Sýnir færslur með efnisorðinu Paula. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Paula. Sýna allar færslur

22. febrúar 2012

Illir harðstjórar, töfrandi uppreisnarmenn og fallegar hórur sem taka til sinna ráða

Isabel Allende
Ég var mjög lítil þegar ég kolféll fyrir Isabel Allende. Ég reif í mig Hús andanna og Evu Lunu sem ég fann uppí hillu heima og las þær síðan strax aftur. Á þeim tíma var þekking mín á landafræði svo takmörkuð að ég hafði aðeins óljósa hugmynd um að þessar töfrandi og fantasísku bækur með sínum grimmum harðstjórum, hugrökku konum og myndarlegu uppreisnarmönnum gerðust í einhverju landi sem væri í alvörunni til og væru að miklu leyti byggðar á sannsögulegum atburðum. Ég upplifði þær þess vegna sem pjúra fantasíu þegar ég las þær fyrst og gat því notið þeirra alveg upp á nýtt þegar ég var orðin eldri og vissi aðeins meira um Suður-Ameríku og sögu Chile.

Isabel Allende er ástæðan fyrir því að mig langaði til þess að læra spænsku og þegar ég var búin að búa á Spáni og ferðast um latnesku Ameríku þá las ég bækurnar hennar aftur, á spænsku. Mér þykja þær misgóðar, Paula var æði, Dóttir gæfunnar fannst mér ekkert sérstök, barnabækurnar hennar tvær skildu ekki mikið eftir sig og El plan infinito, sem fjallar um seinni manninn hennar (og ég veit ekki hvort hefur verið þýdd á íslensku), fannst mér bara hundleiðinleg.