5. september 2011

Fyndnasta bók sem ég hef lesið

Ég minntist um daginn á fyndnustu bók sem ég hef lesið og lenti næstum því í ritdeilu við Steve Martin fyrir vikið. Fyndnasta bók sem ég hef lesið heitir The Thought Gang og er eftir breska rithöfundinn Tibor Fischer. Hún kom út árið 1994 og byrjar svona:
“The only advice I can offer, should you wake up vertiginously in a strange flat, with a thoroughly installed hangover, without any of your clothing, without any recollection of how you got there, with the police sledgehammering down the door to the accompaniment of excited dogs, while you are surrounded by bales of lavishly-produced magazines featuring children in adult acts, the only advice I can offer is to try to be good-humoured and polite”.
Ég veit, þetta er ekkert sérstaklega fyndið, svona þannig séð. Ég las bókina nokkrum árum eftir að hún kom út en samt eru örugglega að minnsta kosti 12 ár síðan og ég hef ekki þorað að opna hana aftur, það er að segja, fyrr en núna. Ég las alla bókina á Kastrup flugvelli og í minningunni sat ég hlæjandi eins og fífl yfir þessari bók á meðan ég beið þar í marga klukkutíma. Þannig að bókin er gríðarlega fyndin í endurminningunni en nú hef ég verið að blaða aðeins í henni og ég er ekki viss.
Maðurinn sem vaknar skelþunnur innan um barnaklámblöð í ókunnri íbúð með lögguna á hurðinni er heimspekingur að nafni Eddie Coffin. Hann man sumsé ekkert eftir því hvað gerðist kvöldið áður, sem er í sjálfu sér ekkert nýtt enda maðurinn með eindæmum blautur en í þetta sinn eru aðstæður háskalegri en hann á að venjast. Honum tekst reyndar að flýja þessar aðstæður fyrir rest, hann stelur fjármunum frá heimspekideildinni í Cambridge þar sem hann starfar og flýr til Frakklands þar sem hann kynnist einhentum (og eineygðum, ef ég man rétt) glæpamanni og psykopata sem heitir Húbert. Þeir kynnast þegar Húbert reynir að ræna Eddie á hótelherbergi hans en Húbert er nýsloppinn úr fangelsi en strax tekinn til við sína fyrri iðju sem hann er satt best að segja ekkert sérstaklega góður í. Þeir Húbert og Eddie ákveða hinsvegar að ræna banka saman og þegar það gengur upp ræna þeir annan og svo annan og svo annan.....fyrir ólíklegustu tilviljanir og þrátt fyrir yfirnáttúrulegan klaufaskap þeirra félaga komast þeir upp með hvert bankaránið á fætur öðru og á meðan á þessu ránsferðalagi um Frakkland stendur ræða þeir heimspekikenningar en Húbert hefur mikinn áhuga á því að kynnast heimspekinni nánar. Að því kemur að þeir ákveða að þeir eigi skítnóg af peningum, þeir ákveða að hætta á toppnum og fremja aðeins eitt rán enn...og hér verður ekki sagt hvernig það fer allt saman.
Þessi lýsing er skrifuð eftir minni, mig minnir að þetta hafi verið nokkurn veginn svona. Nú á eftir að koma í ljós hvort þessi lýsing kveikir í einhverjum en í minningunni er bókin um hugsanagengið sumsé gríðarlega skemmtileg, fyndnasta bók sem ég hef lesið, og ég er ekki alveg tilbúin til að velta henni af þeim stalli, ekki enn sem komið er að minnsta kosti. Og nú væri gaman að heyra í blogglesendum, hvaða bók er skemmtilegasta bók sem þú hefur lesið?

17 ummæli:

Hildur Knútsdóttir sagði...

Úff, erfitt að velja. Ég las fyrstu Adrian Mole bókina um daginn og hló og hló. Og svo hef ég hlegið yfir ansi mörgum John Irving bókum líka.

Þröstur "Spörri" Jónasson sagði...

Mig minnir einmitt að The Thought Gang sé bráðfyndin, en ég var samt að mestu búinn að gleyma henni. Fyndnasta bók sem ég hef lesið er samt Good Omens. Einhvernveginn verður hún alltaf sannari og sannari og þá um leið fyndnari og fyndari.

Nafnlaus sagði...

