12. nóvember 2011

Lesið „Ríkisfang: Ekkert“

Nú í september kom út hér á landi merkileg bók, bók sem hefur þegar fengið góðar viðtökur og mun sjálfsagt fá þær enn betri þegar fram líða stundir. Engu að síður eru það forréttindi fyrir mig að geta vakið athygli á þessu verki og vona að ég það verði því til framdráttar.

Þetta er bókin Ríkisfang: Ekkert eftir Sigríði Víðis Jónsdóttur. Þar endursegir Sigríður sögu nokkurra palestínskra kvenna sem komu hingað til lands ásamt börnum sínum haustið 2008. Þær komu sem flóttamenn frá flóttamannabúðunum Al Waleed í Írak en þar höfðu sumar þeirra dvalið á annað ár við skelfileg skilyrði. Það kemur í ljós að sem Palestínumenn frá Írak eru þær flóttamenn í tvöföldum skilningi – þegar Ísralesríki var stofnað í Palestínu í maí 1948 og jarðýtur komu og jöfnuðu heilu þorpin við jörðu, flúðu fjölskyldur þeirra frá Palestínu til Íraks. Þau fengu hins vegar aldrei Íraskan ríkisborgararétt. Meira en hálfri öld síðar, þegar Saddam Hussein var steypt af stóli í Íraksstríðinu, varð smátt og smátt ólíft fyrir Palestínumenn í landinu en þau gátu hvergi farið. Þau voru Palestínumenn en Palestína er ekki viðurkennt sem sjálfstætt ríki og þau því ekki með nein palestínsk vegabréf. Þau gátu ekki verið í Írak en þau gátu heldur ekki farið þaðan - vegabréfalaus ferðast maður ekki. Þau sátu því föst á landamærum í búðum sem Flóttamannhjálp Sameinuðu þjóðanna hafði úrskurðað fullkomlega óviðunandi. Landlaust fólk sem sótt var að úr öllum áttum, fólk sem lifði ótrúlegar skelfingar áður en það kom hingað til lands til þess að hefja nýtt líf.



Hrakfarasögur eru viðkvæmt efni, ef þær eru ekki nógu vel skrifaðar, ef þær eru ekki skrifaðar bæði af list og greind þá er hætta á að þær verði bara eins og fréttaklausa í slúðurblaði – umfjöllun sem hreinlega dregur úr merkingunni og harminum sem á bak við söguna liggur. Það er ekki nóg að segja frá einhverju skelfilegu – til þess að frásögnin hafi einhverja merkingu aðra en tilfinningalega fróun þarf meira til – einhverja dýpt auðvitað en ekki síður þarf frásögnin að vera í einhverju samhengi, vísa út fyrir sig. M.ö.o. hún þarf að hafa einhverja merkingu og tilgang aðra en að bara koma lesandanum til að skæla.

Allt þetta tekst svo sannarlega hér. Ríkisfang: Ekkert segir sögur Aydu og Línu sem og hinna kvennana sem komu hingað á haustdögum 2008 og gerir það með miklum sóma. Þessar konur eiga auðvitað alla mína samúð, en þær uppskera þó enn frekar aðdáun mína, þær eru innblástur og fyrirmyndir.

En bókin er meira en persónuleg saga þeirra, hún leitast við að skilja og útskýra að mörgu leyti óskiljanlega sögu Palestínumanna sem hafa verið landlausir síðan Vesturlönd ákváðu að búa til annað land, fyrir aðra þjóð í garðinum heima hjá þeim. Saga kvennanna hefst strax þá þegar ömmur þeirra og afar, feður og mæður flúðu landið sitt og urðu, eins og næstu kynslóðir, landlaus, ríkisfangslaus.

