12. febrúar 2010

Allir miðaldra karlmenn eiga líkama

Nektarmyndin

Það er að verða sérstakt einkenni á þeim bókafærslum sem ég á aðild að hér að byrja á að lýsa því yfir að ég hafi haldið að viðkomandi bók væri unglingabók. Það er samt ekki svo undarlegt þegar Nektarmyndin eftir Helga Jónsson er annars vegar, því Helgi hefur einkum verið afkastamikill unglingabókahöfundur frá því á 9. áratug síðustu aldar – auk þess sem kápumyndin er kannski meira á þeirri línu. En Nektarmyndin er semsé titluð önnur skáldsaga Helga.

Nektarmyndin segir frá Fjólu Lind, fjórtán ára stelpu úr Hafnarfirðinum. Hún býr með bróður sínum og drykkfelldum foreldrum, sem henni finnst ekki veita sér næga athygli. Einn daginn nálgast hana ljósmyndarinn Valur og vill fá að taka af henni nektarmyndir. Hann sannfærir hana með skjalli og loforðum um frægð og peninga og svo fer að grófar nektarmyndir af Fjólu birtast í tímaritinu Sætum stelpum. Það hefur í för með sér mikla reiði foreldra hennar og Arnaldar unnusta hennar. Skömmu síðar finnst ljósmyndarinn myrtur í íbúð sinni og lögreglufólkið Róbert og Lára byrja að rannsaka málið. Sögunni af Fjólu og sögunni af morðrannsókninni vindur samhliða fram svo hoppað er fram og til baka í tíma og málið skýrist smám saman

Svo ég dragi það saman strax er Nektarmyndin ekki góð bók. Persónurnar eru allar bæði óaðlaðandi og ótrúverðugar, það er helst að hægt sé að hafa samúð með hinni týndu táningsstúlku Fjólu Lind. Ég verð að nefna sérstaklega persónu Arnaldar, sem flakkar á milli upploginna morðjátninga, rasísks kjaftháttar við Pólverja í bíó og hlutverks hins elskandi unnusta á mjög furðulegan hátt. Samtöl eru stirðlega skrifuð, tungutak persónanna er til skiptis hátíðlegt og tilgerðarlega hrátt. Sakamálasagan er kaotísk og óspennandi, allt of margir eru kynntir til sögunnar og liggja undir grun á víxl af óljósum ástæðum. Þar að auki er bókin illa frágengin og varla prófarkalesin að neinu ráði, víða vantar jafnvel heil orð inn í textann.

Ef tekið er mið af káputexta aftan á bókinni ætlar Helgi sér að fjalla hér um klám, framleiðslu þess og neyslu, en er engan veginn nógu góður höfundur til að standa undir viðfangsefninu. Klámljósmyndarinn Valur stjórnast til að mynda hvorki af kynferðislegum hvötum né gróðalöngun við iðju sína. Nei, Valur er undir áhrifum af því að hafa misst báða foreldra sína og yngri bróður fyrir aldur fram og myndatökur hans af útglenntri píkunni á ungum stúlkum hafa því þann ljóðræna tilgang að storka dauða og hrörnun, eða svo við gefum Vali sjálfum orðið: „Ég vil bara að það sé morgunljóst að hlutverk mitt í þessu lífi er að fanga fegurðina meðan hún varir. Hennar nýtur við svo ógnar skamma stund. Tréð úti í garði er orðið aldargamalt fyrr en varir. [...] Ég er ekki vondur. Ég er misskilinn. Það er sál mín og synd.“ (85, skáletrun höfundar)

Efnið verður oft hreinlega óþægilegt í meðförum Helga, til dæmis í hinni dularfullu yfirskrift aftan á bókarkápu, „Allar stúlkur eiga líkama“, en ekki síður í gáskafullum kvenlýsingum: „En í sömu andrá gekk framhjá þessum öldnu vinum ung stúlka, léttklædd svo ekki varð um villst að hér var á ferð kona með brjóstin stór og stæðileg“ (12) og um skólastjóra Fjólu Lindar: „Stýran stórbrjósta dregur upp krumpað bréfsnifsi.“ (164)

