5. september 2011

Uppáhalds ljóðlínurnar

Mér hefur alltaf þótt óskaplega gaman að lesa ljóð. Veit ekki alveg hvernig áhuginn kviknaði, en það var held ég ekki í gegnum það að lesa Skólaljóðin og læra utanað einsog alsiða var í grunnskólum í mínu ungdæmi. Ekki það að ég hef per se ekkert á móti þeirri aðferð og er orðin svoddan „grumpy old fart“ að mér finnst það helsti ljóðurinn á nútíma skólakerfi að börn eru ekki látin læra neitt utanað. Ég meina, það að læra fingrasetningu á ritvél og margföldunartöfluna (utanað nota bene) er algjörlega það hagnýtasta sem ég lærði á minni skólagöngu (fyrir utan kannski prósentureikning, sem er náttúrlega bæði hagnýtur og skemmtilegur).

Sum sé, ég er ekkert sérstaklega mikið fyrir að læra heilu ljóðabálkana utanað (og það þrátt fyrir að faðir minn hafi sem kennari í sumarstarfi við verkamannavinnu hjá Loftorku haft það sem skemmtun að sjá til þess að einn sumarpilturinn lærði hroðalegan ljóðabálk utanað ... upp skaltu á Kjöl klífa, köld er sjávardrífa og svo framvegis og svo framvegis). En það er samt þannig að það eru einhverjar línur og bútar sem bara festast ... maður getur ekki annað en munað þá. Stundum er þetta alveg óvart, en stundum auðvitað afþví að manni finnast þessar línur sérstaklega fallegar, einstaklega fáránlegar eða brjálæðislega væmnar.

Ég hef áður birt á þessari síðu uppáhalds ljóðið mitt, en það er „Winter Trees“ eftir Sylviu Plath. Það er bara eitthvað svo dásamlegt að orð fá því eigi lýst – „the wet dawn inks are doing their blue dissolve“ þetta er náttúrlega yndislegt. Ekki það að ljóðin hennar Sylviu Plath eru auðvitað endalaus uppspretta fegurðar og frábærra hugmynda. Hvað með t.d. „The Colossus“ – „I shall never get you put together entirely, Pieced glued and properly jointed“ eða þessar línur: „Scaling little ladders with glue pots and pails of Lysol/I crawl like an ant in mourning/Over the weedy acres of your brow“ og ekki versnar það þegar maður sér fyrir sér myndina sem verið er að draga upp – ljóðmælandinn í hörku vinnu við að laga og hreinsa tröllvaxna brjóstmynd af (væntanlega) föður sínum.

Fyrir utan Plath, þá eru ensku rómantíkerarnir endalaus uppspretta ljóðagleði. Samt kannski á aðeins annan hátt. Þar finnur maður iðulega línur sem eru svo dásamlega „over the top“ að það getur verið erfitt að vita hvað maður á að gera við þær, falla í rómantískt ómegin eða deyja úr hlátri. Það er nú t.d. ekki margt sem toppar Shelley í „Ode to the West Wind“ – „I fall upon the thorns of life! I bleed!“ Hversu melódramatískur er hægt að vera. Svo er lokalínan í ljóðinu skemmtileg, kannski sérstaklega fyrir okkur hér á þessari íseyju – „If Winter comes, can Spring be far behind“. Keats á líka sínar línur sem maður getur ekki annað en munað: „Season of mists and mellow fruitfulness;/Close bosom-friend of the maturing sun“ – munnurinn á mann fyllist af hausti og ávöxtum og guð veit hverju við að fara með þessar línur !! Talandi um onomatopoeia og hvað þetta heitir nú allt saman.

Það er eitt ljóð (já heilt ljóð, raunar stutt, ekki bara línur) eftir Margaret Atwood, sem hefur í svona sirka tvo áratugi (almáttugur hvað maður er orðinn gamall;)) alltaf hringlað inní höfðinu á mér öðru hvoru: „You fit into me/like a hook into an eye/a fish hook/an open eye“. Það er eitthvað við þetta ljóð sem mér finnst ótrúlega pirrandi og tilgerðarlegt, en samt næ ég ekki að setja það bara í glatkistuna og sleppa því að hugsa um það. Það poppar alltaf upp reglulega og ég þarf að fara í einhverjar mental gymnastics með hvað þetta sé ótrúlega asnalegt ljóð og hugsa svo um „auga og krækju“ á kjól og svo öngul að krækjast inní opið auga. Það er eiginlega aðeins of margar pælingar sem hægt er að fara útí og mann langar ekki sérstaklega þangað.

Það væri alveg hægt að halda svona áfram, ad nauseam, en ég legg það ekki á ykkur lesendur góðir (get ekki sagt „hlustendur góðir“ einsog fólkið á RÚV) en það væri samt gaman að heyra frá lesendum hvort þeir eigi sér uppáhalds ljóðlínur eða ljóðlínur sem þeir elska að hata.

Sigfríður

4 ummæli:

Þórdís Gísladóttir sagði...

En dásamlegt! Ég pantaði mér tvær ljóðabækur eftir lárviðarlessuna Carol Ann Duffy (ég hitti konu á Vitabar sem mælti með henni) og er rétt að byrja að lesa. Ég er ekki búin að ná sambandi við ljóðin, en það kemur, kannski ...

HT sagði...

Eitt af mínum uppáhaldsljóðum endar svona:
...
fyrirgefðu, fyrirgefðu,
anginn litli, anginn minn.

Ég ætlaði að skjóta hann pabba þinn.

-Kristján frá Djúpalæk

Nafnlaus sagði...

Þær eru sko margar, línurnar sem festast... Ósjaldan eru þær ættaðar frá Weltschmerz-rómantískum unglingsárum mínum. "Og aldrei um eilífð verður til annað Ísland en það Ísland sem Arnas Arnæus hefur keypt fyrir sitt líf" finnst mér mjög fyndið að ég kunni utanað, þótt ekki sé þetta úr ljóði. Svo kann ég öll fjögur erindi Funeral Blues eftir Auden.

Það hefur aðeins bæst við eftir það líka, oft frekar handahófskennt. T.d. "Undir hola þagnarskelina leita stakir bassatónar þegar íshjartað slær" (ég man skýrt að ég var að borða epli þegar ég las þessar línur í fyrsta skipti). Og alls konar rímað og ryþmískt eins og "Ríktu þar á rauðum kjól mín rós og lilja, þar til allar þjóðir vilja þína veröld sjá og skilja".

-Kristín Svava

Hildur Knútsdóttir sagði...

„PÓKERFÉS óskast til kaups eða láns má kosta mig. LÍFIÐ!“ - Ingibjörg Haralds.

En það eru annars fullt af línum eftir Ingibjörgu sem sitja í mér.