Sögur A.A. Milne um Winnie-the-Pooh eða Bangsímon komu út á tveimur bókum á þriðja áratug 20. aldar. Bangsímon er með krúttlegri böngsum bókmenntasögunnar og örugglega sá frægasti ‒ líklega væri samkeppnin helst við samlanda hans Paddington (sem reyndar var perúskur innflytjandi í London), en þar sem sá hefur ekki orðið Disneyfígúra á hvíta tjaldinu hefur Bangsímon klárlega vinninginn.
Bangsímon er uppáhaldsleikfang drengs að nafni Jakob Kristófer, eða Christopher Robin á frummálinu. Engum sögum fer af tilveru Jakobs utan heimilis eða í félagsskap annars mannfólks og ekki er hann alltaf beinn þátttakandi í atburðum bókanna, en þó ávallt til staðar ‒ ef ekki uppi í tré eða heima í húsi, þá í meðvitund aðalpersónanna, tuskudýranna sinna. Með Bangsímon fremstan í flokki lenda þau í ýmsum svaðilförum sem yfirleitt vara í svosem eitt eftirmiðdegi, og hafi Jakob Kristófer verið fjarri góðu gamni fær hann að heyra allt af létta í endursögn Bangsímons.