Ef ég ætti að nefna fyndnustu bók sem ég hef lesið þá myndi eflaust Money eftir Martin Amis verða fyrir valinu, en það er orðið mjög langt síðan ég las hana. Það var líka mikill húmor í Pnin eftir Nabokov, en í henni misskilur einn aðfluttur rússi frægt máltæki: “There is an old American saying 'He who lives in a glass house should not try to kill two birds with one stone.”

Ágúst

Nafnlaus sagði...

Öll Discworld serían eftir Terry Pratchett er náttúrulega fáránlega fyndin, og ef ég ætti að velja eina bók þar úr myndi ég segja Small Gods.

Nafnlaus sagði...

Þessi bók hljómar mjög spennandi og hef ég þegar sett hana á óskalistan á amazon, en það fyndnasta sem ég hef lesið, Hmm ?? - P.G. Wodehouse eða Douglas Adams koma til greina, Nei !! auðvitað, það er snillingurin Oscar Wilde og leikrit hans The importance of being Earnest þar sem önnur hver lína er quotable.

Örn Leifsson

Nafnlaus sagði...

Thought Gang er klárlega fyndnasta bók sem ég hef lesið.

Þórdís H.

Erla Elíasdóttir Völudóttir sagði...

Í minningunni er sú langfyndnasta Peð á plánetunni Jörð eftir Olgu Guðrúnu, þegar ég var 12 eða 13. Ég hafði ekki fyrr lesið síðustu blaðsíðuna en ég byrjaði aftur á byrjuninni.

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Ég er mjög léleg í að velja svona besta/mesta/hástigs-dæmi, en ég held gríðarmikið upp á Adrian Mole-seríuna alla og hef ósjaldan vælt úr hlátri yfir henni, nú síðast í vetur þegar mér áskotnaðist sú nýjasta. Svo hló ég bæði og grét yfir Behind the Scenes at the Museum eftir Kate Atkinson, bæði við fyrsta og annan lestur. Það eru yfirleitt Bretar sem kitla hláturbeinið hjá mér, en af íslenskum bókum eru það sennilega Elísarbækurnar sem ég hef hlegið hvað mest að.

Salka Guðmundsdóttir sagði...

P.S. Læk á Erlu!

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Og já, ég tek undir með Ágústi: Pnin er afskaplega fyndin. Það tók mig fyrstu tuttugu síðurnar að átta mig á því, ég var einhvern veginn ekki alveg í sambandi þegar ég byrjaði á henni.

Þorgerður sagði...

Sammála því að Money eftir Amis er bráðfyndin alveg. Og svo þarf ég greinilega að fara að lesa þessar Adrian Mole bækur. Veit samt ekki alveg hvort ég legg í Pratchett...

Nafnlaus sagði...

"Beinagrind skemmtir sér" eftir Thorne Smith er klárlega fyndnasta bók sem komið hefur út á íslensku. Því miður er hún nánast ófáanleg því hún var bara gefin út sem kilja fyrir ca. 50 árum.

Kristín sagði...

Ég get ekki valið eina bók, en ég man að ég hætti um tíma að lesa Ástríksbækurnar á biðstofunni í Tónlistarskólanum, því ég skammaðist mín svo fyrir það hvað ég hló mikið.

Sigfríður sagði...

Síðasta verulega fyndna bók sem ég las var One Good Turn eftir Kate Atkinson.

Kristín Svava sagði...

Ég tek undir með þeim sem nefna Adrian Mole og Elías. Andrabækurnar hans Péturs Gunnarssonar fara ofarlega á listann, en ég kann þær reyndar svo vandlega utan að að ég hlæ ekki upphátt að bröndurunum lengur. Svo er Svejk nú alltaf klassískur.

Maríanna Clara sagði...

David Sedaris er einn fyndnasti höfundur sem ég hef lesið- og ég hlæ alltaf aftur að bókunum. Af íslenskum höfundum held ég að mér finnist Auður Haralds fyndnust - alveg frá Elísarbókunum og að Læknamafíunni og Hvunndagshetjunni - þetta er bara fyndið stöff!

ps. manni finnst alveg gefið að barnaklámið sé á vegum Húberts...en kannski er höfundur að slá nafnagrínsryki í augu manns?

Helga sagði...

Grímur grallari.