Sýnir færslur með efnisorðinu Twilight. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Twilight. Sýna allar færslur

3. febrúar 2012

Bókin sem breytti útgáfuheiminum

Rafbókavæðingin og það hvað hún getur þýtt fyrir bókaútgáfu hefur mikið verið rædd undanfarið. Sitt sýnist auðvitað hverjum, sumir fagna rafbókinni á meðan aðrir bölsótast og eru vissir um að hún muni ganga af forlögunum dauðum, Amazon muni erfa heiminn og allt fari til andskotans.

Amanda Hocking er nafn sem hefur verið áberandi í þessari umræðu, því hún hefur orðið einskonar tákn fyrir rafbókavæðinguna og öðruvísi útgáfulandslag.

Amanda Hocking
Amanda Hocking er tuttugu og sjö ára bandarískur rithöfundur sem skrifar yfirnáttúrulega rómansa (eða paranormal romance eins og það heitir upp á ensku). Hún hefur alltaf haft áhuga á bókmenntum og hún byrjaði mjög ung að skrifa. Hún fór fljótlega að leita sér að útgefanda en fékk neitun á neitun ofan. Þegar hún var komin með heilu skúffustæðurnar fullar af bókum og bókaflokkum og var orðin úrkula vonar um að fá útgáfusamning ákvað hún að taka málin í sínar hendur. Hún gaf bækurnar sjálf út á Amazon og verðlagði þær afar ódýrt. Ég held að fyrsta bók í seríu hafi kostað 99 sent og sú næsta 2.99 dollara. Þær seldust ekkert sérstaklega hratt í fyrstu, en Hocking dældi þeim á netið og forvitnir lesendur tóku við sér. Sex mánuðum síðar voru bækurnar hennar orðnar heitasta heitt á Amazon, hún var búin að græða sex þúsund dollara og gat hætt í vinnunni og einbeitt sér að ritstörfum. Og nú skilst mér að hún hafi selt 1,5 milljón bækur og grætt 2,5 milljónir dollara á þeim.

Forleggjarar, sem höfðu ekki sýnt henni áhuga áður, fóru að hafa samband við hana og hún þáði að lokum 2,1 milljóna dollara samning við St. Martins Press. Margir urðu hissa á að hún hefði gengið til liðs við forlag eftir að hafa gengið svona vel sjálfri, en hún sagðist vera orðin dauðþreytt á því að þurfa að gera allt sjálf. Hún kvartaði yfir því að hún ætti erfitt með að finna nógu gott frílansfólk, því bækurnar hennar voru oft morandi í villum, þrátt fyrir að hún hefði borgað fólki fyrir ritstjórn og prófarkalestur. Það fannst henni leiðinlegt, því lesendur ættu betra skilið. Hana langaði líka að bækurnar hennar væru til í bókabúðum og aðgengilegar fólki sem ætti ekki rafbókalesara.

Ég ákvað að tjékka á því hvort eitthvað væri í hana spunnið og keypti mér bókina Switched, fyrstu bókina í Trylle-trílógíunni (á kyndilinn, en ekki hvað), sem nú kostar reyndar 9 dollara en ekki lengur 99 sent, útgefin og yfirfarin af nýja forlaginu hennar og ódýra, upphaflega útgáfan löngu horfin af netinu.