Það er sérstaklega áhugavert hvernig Sigríður tengir sögur Íslands og kvennanna saman. Ísland var jú, eins og frægt er orðið, meðal hinna viljugu þjóða sem studdu stríðið í Írak. En Ísland var líka eitt fyrsta ríkið til að styðja stofnun Ísraelsríki í Palestínu árið 1947, bara rétt á hæla Bandaríkjamanna – Íslendingur var meira að segja framsögurmaður tillögunnar um stofnun Ísraelsríki á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Jafnvel má segja að við höfum haft mun meiri áhrif með þessari fyrri stuðningsyfirlýsingu – en um leið berum við því meiri ábyrgð. Þetta er erfiður lestur fyrir Íslending alinn upp í alsnægtum og velsæld, sem hefur aðallega séð bæði stríðin í Palestínu og Írak sem fréttaskýringar frá Reuter og óþægilegar tölur á blaði. Það er því kærkomin plástur á sárin að Ísland varð fyrst þjóða til að bjóða flóttafólki frá Al Waleed búðunum hæli hér á landi, aftur óþægilegt hvernig aðskilja þurfti fjölskyldur, mæður og dætur til þess að fullnægja skilyrðum Íslands um heppilegt flóttafólk, en það er kannski önnur saga.

En bókin er ekki skrifuð til að ásaka, hún er skrifuð til að reyna að skilja, mögulega læra af reynslunni. Sigríður leitar víða fanga, hún byggir pólitíska og sögulega þætti bókarinnar m.a. á meistararitgerð sinni í þróunar- og átakafræðum um innrásina í Írak en einnig á viðtölum, bókum, blaðagreinum og fjöldamörgum skýrslum sem gerðar hafa verið af Flóttamannahjálpinni, Amnesty International en ekki síst Bandaríkjunum og Bandaríska hernum en þar má finna heilmikla sjálfsgagnrýni – kannski ekki á innrásina sjálfa en hins vegar á aðgerða- og ráðaleysi yfirvalda þegar búið var að velta Saddam Hussein úr stóli. Háttsettu fólk innan hersins og ríkisstjórnarinnar er gróflega misboðið með hvernig til tókst í Írak. Það var deginum ljósara að það þyrfti skýra áætlun til að vinna eftir þegar Bagdad væri sigruð – en ekki var neina slíka áætlun að finna. Meðan glæpaflokkar gengu óáreittir um var íraska lögreglan lömuð og íraski herinn leystur upp. Allir innviðir samfélagsins hrundu á örfáum vikum og eins og heyra má í fréttum hefur ekki enn tekist að endurreisa þá. Þúsundum lífa, af öllum þjóðernum, hefði mátt þyrma eftir að pyrrusar sigur Bandaríkjanna var unninn.

Frásagnir kvennanna eru auðvitað rauði þráðurinn í verkinu en inn á milli vefur Sigríður sögulegum upplýsingum, pólitískum skýringum og tilvitnunum í íslensk og erlend dagblöð sem bæði hjálpa lesandanum að halda utan um stærra samhengi hlutanna og brjóta upp oft á tíðum erfiðan lesturinn. En þrátt fyrir allar þjáningarnar eru sögurnar þó líka fullar af von og húmor, konurnar eru merkilegt nokk ekki að leita að blórabögglum – þær minnast helst þeirra sem reyndumst þeim vel, réttu þeim hjálparhönd og þar eru margir nefndir – írakar, bæði sjítar, súnnítar, bandarískir hermenn og að lokum Íslendingar. Konurnar eru lygilega lausar við biturð og æðrulausar í frásögnum sínum – en þetta er ekki æðruleysi uppgjafar heldur hugrekkis því þessar konur eru gríðarlega hugrakkar og eru enn að berjast. Þótt Ísland sé örugg höfn miðað við það sem undan er gengið krefst samt mikils kjarks og mikillar vinnu að aðlagast þessu kalda landi með sínu erfiða tungumáli – koma börnum sínum til manns, skapa sér nýtt líf.


Ég hvet alla til að lesa Ríkisfang: Ekkert eftir Sigríði Víðis Jónsdóttur, ekki af því hún sé svo áhrifamikil, sem hún þó er – og ekki af því hún sé spennandi sem hún þó vissulega er líka – heldur af því hún segir merkilega sögur, sögur Palestínuaraba, sögur flóttafólks og hreinlega sögur af því hvernig sú heimsmynd sem við þekkjum í dag og þykir sjálfsögð varð til og hverjir þurftu að færa fórnir til þess að svo yrði. Í bókarlok eru konurnar fullar þakklætis þrátt fyrir allt sem á undan er gengið og sjálf er ég þakklát Sigríði fyrir að skrifa þessa mögnuðu bók og gefa mér innsýn inn í annan heim sem er þó svo skammt undan.

(þessi pistill var fluttur í Víðsjá í september)

Engin ummæli: