9. september 2011

Risar, hríslur og töfrandi ferðalög

Þessi býr í Lapplandi.
Tré hafa verið mér hugleikin undanfarin misseri. Kannski afþví ég hef búið í Finnlandi, hvers landslag einkennist af trjám-trjám-trjám í svo endalausum beinvöxnum röðum að það sést varla í skóginn fyrir þeim (hver hélt því annars fram að landslag væri aldrei leiðinlegt?). Í sumar fór ég í ródtripp til Finnmerkur, eða þess hluta Lapplands sem liggur norðan finnsk-norsku landamæranna og sá hvernig landslagið breyttist eftir því sem norðar dró: trjám fækkaði uns nánast engin voru eftir og jafnframt urðu þau lágvaxnari og kræklóttari. (Þegar ég sá fyrst svona víðfeðma birkiskóga í útlöndum, með uppréttum eintökum og ljósum berki, þá fattaði ég ekki einusinni strax að trén væru af sama kyni og birkihríslur Reykjavíkur.) Með öðrum orðum, gróðurfarinu (og landslaginu reyndar með) svipaði sífellt meir til Íslands og í nyrsta hluta Noregs gaf fátt til kynna að við værum annarsstaðar en í íslenskum óbyggðum. Nema kannski stöku hreindýrskálfur á beit.

Í vor fór ég aðra ferð, til Kaliforníu, skoðaði þar m.a. risafuruskóga með nokkur þúsund ára gömlum trjám og fannst vægast sagt frekar töff. Þetta var sömuleiðis fyrsta skipti sem ég kom út fyrir Evrópu og ég upplifði margt, meðal annars náttúruna, sem einhvernveginn merkjanlega útlendara en í gamla heiminum. Upplifði hvað þekking mín á ýmsum náttúrufyrirbærum er í raun takmörkuð og heimóttarleg, þar eð svo gríðarmargar sortir þrífast jú bara alls ekki uppi á Íslandi. Því þótti mér mikill fengur í því – og nálgast nú bókatengingar pistilsins – að finna í fornbókabúð í Norður-Kaliforníu (nánar til tekið í Mendocino, en dvöl í þeim krúttlega smábæ hefur eðalrithöfundurinn Richard Brautigan lýst á sinn grátbroslega einkennishátt í síðasta verki sínu, Ógæfusömu konunni) bókina Simon & Schuster's Guide to Trees. Þetta er um 400 síðna uppflettirit frá árinu 1978, með yfir 650 myndum – 350 in full color!
R. Brautigan með stráhattinn (en undirrituð festi
einmitt kaup á einum slíkum í Kaliforníureisunni).
Einnig inniheldur ritið ýmsan fróðleik um tré:

POPULUS ALBA, White Poplar (distributed from central-southern Europe to western Asia and North Africa): Etymology: Derived from arbor populi, the people's tree, the name the Ancient Romans used for the same plant.
SEQUOIA SIMPERVIRENS, Coast Redwood (native to California and Oregon): Etymology: Commemorates the Cherokee chief and scholar Sequoyah, who devised an alphabet for the Cherokee language.

Trjáabókin góða.
Redwood-trén eru risafururnar, en önnur tegund þeirra nefnist METASEQUOIA GLYPTOSTROBOIDES eða Dawn Redwood / Water Larch: found in the fossil state in Japan in 1941, discovered living in central China near the Yangtze river shortly afterwards, from there introduced into America and Europe – sem þýðir að risavaxnar finnist þær ekki utan Asíu. (Ég er semsagt að þróa með mér ferðabakteríu út frá því hvar falleg og exótísk tré kynnu helst að finnast.)

Þetta fallega tré sást í San Fransiskó en
deilir því miður jarðvegi með McDonald's.
Útfrá þessu fór ég síðan að hugsa um tré í bókmenntum og komst reyndar að fleiri niðurstöðum en ég hefði fyrirfram búist við. Fyrst má auðvitað nefna Enturnar í Hringadróttinssögu. Svo er það Ljónið, nornin og skápurinn eftir C.S. Lewis: töfraskápurinn, upphafspunktur ferðarinnar til Narníu, var unninn úr trénu sem óx upp af öðrum töfrahringanna tveggja sem sagt er frá í Frænda töframannsins, sem er fyrst í tímaröð Narníusagnanna sjö þótt hún sé sjötta í útgáfuröðinni. Nú og svo eru náttúrlega heimsbókmenntahríslur á borð við ask Yggdrasils og skilningstré góðs og ills! Kemur nokkrum fleira í hug þessu tengt, eða bara hverju sem vera skal?

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég er fáránlega léleg í að muna trjánöfn (eins og reyndar líka mannanöfn). En mikið var ég glöð þegar ég komst að því fyrir tilviljun að fallega tréð sem trónir hér fyrir framan húsið mitt og ég vissi að heitir Tilleul, sé linditré, ég man nefnilega svo vel eftir linditrjám úr einhverjum barnabókmenntum, get þó því miður ekki nefnt nein nöfn. Linditré eru háreist og hafa myndarlega perulaga krónu. Kristín í París.

Erla Elíasdóttir Völudóttir sagði...

Linditré! Þau voru náttúrlega fyrirferðarmikil í Ísfólksbókunum - ættarsetrið Lindarbær, ættarnafnið Lind...

Erla Elíasdóttir Völudóttir sagði...

...fengu nafn sitt af linditrjágöngum, semsagt.

Kristín Svava sagði...

Frábær þessi mynd af trénu fyrir framan MacDonalds. Vonandi velta ræturnar staðnum einhvern tímann um koll.

Nanna Hlín sagði...

ég þarf að næla mér í eitt stykki Poplar-tré!