Textinn er stútfullur af samtímavísunum sem sumar eru eins og teknar út úr stúlknablaðinu Júlíu; Miley Cyrus, Zac Efron og allir hinir krakkarnir í High School Musical koma oft við sögu en aukinheldur bresta reglulega á heilu efnsigreinarnar með upptalningum á frægum konum sem setið hafa fyrir naktar: „Isabella Adjani, Sharon Stone, klofbrött í Basic Instinct, Sophie Marceau, Kelly Macdonald, Kristin Scott Thomas og Charlize Theron. [...] Uma Thurman, Kate Winslet, Drew Barrymore, Salma Hayek, Rachel Weisz, Asia Argento, Julianne Moore, Halle Berry, Jodie Foster, Natalie Portman“. (74-75)

Aðalsmerki Helga og það sem gerir bókina að nokkru leyti skemmtilega aflestrar er hins vegar mjög sérkennilegur stíll, sem ég hef hvergi séð neitt í líkingu við áður. Hann beitir fáum stílbrögðum en sígildum: rím notar hann oft en ennþá meira stuðlar hann og stundum tekst hann á slíkt flug að lesandinn veit ekkert hvernig það mun enda. Öll bókin er full af stuðluðum og ofstuðluðum línum en ég hef safnað saman nokkrum góðum dæmum og skýri samhengið jafnóðum:

Unga kona ákveður að ganga í lögregluna eftir að hafa orðið fyrir nauðgunartilraun: „Hún ætlaði að forða öðrum frá fáránlegu fláræði hins frumstæða.“ (31-32)

Par nær aftur saman yfir rómantískum kvöldverði: „Seddan var bara forrétturinn. Heima beið þeirra eftirrétturinn: greddan.“ (70)

Fyrrum eiginkona ljósmyndarans segir frá grunleysi sínu um framhjáhald hans: „Ég var alveg grandalaus, þótt við byggjum úti á Granda.“ (83)

Fjóla Lind messar yfir foreldrum sínum: „Ég ætla að verða fræg og rík. Ég ætla ekki að þræla hér á galeiðunni alla ævi, skítblönk og sjúskuð, neiónei, ég vil frægð og frama því ég er ferlega flott dama.“ (144)

Róbert lögreglumaður yfirheyrir dópistann Davíð eftir að sá síðarnefndi hefur gengið í skrokk á kærustunni sinni:

„Þú kýldir kærustuna kalda, sagði Róbert yfirvegaður.
Hættu að pirra mig, sagði Davíð og draup höfði.
Þú lamdir ljúfuna í blóðugt buff!“

(151)

Að lesa röskar 250 blaðsíður af þessum sérstæða stíl hefur haft slík áhrif á mig að ég er orðin ofurnæm fyrir stuðlun og rími og á það til að grípa um höfuð mitt í örvæntingu þegar ég hef óvart gerst sek um annað hvort í daglegu tali. Ég ætla að enda á einni skemmtilegustu lýsingu bókarinnar, þegar Fjóla Lind og Arnaldur koma heim úr bíó og hyggjast njóta lystisemda holdsins. Það er mesta synd að bókaklúbburinn Krummarnir séu búnir að veita verðlaunin sín fyrir bestu kynlífslýsingu ársins 2009 því þessi hefði sannarlega átt erindi á verðlaunapall:

„Bæði hentust upp í rúm og fötin flugu líka. Ekkert rautt ljós núna. Bara gapandi grænt og gult og fullt af greddu. Það var bara eitt líf og einn heimur og þau voru ein í þessum hormónaheimi sem var svo æðislegur fyrir hálfvita því þau hvorki heyrðu né sáu. Þegar allt var um garð gengið, þegar Arnaldur var lagstur og límdur við lakið og sofnaðu sælli en spriklandi sæðisfruma og hans kelling og krúsídúlla slefandi lömuð og sæl við hliðina á honum, voru þau svo komin áleiðis í annan heim að þau hefðu ekki hreyft sig þótt krókódíll skriði upp í til þeirra og nartaði í tippi og tær, tásur og pjásur.“ (95)

Kristín Svava

14 ummæli:

Guðrún Elsa sagði...

