![]() |
Eina teikningin sem til er af Jane Austen |
Ég hef auðvitað líka verið að lesa bækurnar hennar, bæði lesa aftur þær sem ég þekkti fyrir og svo að kynna mér þær sem ég hafði aldrei lesið. Í vikunni sem leið las ég þá síðustu sem ég átti eftir af fullkláruðu skáldsögunum, Persuasion, sem var einmitt síðasta bókin sem Austen lauk við og kom út skömmu eftir dauða hennar. Það er allt öðruvísi stemning í Persuasion en í hinum bókunum - reyndar er miklu meiri munur á bókunum hennar almennt en maður myndi halda af umfjöllun og skírskotunum í Austen. Persuasion var skrifuð á eftir Emmu, sem er af allt öðrum toga - löng og flókin, uppfull af glettni og háði (ekki síst á kostnað aðalpersónunnar), og þótt í henni séu mjög dramatískir straumar er samt aldrei eins og ástamál Emmu og hinna persónanna séu spurning um líf eða dauða. Emma býr vissulega við þrúgandi nærveru einstaklega heilsukvíðins föður (sem nú til dags yrði sendur beint í hugræna atferlismeðferð sem var því miður ekki til á tímum hýpókondríaksins herra Woodhouse), en með þeim er afskaplega kært, hún á vini og ástríka fjölskyldu og lífið blasir við henni. Í Persuasion fylgjumst við hins vegar með eftirleik ástarsambands sem endaði illa og aðalpersónan, Anne Elliot, er stödd í algjöru öngstræti.