Sýnir færslur með efnisorðinu rasismi. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu rasismi. Sýna allar færslur

15. febrúar 2012

Bækur sem eru börn síns (rasíska) tíma

Belgískur dómstóll komst að þeirri niðurstöðu fyrir helgi að bókin Tinni í Kongó brjóti ekki gegn belgískum lögum gegn kynþáttahatri, en til þess hefði þurft að sýna fram á að bókinni hefði verið ætlað að hvetja til rasisma. Kongómaðurinn Bienvenu Mbutu Mondondo hefur staðið í lagaferlum gegn bókinni í nokkur ár, í Belgíu og í Frakklandi.

Tinni í Kongó var önnur Tinnabók höfundarins Hergé. Sagan kom fyrst út á bók árið 1931 og aftur í endurbættri útgáfu árið 1946. Eins og nafnið gefur til kynna fjallar hún um ævintýri aðalsöguhetjunnar Tinna í Afríkulandinu Kongó. Tinni í Kongó hefur löngum verið umdeild, og gagnrýnd fyrir að draga upp neikvæða og rasíska mynd af Kongóbúum sem lötum einfeldningum. Sums staðar í Bretlandi er hún flokkuð með bókum fyrir fullorðna af þessum sökum. Hergé var víst sjálfur síðar á ferli sínum ekki alls kostar ánægður með bókina.

Þetta minnir á deilurnar sem komu upp á Íslandi fyrir nokkrum árum kringum endurútgáfuna á Tíu litlum negrastrákum. Ég held að fæstir hafi viljað banna útgáfuna, en það komu upp svipaðar hugmyndir um að gefa hana út með sögulegum skýringum eða færa hana úr barnabókahillunum í fullorðinsdeildina, að gera einhvers konar „ábyrgðarfulla útgáfu“ af bókinni, sem væri þá alltént ekki varpað formálalaust í hendurnar á börnum.