27. janúar 2010

Aukapersónur í eigin sögu: Enn er morgunn eftir Böðvar Guðmundsson

enn er morgunnEkki alveg ólíkt Vesturfarasögunum Híbýli vindanna og Lífsins tré þá er Enn er morgunn rammaskáldsaga. Benjamín Andrésson, ungur Reykvíkingur og góður Íslendingur, afkomandi Knudsen, Kohlhaas, Andersson – genafræðilega alls enginn Íslendingur en þó alíslenskur, segir söguna – uppúr sögum Evu ömmu og Tedda frænda, sem segja þessa sögu hvort á sinn sérstæða hátt. Benjamín veltir því fyrir sér hvort hann geti sagt söguna einsog hún er, varðveitt atburðina, þrátt fyrir að vera, líkt og Mæja mamma hans segir karlkyns og skynji þar af leiðandi ekki samband orsakar og afleiðingar. En sagan sem um ræðir, atburðirnir sem varðveittir eru og sagðir á sinn hátt af þeim sem aðkomu hafa haft af þeim, er saga Jóhannesar Kohlhaas og Önnu Láru Knudsen. Saga þeirra sem einstaklinga, saga fjölskyldna þeirra og þó kannski ekki síður saga þeirra tíma sem þau lifa. Þau lifa vægast sagt á viðburðaríkum tímum og flækjast inní ýmiskonar atburði og aðstæður sem þau hafa iðulega litla stjórn á og ná ekki að skilja til fulls.

Sögusviðið er Þýskaland, Ísland og Danmörk. Þýskaland á upphafsárum Nazismans, Ísland á fyrri hluta tuttugustu aldarinnar og í raun fram á okkar daga, Danmörk sem nokkurs konar “móðurland” Íslendinga – þeir sem skipta máli (Knudsenar og fleiri) eru ættaðir þaðan og þangað fara menn til náms og starfa.

Enn er morgunn er fínasta bók, vel skrifuð og sagan rennur vel áfram. Ættfærslur og lýsingar á fjölskyldum, aðstæðum, tilfinningum ganga vel upp og eru skemmtilegar aflestrar. Persóna Önnu Láru fannst mér sérstaklega áhugaverð og vel unnin. Hún var trúverðug þó endalokin væru kannski full dramatísk og ekki endilega alveg í takt við það sem á undan hafði gengið. Jóhannes Kohlhaas fannst mér hinsvegar ekki eins trúverðugur. Hann er einhverveginn full mikil aukapersóna í eigin lífi til að virka vel. Hann gerir í raun aldrei neitt sjálfur – maður fær á tilfinninguna að hann sé einsog lauf í stormum sinna tíða – hann verður bakari án þess að ætla sér það eitthvað sérstaklega, hann verður tónlistarmaður allt að því fyrir tilviljun finnst manni, hann er allt í einu orðinn félagi númer 197.852 í hinum þjóðernissósíalíska þýska verkamannaflokki. Gyðingdómurinn er líka svolítið einsog undirmálsgrein í lífi hans – undirmálsgrein sem umbreytist í kaflafyrirsögn þegar brjálsemi nasismans, sem Jóhannes aðhylltist fyrir tilviljun, verður til þess að honum er næstum því úthýst úr fyrirmyndarríkinu vegna sinna gyðinglegu gena. En einsog svo margt annað í lífi Jóhannesar er bottrekstur hans úr þriðja ríkinu alls ekki afgerandi og ýmsum vafa undirorpipnn. Lífið með Önnu Láru, hjónabandið, börnin, tónlistarlífið á Íslandi – maður hefur á tilfinningunni að hann allt að því líði í gegnum þetta án þess að vera nokkurntíman alvöru þátttakandi og því er endinn kannski ekki eins óvæntur og hann gæti ella hafa orðið.

Jóhannes, bakarinn frá Chemnitz, nær að mínu mati aldrei að verða nægilega áhugaverð persóna til að halda bókinni alveg uppi. Til þess eru þau einkenni sem áður er lýst of áberandi. Það breytir ekki því að sagan sem slík er áhugaverð og heldur manni vel við efnið.

Sigfríður

2 ummæli:

Halla Sverrisdóttir sagði...

Ég get tekið undir margt í þessari umsögn - en kannski ber að líta til þess að kannski voru einmitt mjög margir Þjóðverjar á samtíma Johannesar á sama róli og hann - létu berast áfram fyrir sterkum straumum samtímans, jafnvel hrífast með í hraðri atburðarás og sviptingum, urðu "nazistar" án þess að velta því ýkja mikið fyrir sér hvað í því fælist, iðulega til að geta fengið að stunda sína iðn eða sitt fag í friði, eða jafnvel fá tækifæri sem ekki hefðu gefist öðruvísi? Hins vegar hefði persóna Johannesar vel mátt skýrast og skerpast meira þegar líður á söguna og hún verður átakameiri, t.d. eftir að hann er kominn til Íslands og gefst tækifæri til að spegla sig og sinn uppruna, gildi og menningu í nýju og framandi landi.

Erna sagði...

Ég varð fyrir vonbrigðum með bókina, mér fannst aðalpersónurnar báðar ógurleg dauðyfli og alls konar tæknilegir gallar á frásögninni, hlutverk sögumannsins rann t.d. eiginlega út í sandinn. En ýmislegt af efninu var svosem áhugavert.