Ég tvísteig lengi með þessa færslu. Ég hafði áhyggjur af því að það væri ljótt að skrifa eitthvað neikvætt um fyrstu bók nýs höfundar. Hver vill ekki vera jákvæður og hvetjandi í slíkum tilfellum? Ég hugsaði því með mér að kannski ætti ég bara að láta það eiga sig að skrifa um þessa bók. En á hinn bóginn finnst mér að ef höfundur gefur út bók og kynnir hana opinberlega þá hljóti viðkomandi að vilja láta taka sig alvarlega og þar með að geta tekið þeirri gagnrýni sem sett er fram á verkið. Að lokum varð þetta seinna sjónarmið ofan á og hér kemur því álit mitt á Níní eftir Steinunni Fjólu Jónsdóttur.
Um er að ræða þroskasögu ungrar konu, Níníar, sem er í byrjun kennari á Íslandi. Hún er orðin leið á tilbreytingarlausu lífi sínu og ákveður að flytja til Spánar án þess að stefna þar á neitt sérstakt starf eða nám. Hún kemur sér þar fyrir í litlu þorpi og síðar á sveitabæ, og kynnist í kjölfarið nýjum hliðum á sjálfri sér. Bókin virðist hugsuð sem svokölluð skvísubók, að minnsta kosti eru áherslurnar á þá lund. Mikið er lagt upp úr hinu ljúfa lífi á Spáni, sem virðist felast í sólböðum og sundi og alls konar notalegheitum, sem og verslunarferðum á markaði sem og í stærri verslunarkjarna og er þá iðulega keyptur fatnaður. Við fáum oftast að vita hverju söguhetjan klæðist þann daginn og svo eru þarna heitir spænskir elskhugar, sveitasæla og mikið lagt upp úr vinkvennastússi.