Milli Gyrðis Elíassonar og Tove Jansson liggur þráður. Það hef ég oft áður sagt (til dæmis hér). Í nýjustu ljóðabók Gyrðis, Hér vex enginn sítrónuviður, rakst ég á skriðlukt og sjónauka og í einu ljóðanna skríða stafir löngum, svörtum fótum, út af síðu og hverfa í gras. Þetta hefur gerst í Múmíndal, hugsaði ég stundum á meðan ég las. Takið þessu samt ekki of bókstaflega, Gyrðir býr auðvitað til alveg sérstakan heim í þessari nýju bók eins og í öðrum bókum sínum, mjög áhugaverðan heim, þar sem vísað er í ýmsar áttir.
Í ljóðunum koma fyrir allskonar nafngreind og ónafngreind dýr, þarna er líka fjallað um fjöbreytilegan gróður, náttúruna, árstíðir, ferðalög, farfugla og sífelldar umbreytingar sem við upplifum öll, eyðileggingu, grimmd, einmanaleika og melankólíu. Dauðinn er alltaf nærri, hann má alveg kalla þema bókarinnar; í Næturljóði í D-moll heyrast hamarshögg líkkistusmiðs í næturvinnu. En í ljóðunum má líka finna gleðifréttir og í þeim er húmor, stundum léttur en oftast mjög dökkur. Ef það væri mitt hlutverk að skipa fólki að lesa einhverjar bækur þá myndi ég hiklaust skipa ykkur að lesa Hér vex enginn sítrónuviður.
Þrjú stutt sýnishorn (en í alvöru; lesið alla bókina eða fáið ykkur hana sem hljóðbók þar sem Hjalti Rögnvaldsson les hana fyrir ykkur á klukkutíma).
DAGUR LÆMINGJANS
Stundum langar mann
bara að enda þetta allt.
Þá er farið í handbækur
um hafdýpi sálarlífsins,
lesið að sjálfsmorðs-
tilhneigingar séu hér
um bil staðalbúnaður
í miðaldra karlmönnum.
Manni líður undir eins
töluvert betur.
MÁLSVÖRN
Vel má vera að mosinn sé aðeins
hinsta vígi lands sem annars væri
gróðursnautt, en það gerir hann
ekki ómerkilegri. Þeir sem hafa
hvílt sig í mosa vita að það er
betra að sofa á honum
en
nokkru öðru.
Útfararstofur ættu að rækta
mosa fyrir alla kistubotna.
KVÖLDKULIÐ SYNGUR
Ég er lestarvörðurinn
sem aðskilur
elskendur
á brautarpallinum
með mjúku blístri
Ég finn mig í starfinu
Engin ummæli:
Skrifa ummæli