Sýnir færslur með efnisorðinu Úlfhildur Dagsdóttir. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Úlfhildur Dagsdóttir. Sýna allar færslur

21. nóvember 2015

Sleipiefni glansmyndanna

Úlfhildur Dagsdóttir sendi Dungeons and Dragons þessa umfjöllun um bókina Velúr (sem kom út árið 2014) en af óviðráðanlegum orsökum fékk hún ekki inni á sínum upphaflega ætlaða samastað.

Á vef mbl.is er mest lesna fréttin að þekkt hjón úr miðbæjarlífinu séu að selja glæsihýsi sitt og flytja í ‚höll Guðjóns Samúelssonar‘ í Vesturbænum. Svo vill til að ég hef séð þetta glæsihús út um gluggana hjá mér undanfarin átta ár eða svo og forvitnaðist því í myndirnar sem fylgdu fréttinni (en hún var sumsé fasteignaauglýsing). Og sat svo með hrukkað ennið eins og múmínálfurinn og reyndi að átta mig á öllum glæsileikanum.

Líklega á ég betur heima í ljóðabók Þórdísar Gísladóttur, Velúr, en í glæsihýsinu, en innan veggja hennar ríkir hversdagsleikinn – sá sem lætur það stundum eftir sér að hnýsast í glansmyndir og veltir fyrir sér hinu fullkomna lífi, en er þó ekki alveg viss hvað í því felst. Svona álíka og hún Margrét, sem í samnefndu ljóði reynir að fylgjast með fjölmiðlum og fésbókinni, en finnst hún samt „dálítið utangátta“: Hún kannast ekki við marga Grímuverðlaunahafa, skilur takmarkað í ýmsum sjónvarpsþáttum, þekkir ekki hráefnið í uppskriftum sem hún les á netinu og hefur aldrei þorað að smakka sushi.

Velúr er önnur ljóðabók Þórdísar en hún er einnig afkastamikill þýðandi og hefur skrifað barnabækur. Einhverjir þekkja hana einnig úr heimi netsins, en hún hélt lengi út bloggi og færir fjasbókinni reglulegar fréttir. Í þeim skrifum birtast sömu einkenni og í ljóðabókunum, íhugul kímni og snörp sýn á samfélag og samtíma, auga fyrir hinu furðulega og venjulega – jafnvel hinu furðulega venjulega – og hæfileikinn til að súmma þetta allt upp í ljóslifandi myndum. Ljóðin hreinlega kvikna á síðunum og tilvera persóna þeirra breiðir úr sér í leikþáttum, jafnvel sjónvarpsþáttaseríum.

14. febrúar 2012

Sæborgarblogg

Teikningin á kápunni er eftir Ingu
Maríu Brynjarsdóttur.
Síðasta haust kom fræðibók Úlfhildar Dagsdóttur, Sæborgin: Stefnumót líkama og tækni í ævintýri og veruleika, út hjá Háskólaútgáfunni. Ég hef legið í henni undanfarna daga og er haldin gríðarlegri þörf fyrir að tjá mig í löngu máli um þetta allt saman. Ég skal þó reyna að hemja mig, það er hreinlega ekki hægt að segja frá öllu vegna þess að það er farið svo víða í þessari bók. Ástæða þess er ekki síst sú að Úlfhildur gengur út frá mjög víðri skilgreiningu Donnu Haraway á sæborginni; að sæborgin geti „verið hverskyns gervivera, vélmenni, gervilíf eða jafnvel bara gervigreind, hvort sem um er að ræða samruna manneskju og vélar á beinan eða óbeinan hátt eða hreinan gerviskapnað“ (Sæborgin, bls. 29). Þannig verða ólíkustu fyrirbæri að viðfangsefni hennar: Gereyðandinn, fegrunaraðgerðir, stjórnun og eftirlit, sæberpönk, krufningar, gen, siðfræði, sjálfsveran, brjálaði vísindamaðurinn Frankenstein og Björk – í raun allt sem tengist líkamanum sem átt er við. Þegar kemur að sæborginni hætta tækni og mennska, karlkyn og kvenkyn að vera andstæður og mörkin verða óljós, athygli manns er dregin að því að líkaminn ferli fremur en fasti.