Hahahaha, þetta er yndislegur dómur. Helgi Jónsson fer greinilega á kostum í þessari nýju skáldsögu.

Dúnja sagði...

Ja, svei mér þá! Þetta er greinilega engin venjuleg bók... Þrekminni dómari hefði gefist upp áður en komið var framyfir miðja sögu, en lesendur Druslubókabloggs hljóta að þakka KS fyrir að fórna sér í þágu fjöldans. Ef ekki fyrir þessa þrautsegju hefðu margir farið á mis við þá gullmola sem hér eru tíndir til, sem hefði verið mikið tjón.

Þórdís sagði...

"Stýran stórbrjósta" - ég hlæ svo tárin streyma - hjálp.

bokvit sagði...

Ég verð ekki eldri...hvílík óbærileg snilld (sem er þó að sjálfsögðu ekki rétta orðið)! Eðvard Ingólfsson og gaukurinn eða haninn sem gólaði út í mýri sællar minningar i Sextán ára í sambúð á ekkert EKKERT í þessa stórkostlegu kynlífslýsingu...Alltaf hressandi þegar blússandi fordómar manns eru staðfestir...

Maríanna Clara

Gunni sagði...

Ofstuðlun?

Með smá gúggli komst ég að því að konan hans heitir Halla Huld Harðardóttir. Og börnin þeirra Hörður Helgason, Hafþór Helgason og Halla Helgadóttir.

Svei mér þá!

baun sagði...

Takk fyrir þennan dóm, hann skapaði hláturhljóm.

Þorgerður sagði...

Ég er enn að flissa yfir lokaefnisgreininni, mörgum klukkutímum síðar. Það er óneitanlega einhver pervertísk snilld í þessu.

Arngrímur Vídalín sagði...

Helgi er einn örfárra sem skrifar sífellt verr eftir því sem líður á ferilinn. Setningin: „þau hefðu ekki hreyft sig þótt krókódíll skriði upp í til þeirra og nartaði í tippi og tær, tásur og pjásur“ er þó mögulega það fyndnasta sem ég hef nokkru sinni lesið, svo ég hlýt að vera þakklátur Helga fyrir að fórna sér svona fyrir góða skapið mitt.

Tóti sagði...

Hver hafði húmor fyrir því að koma þessu á prent?

Er búinn að lesa dóminn tvisvar. Nú verð ég að kaupa þessa bók.

Erna sagði...

Ég er Kristínu Svövu mjög þakklát fyrir að fórna sér í þágu heildarinnar. Þetta er stórfenglega skelfilegt! Eða skelfilega stórfenglegt, ég er ekki alveg viss hvort á betur við.

Harpa J sagði...

Jahérnahér. Þetta er alveg hreint ótrúlegt. Og fyndið.

GK sagði...

Hver hafði húmor fyrir því að koma þessu á prent? er spurt. Höfundur gefur út eigin bækur sjálfur sem skýrir margt.

H. Lilliendahl sagði...

Ég er með tár, ég get ekki, gvuð minn góður, þetta er ótrúlegt. Ég öskra hér í vinnunni eins og blábjáni. "að forða öðrum frá fáránlegu fláræði hins frumstæða." Elsku Kristín mín, you made my day.

Sigurbjörg Elín sagði...

Stórbrjósta kellingin og krúsídúllan ég lætur lífið úr gleði.

Takk Kristín, takk.