Sýnir færslur með efnisorðinu Jane Austen. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Jane Austen. Sýna allar færslur

13. febrúar 2012

Af austenskum tilfinningaþunga

Eina teikningin sem til er af Jane Austen
Ég er svo heppin að vera að vinna í Jane Austen-tengdu verkefni þessa dagana og hef þar af leiðandi pottþétta afsökun fyrir að lesa og horfa á ofboðslega mikið sem hefur með hana að gera. Ekki sem verst! Ég hef lesið mér mikið til um hana og til dæmis fannst mér þessi bók mjög fín, Jane Austen: The World of her Novels eftir Deirdre Le Faye. Hún setur Austen í sögulegt samhengi og fjallar um þjóðfélagsskipan, tískustrauma og lifnaðarhætti þessa tíma; fer yfir breytingarnar sem urðu á ensku samfélagi á þeim fjórum áratugum sem Austen lifði og tekur hverja skáldsögu sérstaklega fyrir. Þetta er engin analýsa og afskaplega óróttæk sem fræðibók, en segir manni afskaplega mikið um heim sagnanna og er heilmikið myndskreytt, sem gerir bókina þeim mun eigulegri. Einnig er fjallað um ævi Jane Austen og hennar persónulega saga fléttuð saman við fróðleik um England frá miðri 18. öld og fram á þá 19., en Austen lést árið 1817.



Ég hef auðvitað líka verið að lesa bækurnar hennar, bæði lesa aftur þær sem ég þekkti fyrir og svo að kynna mér þær sem ég hafði aldrei lesið. Í vikunni sem leið las ég þá síðustu sem ég átti eftir af fullkláruðu skáldsögunum, Persuasion, sem var einmitt síðasta bókin sem Austen lauk við og kom út skömmu eftir dauða hennar. Það er allt öðruvísi stemning í Persuasion en í hinum bókunum - reyndar er miklu meiri munur á bókunum hennar almennt en maður myndi halda af umfjöllun og skírskotunum í Austen. Persuasion var skrifuð á eftir Emmu, sem er af allt öðrum toga - löng og flókin, uppfull af glettni og háði (ekki síst á kostnað aðalpersónunnar), og þótt í henni séu mjög dramatískir straumar er samt aldrei eins og ástamál Emmu og hinna persónanna séu spurning um líf eða dauða. Emma býr vissulega við þrúgandi nærveru einstaklega heilsukvíðins föður (sem nú til dags yrði sendur beint í hugræna atferlismeðferð sem var því miður ekki til á tímum hýpókondríaksins herra Woodhouse), en með þeim er afskaplega kært, hún á vini og ástríka fjölskyldu og lífið blasir við henni. Í Persuasion fylgjumst við hins vegar með eftirleik ástarsambands sem endaði illa og aðalpersónan, Anne Elliot, er stödd í algjöru öngstræti.

16. ágúst 2011

Barmmikil Bennet og helmassaður Darcy

Í hittifyrra gaf bandaríska bókaforlagið Marvel út myndabókaútgáfu af Hroka og hleypidómum eftir Jane Austen í nokkrum heftum. Nancy Butler stytti frumgerðina fyrir myndskreytingu, en hún hefur áður aðallega skrifað lífstykkjaástarsögur og ekki komið nærri myndabókaheiminum áður. Hugo Pertus, sem myndskreytir Hroka og hleypidóma, er einn af hústeiknurum Marvel en útgáfan er þekkt fyrir steríótýpískar súperhetjuteiknimyndasögur. Þetta leynir sér ekki í þrýstnu vaxtalagi Bennet-systra og vöðvamassa Darcy. Að óséðu lofa þessir höfundar eiginlega ekki góðu en það er eitthvað sem virkar alveg í þessari útgáfu og er skemmtilegt. Sagan er náttúrulega frábær af hálfu Austen, og Butler kemst ágætlega frá því að koma henni fyrir í þessum knappa miðli. Hún reynir að halda sig við texta Austen, persónusköpun hennar og hjarta sögunnar. Auðvitað vantar margt og sums staðar hefur þurft að semja upp á nýtt til að stytta frásögnina, en að mestu gengur þetta upp. Enda voru teiknimyndasögurnar rifnar út, jafnt af aðdáendum Jane Austen og ungum lesendum. Fór salan fram úr björtustu vonum Marvel og sat Hroki og hleypidómar í 13 vikur á New York Times Graphic Novel Bestseller list.




Marvel-útgáfan var því komin á Austen-bragðið og í fyrra birtust fimm blöð af Sense and Sensibility (sem ég get ekki munað hvað er kölluð í íslenskri þýðingu og Gegnir er lokaður) og er sami höfundur Nancy Butler aftur að verki. Það eru mjög ólíkir teiknarar sem myndskreyta sögurnar og hafa þær því ólíkt yfirbragð. Sonny Liew var fenginn til að myndskreyta Sense and Sensibility og fer mjúkum höndum um söguna. Hann er margverðlaunaður myndskreytir sem hefur meðal annars fengið Eisner-verðlaunin. Myndirnar eru fínlegar en ekki of sætar, vinna vel með frásögninni og ná að lyfta því mikla textamagni sem er á síðunum. Sense og Sensibility hefur aldrei verið nein uppáhaldsbók hjá mér (Persuasion er mín bók), kannski út af öllum þessum feiknalöngu útskýringum á því hvað gerðist og af hverju sem Austen treður út um alla frásögnina. Í þessari útgáfu sleppur maður undan þeim að mestu og lesendanum er bara leyft að daga sínar ályktanir óstuddur. Nú verð ég kannski skömmuð en mér finnst það til bóta.


Butler virðist hafa fundið sig hjá Marvel því nú í júlí kom fyrsta heftið af Emmu út og er ekkert lát á vinsældunum Austen-teiknimyndasagnanna. Ef þú ert ekki vön að lesa teiknimyndasögur þá eru þessar útgáfur á Austen ágætis leið til að kynnast þeim.

Helga Ferdinands