|
Marilyn alltaf spræk... |
Bækur sem segja frá því sem gerist á bak við tjöldin eru oft skemmtilegar og sjálf er ég sérstaklega svag fyrir þeim sem segja frá gerð sögufrægra kvikmynda. (Reyndar hef ég líka mjög gaman af heimildarmyndum um sama efni – sem oft eru þegar vel tekst til ekki síðri en upprunalegu kvikmyndirnar – hér mætti t.d. nefna
Heart of Darkness (1991) um gerð
Apocalypse Now og
Burden of Dreams um gerð
Fitzcarraldo (1982)). Stundum eru slíkar bækur skrifaðar af leikstjórum eða framleiðendum sem annað hvort birta dagbækur skrifaðar meðan á vinnslu kvikmynda stendur eða þá að þeir líta um öxl, löngu eða stuttu síðar. Stundum eru það svo kvikmyndafræðingar eða hreinlega áhugamenn um kvikmyndir sem grafa upp staðreyndir og slúður um gerð frægra mynda – en ekki er síður skemmtilegt þegar einhverjir sem spila jafnvel litla rullu við gerð kvikmyndarinnar segja frá sínu sjónarhorni sem oft er þá óvenjulegt og áhugavert.
|
Michelle skuggalega góð Marilyn |
Sú er raunin með hina bráðskemmtilegu
The Prince and the Showgirl and Me eftir Colin Clark. Clark, sem lést árið 2002 – þá sjötugur að aldri, var leikstjóri og rithöfundur en þekktastur var hann fyrir útgefnar dagbækur sínar þar sem hann m.a. sagði frá þeim tíma sem hann vann sem aðstoðarmaður leiksjóra við gerð kvikmyndarinnar
The Prince and the Showgirl. Þar leiddu saman hesta sína (með misjöfnum árangri) kvikmyndagyðjan Marilyn Monroe og leikhúsjöfurinn Laurence Olivier. Meðan á gerð myndarinnar stóð hvarf Marilyn (sem átti vægast sagt erfitt í einkalífinu) í heila viku – löngu síðar gaf Clark svo út bókina
My Week with Marilyn sem er sem sagt frásögnin af því sem gerðist þessa dularfullu viku sem leikkonan eyddi –eins og nafnið bendir til – með aðstoðarmanninum unga sem þarna var nýskriðinn úr skóla. Nýverið var svo gerð kvikmynd eftir þessum „týndu blaðsíðum“ úr dagbókum Colin Clark þar sem Michelle Williams fer á kostum í hlutverki Monroe. Flestum heimildum ber saman um að Monroe hafi á þessum tíma verið afar erfið í samvinnu og í raun alveg rugluð, háð svefnlyfjum og verkjalyfjum og vesalings Olivier, enskur atvinnumaður fram í fingurgóma, vissi hreinlega ekki hvaðan á hann stóð veðrið. Clark er harður við Monroe – hún kom greinilega illa fram við samstarfsfólk sitt en um leið hefur hann samúð með henni. Það er kannski ekki alltaf auðvelt að vera gæsin sem verpir gulleggjum sem allir vilja komast yfir. Olivier viðurkenndi raunar að Monroe kæmi miklu betur út í kvikmyndinni en hann sjálfur sem er óttalegur trékarl og bara sannfærandi í fyrri hluta myndarinnar þegar hann á að vera stífur og ósjarmerandi. Eftir langan vinnudag þar sem Marilyn mætti mörgum klukkutímum of seint, kunni ekki línurnar sínar og virtist ekkert vita hvað hún var að gera var það samt hún sem lýsti upp hvíta tjaldið þegar tökurnar voru skoðaðar.
Fyrri bókin sem kom út árið 1995 fékk góða dóma enda skemmtilega skrifuð – í léttum dúr en virkar einhvern veginn heiðarleg. Sú síðari kom fimm árum síðar og fékk mun blendnari móttökur – jafnvel hefur sannleiksgildi hennar verið dregið stórlega í efa. Það er rétt að hún er mun slúðurkenndari og að sumu leyti kannski ósannfærandi – en þegar kemur að jafn goðsagnakenndri persónu og Marilyn Monroe verður sjálfsagt alltaf vonlaust að vita hvað er satt og hvað logið. Jafnvel meðan hún var enn á lífi og gat svarað fyrir sig – ef svo má segja – var hún sveipuð dulúð og harmi. Það er réttmæt athugasemd að fyrri bókin er mun betur skrifuð og áreiðanlegri – en fyrir aðdáendur Marilyn og kannski ekki síður þá sem kunna minna að meta hana eru fengur í báðum bókunum.
|
ógleymanlegt móment þegar Harry Lime birtist |
|
Karas hress með alpana í baksýn |
Uppáhaldsbókin mín í þessum flokki (ef flokk skyldi kalla) er nokkuð frábrugðin en það er
In Search of the Third Man sem segir frá gerð samnefndrar kvikmyndar frá 1949 (sem er reyndar líka ein af mínum uppáhalds kvikmyndum). Bókin er skrifuð af Charles Drazin sem vann gríðarlega heimildarvinnu og tók viðtöl við fjölda fólks við gerð bókarinnar sem er þó í mjög léttum og læsilegum stíl – jafnvel eins og spennusaga á köflum.
