til Siglufjarðar en nú eru komin þessi líka fínu Héðinsfjarðargöng og það tekur engan tíma að skreppa frá Akureyri. Ferðin var vel þess virði, Siglufjörður er laglegur bær og það var indælt að sitja úti á Kaffi Rauðku með kaffibolla, skoða söfnin í bænum, sérstaklega Síldarminjasafnið, rölta um bæinn og borða að síðustu á Hannes Boy Café. Nú eruð þið kannski farin að velta fyrir ykkur hvernig þetta kemur bókabloggi við. Vissulega var ferðin ekki sérlega bókmenntaleg - og þó. Á Síldarminjasafninu varð allavega á vegi mínum forvitnileg bók.

Þarna fæst góður matur og kaffi.
Handbók síldverkunarmanna var, eins og fram kemur á miða með safngripnum (sjá mynd neðst í færslunni), gefin út í 450 tölusettum eintökum og í Gegni má sjá að það gerðist árið 1939. Í bókinni eru væntanlega ýmsar gagnlegar upplýsingar en athyglisverðast fannst mér þó að sjá að menn virðast hafa óttast atvinnunjósnir. Á miðanum segir nefnilega líka: "Í bókinni var eyðublað undir eiðstaf, sem handhafar urðu að undirrita, sem fól í sér loforð um að veita ekki óviðkomandi eða útlendingum upplýsingar um innihald bókarinnar."

Orðalagið "óviðkomandi eða útlendingum" vekur ýmsar spurningar. Var samkeppnin við útlendinga svo hörð að sérstök ástæða þætti til að óttast atvinnunjósnir frá þeirra hendi? Gátu útlendingar verið "viðkomandi" en máttu samt ekki fræðast um síldarverkun? Er þetta dæmigerð íslensk xenófóbía?

Þetta er ekki síld.
Hin stóra spurningin er svo að sjálfsögðu: Hver voru leyndarmál síldarverkendanna?

Ja, það er ekki gott að segja. Þó varð ég nokkurs vísari um rétt handtök við slógdrátt því þeim er lýst ítarlega. Í bókinni segir m.a.:

"Rétta takið við slógdrátt er: Þumalfingur vinstri handar styður á hægri hlið síldarinnar, aðeins kviðmegin við hrygginn og eins framarlega og hægt er, vegna skæranna. Hinir fingurnir halda svo á móti, eins framarlega og hægt er. [...] Skærunum á að halla dálítið aftur á við, og grípa með þeim fast upp að hryggnum, án þess að hálsvöðvarnir skaddist."

Að öðru leyti er ég litlu nær um atvinnuleyndarmálin, enda bókin geymd undir gleri á safninu eins og við er að búast. Síldarverkunin er mér því ennþá álíka lokuð bók og áður.


Handbók síldverkunarmanna er til sýnis á Síldarminjasafninu.
Smellið á myndina ef þið viljið sjá hana stærri.

Engin ummæli: