Fifty Shades of Grey eftir E.L. James og framhaldsbækurnar Fifty Shades Darker og Fifty Shades Freed raða sér í efstu sæti ýmissa metsölulista um þessar mundir. Þetta hefur vakið athygli af ýmsum ástæðum en einkum þeirri að trílógían flokkast til erótískra bóka sem hafa talist jaðargrein til þessa, og ýmsir hafa íhugað ástæðurnar fyrir því að þær hafa náð almennum vinsældum. Í því samhengi er rafbókavæðing oftast nefnt til sögunnar og sú staðreynd að auðvelt er að láta lítið bera á bæði kaupum og lestri rafbóka. Einnig er sérlega fljótlegt að kaupa rafbækur, þegar forvitni vaknar þarf ekki marga smelli þangað til bókin er tiltæk til lestrar.
Netið leikur þó ennþá stærra hlutverk í upphaflegri útbreiðslu 50-Shades-bókanna því það skiptir vafalaust máli að frumgerðin var skrifuð og birt á netinu sem „fanfiction“ út frá Twilight-bókaflokknum (er til almennilegt íslenskt heiti yfir fanfiction?). Þótt E.L. James sé fjarri því að vera sú fyrsta sem kryddar fanfiction með kynlífi, þvert á móti skrifar hún inn í umfangsmikla hefð þar, mun hún hafa vakið tiltölulega mikla athygli fyrir að skipta skírlífu vampírunum í Twilight út fyrir kynlíf sem þótti krassandi. Svo fór boltinn að rúlla. E.L. James umskrifaði fanfiction-söguna Master of the Universe og til varð 50-Shades-trílógían sem var í fyrstu gefin út sem rafbækur hjá litlu forlagi. Þegar metsölu í rafbókaflokki var náð fóru stærri forlög að bítast um bækurnar og þær komust fljótt einnig á metsölulista prentaðra bóka.
Eins og fleiri var ég semsagt forvitin að sjá um hvað málið snerist og las fyrstu bókina um daginn. Hún kom mér nokkuð á óvart en ekki út af kynlífsþættinum og ekki á jákvæðan hátt. Það var býsna merkilegt að sjá hversu afgerandi keim bókin ber af annarri bókmenntagrein sem hefur einnig verið á jaðrinum, þ.e. þeirri sem oft er kölluð „rauðu ástarsögurnar“. Ef nokkrum kynlífslýsingunum væri sleppt og aðrar styttar svolítið myndi bókin smellpassa inn í einhverja af seríunum sem Ás-útgáfan gefur út.*