The Third Man var gerð skömmu eftir heimstyrjöldina síðari og tekin upp í þeirri sömu Vínarborg eftirstríðsáranna og birtist svo eftirminnilega í myndinni sjálfri. Eftir stríðið var borginni skipt á milli Englendinga, Bandaríkjamanna, Frakka og Rússa og sambandið milli borgarhluta vægast sagt rafmagnað. Þetta gerði allar tökur og vinnu við myndina síst auðveldari og hefðu sjálfsagt margir verið fegnir hefði Carol Reed, leikstjórinn, látið sér nægja kvikmyndastúdíóin í London. Handritið var listilega skrifað af Graham Greene en eitt það skemmtilegasta við myndina og umfjöllunarefni besta kafla bókarinnar er þó tónlistin. Hún er samin og leikin á hljóðfærið sither (sem er ekki það sama og sítar) af götuspilaranum Anton Karas. Leikstjórinn heyrði í Karas fyrir algera tilviljun þegar hljóðfæraleikarinn var fenginn til að spila í nokkurs konar kokteilboði við upphaf kvikmyndavinnunnar. Þegar Reed heyrði tónlistina var hann samstundis sannfærður um að þarna væri komið rétta „hljóðið“ fyrir myndina. Hins vegar tókst honum ekki að sannfæra kvikmyndaverið og framleiðendurna um slíkt hið sama. Á þessum tíma var óhugsandi annað en að hafa meðalstóra sinfóníu og mikilfenglega tónlist undir öllum almennilegum myndum framleiddum í kvikmyndaverunum. Óþekktur götuspilari með hið óþekkta hljóðfæri sither var hreinlega ekki inni í myndinni. En Reed var svo sannfærður að hann lét smygla Antoni Karas inn á hótelherbergi sitt í skjóli nætur og tók þar upp tónlist með honum (á daginn var hann jú upptekinn við kvikmyndatökurnar). Hann tróð handklæðum í gluggakarmanna og við dyrnar til að hljóðeinangra hótelherbergið og hengdi „ónáðið ekki“ skiltið á hurðarhúninn. Ekki talaði Karas ensku og eitthvað var Reed slappur í austurrískunni en einhvern veginn gekk þetta allt saman og þegar kvikmyndatöku í Vín var lokið spilaði Reed svo tónlist Karas fyrir framleiðendurna og fékk að lokum samþykki þeirra fyrir því að hún yrði notuð, fyrst fékk hann vilyrði fyrir stefi hér og þar en á endanum tókst honum að berja í gegn að sitherinn yrði eina hljóðfærið sem hljómaði.
Til að gera langa sögu stutta sló tónlistin við myndina gjörsamlega í gegn og þá sérstaklega titillagið –
Harry Lime theme sem var leikið þegar persóna Lime, leikinn af stjörnunni Orson Welles, birtist. Það sat á vinsældarlistum beggja vegna Atlantshafsins vikum saman og sitherinn hans Karas hljómaði um nálega allan hinn vestræna heim. Anton Karas sem nú var kallaður af gagnrýnendum The Fourth Man eða fjórði maðurinn vegna vægi hans í myndinni - sló sjálfur sömuleiðis í gegn en þessi fátæki götuspilari lét velgengnina svo sannarlega ekki stíga sér til höfuðs. Hann var heimakær fjölskyldumaður – hann vissi að honum hafði verið gefið gríðarlegt tækifæri en hann vissi líka hvernig líf hann vildi eiga. Í eitt ár ferðaðist hann um heiminn og lék fyrir múg og margmenni, konunga og hefðarfólk en að því loknu hætti hann að túra – keypti lítið kaffihús í Vínarborg og kom þar fram einu sinni í viku – ævina á enda. Carol Reed átti hins vegar frátekið borð á kaffihúsinu meðan báðir lifðu og slitnaði vinátta þessara ólíku manna aldrei. Þetta er mögnuð saga og þótt hún sé aðeins einn kafli í
In Search of the Third Man er hún auðvitað miklu ítarlegri og skemmtilegri en mér hefur tekist að gera skil hér. Þótt ég haldi mest upp á kaflann um Karas er bókin öll mjög skemmtileg og ég mæli mikið með henni – sérstaklega ef fólk hefur séð myndina.
Í fyrra keypti ég svo eina bókina til í „bak við tjöldin“ flokknum og bind ég miklar vonir við hana enda fjallar hún um cult mynd sem er í miklu uppáhaldi hjá mér:
Night of the Hunter í leikstjórn Charles Laughton með Robert Mitchum og Shelley Winters (hvurs ævisögu ég fjalla um
hér) í aðalhlutverkum. Mitchum leikur hér fjöldamorðingjann og predikarann Harry Powell sem skreytti sig einna fyrstur með húðflúruðum LOVE og HATE á hnúunum. Myndin er alveg sérstaklega fögur og ógnvekjandi og margt í tökunum ótrúlega frumlegt og skemmtilegt. Í mögnuðu risi myndarinnar má sjá hina frægu þöglu-myndar leikkonu Lillian Gish (þá aldraða) vaka heila nótt í ruggustól með haglabyssu í hendi á meðan morðóði predikarinn stendur fyrir utan kotið og saman syngja þau sálminn
Leaning on the Everlasting Arms. (Lagið var síðar gefið út í flutningi Robert Mitchum). Myndin fékk því miður hvorki náð fyrir augum áhorfanda né gagnrýnenda þegar hún kom út og það var ekki fyrr en mörgum árum síðar sem hún fékk þá viðurkenningu sem hún svo sannarlega á skilið og Laughton leikstýrði aldrei annari mynd. Bókin um gerð myndarinnar,
Heaven and Hell to Play with eftir Preston Neal Jones, er reyndar ekki sú eina sem gerir sér gerð myndarinnar að efnivið en hún er í öllu falli sú ítarlegasta sem ég hef rekist á – um 400 síður! Ég hlakka til að lesa hana og ef hún er jafn góð og hinar sem ég hef fjallað um hér skrifa ég kannski nokkrar línur um hana síðar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli