27. september 2011

Smábarnabók fyrir foreldra


Myndabókin Go the Fuck to Sleep er eftir bandaríska rithöfundinn Adam Mansbach og myndskreytt af Ricardo Cortés. Henni hefur verið lýst sem smábarnabók fyrir fullorðna og hefur náð gífurlegum vinsældum. Go the Fuck to Sleep náði að vera söluhæsta bókin hjá Amazon mánuði áður en hún kom út en bókin varð óvænt „viral“ þegar bóksalar láku pdf-útgáfum af henni. Go the Fuck to Sleep átti upprunalega að koma út í október 2011 en útgefandinn ákvað að færa útgáfudaginn fram í júní út af þessum óvæntu vinsældum.


Þegar dóttir rithöfundarins var tveggja ára tók það hana allt að tveim tímum að sofna á kvöldin. Uppgefinn á þessari hegðun dóttur sinnar setti hann í gríni þessa færslu á Facebook: „Look out for my forthcoming children’s book, Go the Fuck to Sleep“. Vinir Mansbach voru svo áhugasamir um þessa hugmynd að bók að hann tók strax til við skrifin. Hann fékk vin sinn Ricardo Cortés til að myndskreyta bókina en Cortés hefur meðal annars unnið fyrir The New York Times.


Þó að Go the Fuck to Sleep sé í stíl margra sígildra barnabóka sem ætlaðar eru sérstaklega fyrir háttatíma þá er henni ekki ætlað að koma fyrir augu barna. Í bókinni birtist vögguvísa á 14 opnum þar sem myndskreyting og umfjöllunarefni texta vinna með hefðina á „súbversívan“ hátt. Myndheimurinn er svo sefandi og fallegur að það sækir á mann velgja. Börn og dýr kúra saman í mjúkum náttúrulitum. Kettir og lömb sofa. Það ætti ekkert að hefta svefn barnsins fyrr en maður hnýtur um síðustu línu fyrsta ljóðsins.

The cats nestle close to their kittens now.

The lambs have laid down with the sheep.

You’re cozy and warm in your bed, my dear

Please go the fuck to sleep.

Sögumaðurinn er foreldri, Mansbach, að reyna að koma barninu sínu í háttinn en missir sig yfir uppátækjum barnsins er það reynir að komast hjá því að fara að sofa. Barnið biður um aðra sögu, vatn og bangsa og tíminn líður. Blótsyrðum er fléttað sterkar inn í vögguljóðið eftir því sem angist foreldrisins verður meiri. Litirnir, dýrin og náttúrustemningin gefur eftir bæði í textanum og í myndheiminum fyrir svörtum lit og hversdagslegu heimilisumhverfi. Barnið sofnar ekki og foreldrið hefur ekki lengur þrek í að spinna upp litríkar sögur. Kósíkvöldið með makanum verður að engu og ekkert stendur eftir í minninu nema þessi eilífðarvist í barnaherberginu.

This room is all I can remember,

The furniture crappy and cheap.

You win. You escape. You run down the hall.

As I nod the fuck off, and sleep.Bókin, þó stutt sé, er í það lengsta og það má segja að Mansbach hafi náð öllu úr brandaranum sem hægt er. Er þetta bók fyrir aðra en langþreytta foreldra smábarna? Mögulega ekki. Í Bandaríkjunum hefur Go the Fuck to Sleep fengið á sig holskeflu af gagnrýni bæði fyrir að nota blótsyrði í myndabók, bókarformi sem mögulega gæti komist í hendur á börnum, og einnig fyrir að fjalla á svo ögrandi hátt um samskipti foreldra og barna. Ég er ekki viss um að það sé eins mikið tabú hér eins og í Bandaríkjunum að fyllast örvæntingu gagnvart uppátækjum barna sinna. Allavega kímdi ég yfir bókinni og fann til hressilegrar samkenndar með sögumanninum. En þetta er ekki bók sem mun fá mikinn og endurtekinn lestur ólíkt hinum myndabókunum á heimilinu.

Helga Ferdinandsdóttir

ps. Það er eiginlega betra að hlusta á bókina, en í hljóðbókinni gefur á að heyra seiðandi málróm Samuels L. Jacksons.

4 ummæli:

Harpa Jónsdóttir sagði...

Hér má hlusta á hr. Jackson lesa: http://www.youtube.com/watch?v=CseO1XRYs9I

Ritstjórn sagði...

Frábært, takk Harpa!
Helga F

Maríanna Clara sagði...

mér fannst bókin mjög fyndin og er ég ekki móðir - mögulega geta hinir barnlausu hlegið dátt að víti foreldra?

Erla Elíasdóttir Völudóttir sagði...

Skemmtilegt! Mér varð hugsað til bókarinnar Góða nótt, Einar Áskell - endalausar klósettferðir og vatnsglös til skiptis fyrir svefninn - líklega þó minna af blótsyrðum.