Sýnir færslur með efnisorðinu Gottfried Lessing. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Gottfried Lessing. Sýna allar færslur

5. febrúar 2012

Hann er bara ósköp venjulegt ungabarn: Doris Lessing og þriðja barnið

Oft finnst mér einsog það sé eiginlega sama hvað rætt er um, eða þessvegna hugsað, ég geti svotil alltaf fundið stað í skrifum Dorisar Lessing sem henti tilefninu. Hún hefur auðvitað skrifað alveg hreint ótrúlega mikið af allskyns texta, en það er samt ekki bara það, heldur kannski frekar að það sem hún skrifar um og virðist hafa upplifað og hugsað spannar alveg ótrúlega vítt svið og getur endalaust komið manni á óvart.


Ég hef fengið mjög mikið útúr því að lesa æfisögurnar hennar, og þær bækur sem hún hefur skrifað sem eru “hálf æfisögulegar” eða fjalla á einhvern hátt um líf hennar og pælingar. Ég ætla svosem ekkert að fara djúpt ofaní þau mál í þetta sinn, en fann allt í einu hjá mér þörf til að minnat aðeins á atvik sem hún lýsir undir lok fyrra bindis sjálfsæfisögu sinnar “Under My Skin: Volume One of My Autobiography. To 1949” Einsog margir eflaust vita giftist Lessing ung manni að nafni Frank Wisdom og átti með honum tvö börn, þau John og Jean. Hún fór frá Frank eftir nokkrra ára hjónaband og skildi börnin eftir í hans umsjá. Eitthvað sem vissulega þótti afar einkennilegt á þeim tíma og hún var dæmd fyrir. Þessi “einkennilega” hegðun var útskýrð með því að hún væri í slæmum félagsskap “kommúnista” og útlendinga sem hefðu einkennilegar hugmyndir og stæðu í allskyns undirróðursstarfsemi.

Eftir skilnaðinn frá Frank Wisdom hellti Lessing sér útí starf róttæks hóps í Salisbury sem í raun varð hennar andlega og veraldlega fjölskylda. Þar kynntist hún manni að nafni Gottfried Lessing, en hann var flóttamaður frá Þýskalandi Hitlers, intellektúal af gyðingaættum sem endað hafði í Suður Rhodesíu. Lessing lýsir því á sinn jarðbundna hátt að þau hafi í raun aldrei átt neitt sameiginlegt þannig séð, annað en það að vera kommúnistar - af ástæðum sem höfðu allt með aðstæður og tíðaradann að gera. Þau áttu engan vegin saman sem hjón og voru á allan hátt svo ólík að undrum sætir.