17. nóvember 2011

Kellíngabækur á laugardaginn í Gerðubergi

Á laugardaginn milli 13 og 15 verður dagskrá í Gerðubergi undir yfirskriftinni Kellíngabækur. Þar verða kynnt ný verk kvenhöfunda af margvíslegum toga; skáldsögur, fræðibækur, ljóðabækur, ævisögur og barnabækur. Þetta er fjórða árið sem Gerðuberg kynnir ritverk kvenna í samstarfi við undirbúningshóp Fjöruverðlaunanna.

Kynnt verða um fjörutíu verk og hafa nemendur við Háskóla Íslands umsjón með upplestrum. Í anddyri verða bækur seldar á sérstöku tilboðsverði auk þess sem höfundar og forleggjarar kynna bækur sínar. Í Gerðubergssafni Borgarbókasafnsins verður sérstök barnadagskrá þar sem lesið verður úr barnabókum, krakkar fá tækifæri til að æfa jóga og foreldrar og börn fá sýnikennslu í nuddi. Í bókasafninu verður einnig sýning á bókum þeirra kvenna sem hlotið hafa Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, síðustu ár. Að vanda verður hægt að kaupa veitingar í kaffistofu Gerðubergs.

Hér má sjá nánari dagskrá (pdf-skjal).

Engin ummæli: