17. nóvember 2011

Prinsessan og glerþakið

Ég hef áður skrifað um hvað ég elska unglingabækur heitt. Ég fíla fantasíur, ég var mjög hrifin af bókinni 40 vikur þegar ég las hana fyrir mörgum árum, og þessvegna var ég fljót að panta nýútkomna unglingafantasíu (er það orð?) eftir Ragnheiði Gestsdóttur, sem ber titilinn Gegnum glervegginn .

Gegnum glervegginn fjallar um prinsessuna Áróru, unglingsstúlku sem býr ein í glerkúpli úr möttu, þykku gleri. Hún man ekki eftir öðru en að hafa búið þar, og hún man ekki einusinni eftir að hafa hitt aðra manneskju, fyrir utan Fóstru, sem var með henni fyrstu árin en hvarf sporlaust eina nóttina. Hún hefur allt til alls í líkamlegum skilningi, en einu samskiptin sem hún hefur er við plönturnar sem vaxa í kúplinum, nokkrar kanínur sem hún hugsar um og svo við myndir á sjónvarpsskjá sem segja henni að borða vel, hugsa um líkamann og kenna henni mannasiði. Það er næstum því einsog líf hennar líði hjá í móki, þangað til einn morguninn að hún vaknar og rekst á ókunnugan strák. Það kemur á daginn að hann heitir Rökkvi og er sonur konunnar sem hefur hugsað um hana öll þessi ár með því að læðast inn á meðan hún sefur, skilja eftir mat og þrífa í kringum hana. Áróra kemst að því að það er til veröld fyrir utan litla glerhvolfið hennar og hún ákveður að flýja fangelsi sitt.

Heimurinn fyrir utan er allt annar en sá sem henni hafði verið sýndur á skjánum í glerhvolfinu. Þar mega sumir búa við kulda, vosbúð, óréttlæti og fátækt, á meðan annar hluti mannkyns lifir í vellystingum. Áróra er elt á röndum af varðmönnunum sem áttu að gæta hennar og upphefst æsilegur flótti.


Áróra er, eðli málsins samkvæmt, afar saklaus og naív persóna, enda hefur hún alltaf lifað í vernduðu umhverfi. Hún er meira að segja svo græn að hún hefur aldrei séð gamla manneskju og hún veit ekki hvað það þýðir að deyja. Höfundur notar þetta barnslega sakleysi Áróru til að setja spurningarerki við allskonar samfélagsmynstur sem aðrir í sögunni eru orðnir samdauna og þykja sjálfsögð, einsog misskiptingu auðs, stéttaskiptingu, einræði o.s.frv.

Ég játa að það fór á köflum pínulítið í taugarnar á mér hvað Áróra var barnsleg og þá sérstaklega vegna þess hve hún þurfti oft að halla sér upp að Rökkva, taka í höndina á honum, láta hann útskýra hlutina fyrir sér, láta hann hughreysta sig o.s.frv., en sem betur fer varði það ekki alla bókina. Því Áróra er fljót að læra á umhverfi sitt og öðlast sem betur fer meira sjálfstraust og sjálfstæði þegar líður á söguna. Annað sem ég velti svolítið fyrir mér varðandi samband þeirra (sem er algjörlega kynlaust og af þeim toga sem maður hefur svo oft lesið um: Bestu vinirnir sem maður veit einhvernveginn að fara að horfa hvort á annað öðrum augum eftir kynþroskann) er hvort þau hafi kannski átt að vera einhverskonar sálufélagar, því það var margoft gefið í skyn að Rökkvi læsi með einhverjum hætti hugsanir Áróru, og ég átti hálfpartinn von á einhverri opinberun tengdri því, sem kom þó ekki.

Það er klár náttúruverndarboðskapur í bókinni. Í samfélaginu sem lýst er í bókinni er sagt frá því að fólk hafi farið of geyst og mengað jörðina. Það eru til raftæki, en orkan nægir ekki öllum. Afleiðingin er að hluti lifir í lystisemdum og notar alla orkuna, á meðan hinn hluti mannkyns dregur fram lífið án allrar tækni og hefur meira að segja glatað kunnáttunni til þess að lesa. Þannig má lesa varnaðarorð til okkar um hvernig getur farið ef við göngum um of á auðlindir jarðar, og einnig má finna sterkan boðskap um að fólk hafi jafnan rétt til lífsgæða. Það er mjög auðvelt að túlka söguna sem ádeilu á vestrænt samfélag sem hefur tilhneigingu til þess að loka augunum fyrir ömurð þeirra sem búa annarsstaðar og þræla í fátækt til þess að halda okkur uppi með því að sauma fötin okkar, rækta matinn okkar o.s.frv. Í sögunni er dregin upp mynd af fólki sem lifir í vellystingum og lokar augunum fyrir aðstæðum annarra, einfaldlega afþví það er þægilegra að hugsa ekki um alla hina sem hafa það skítt.

Þetta er ein af þessum bókum sem eru mjög opnar fyrir túlkanir og eiginlega langar mig til þess að lesa hana í kúrsi í bókmenntafræði, máta allskonar túlkunaraðferðir við hana og tala um hana í að minnsta kosti eina kennslustund. Nöfn sögupersóna vísa t.d. yfirleitt annaðhvort í birtu eða myrkur (t.d. Áróra sem þýðir sólarupprás, Rökkvi, Húmi, Nótt, Glóð o.s.frv.) eða í litina hvítt og svart (Mjöll, Fönn, Aska o.s.frv.). 

Og svo var annað í bókinni sem ég var ótrúlega ánægð með. Það er að þar er ekki dregin upp nein glansmynd af lífi prinsessu. Hún Áróra prinsessa er jú falleg, hugrökk og góð, einsog góðri söguhetju sæmir, en í sögunni er ekki dregið dul á hið ömurlega hlutskipti sem því miður hefur verið alltof margra prinsessa í gegnum tíðina: Þær eru fyrst og fremst stofustáss og skiptimynt í milliríkjaviðskiptum. Þær ganga kaupum og sölum svo foreldrar þeirra geti tryggt sér völd, keypt sér herafla eða liðkað fyrir samskiptum ríkja. Þær eru eiginlega ekki manneskjur, heldur gjaldmiðill.

Þessvegna finnst mér þessi saga af Áróru prinsessu vera mikilvægt og þarft mótvægi við þessa óþolandi prinsessuvæðingu sem hefur tröllriðið öllu undanfarin ár.

Hvernig í ósköpunum datt einhverjum í hug að innræta börnum að það sé eitthvað eftirsóknarvert að vera prinsessa?

P.S. Ég get svo eiginlega ekki annað en minnst á það hvað mér finnst kápan á bókinni óspennandi, og engan veginn lýsandi fyrir söguna. En í upphafi hvers kafla eru gullfallegar myndir, teiknaðar af höfundi.

2 ummæli:

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Mig langar að lesa þessa. Mér finnst unglingabækur líka mjög skemmtilegar og ekki síst unglingafantasíur. Og prinsessudýrkunargagnrýni kann ég alltaf að meta!

Garún sagði...

En af hverju er prinsessan í glerhjúpi?
Sé þarna tengingu við annars vegar saklausa og barnslega Litla prinsinn (á heima á annarri plánetu og þar er meira að segja að finna rós undir glerhjúp)og hins vegar myndina The Truman Show, þar sem Truman elst upp í sýndarheimi - sem að vísu var ekki hugsaður sem honum til góðs, heldur var tilgangurinn meira í ætt við að sýna viðundur í sírkus.

Gaman væri að lesa bókina og bera þessar sögur saman.