
Líklega á ég betur heima í ljóðabók Þórdísar Gísladóttur, Velúr, en í glæsihýsinu, en innan veggja hennar ríkir hversdagsleikinn – sá sem lætur það stundum eftir sér að hnýsast í glansmyndir og veltir fyrir sér hinu fullkomna lífi, en er þó ekki alveg viss hvað í því felst. Svona álíka og hún Margrét, sem í samnefndu ljóði reynir að fylgjast með fjölmiðlum og fésbókinni, en finnst hún samt „dálítið utangátta“: Hún kannast ekki við marga Grímuverðlaunahafa, skilur takmarkað í ýmsum sjónvarpsþáttum, þekkir ekki hráefnið í uppskriftum sem hún les á netinu og hefur aldrei þorað að smakka sushi.
Velúr er önnur ljóðabók Þórdísar en hún er einnig afkastamikill þýðandi og hefur skrifað barnabækur. Einhverjir þekkja hana einnig úr heimi netsins, en hún hélt lengi út bloggi og færir fjasbókinni reglulegar fréttir. Í þeim skrifum birtast sömu einkenni og í ljóðabókunum, íhugul kímni og snörp sýn á samfélag og samtíma, auga fyrir hinu furðulega og venjulega – jafnvel hinu furðulega venjulega – og hæfileikinn til að súmma þetta allt upp í ljóslifandi myndum. Ljóðin hreinlega kvikna á síðunum og tilvera persóna þeirra breiðir úr sér í leikþáttum, jafnvel sjónvarpsþáttaseríum.