Á heitum degi
getur majónes verið banvænt
það sagði mér frænka mín
hún sagði mér einnig
að fara aldrei veskislaus út
ef svo færi ég dræpist
þyrftu þeir að bera kennsl á líkið
Sam Shephard (Óskar Árni Óskarsson þýddi)
______________________________________
Lífshlaupið
Ginblautt var bréfið er ég sendi minni móður
Hún sagði komdu aldrei aftur heim
Ginblautt var skeytið er ég sendi minni konu
Hún sagði komdu strax aftur heim
Ginblautt var kortið er ég sendi mínum föður
Hann kom til mín strax næsta dag
Ginblautur var pakkinn er ég sendi mínum syni
Hann elskar mig ennþá í dag
Því að ginblautt er líf mitt gegnsósa af gini
ég ferðast um ókunn lönd
með tösku fulla af gini og brúsa af tónik
ég heilsa uppá fjarlæga strönd
Óttarr Proppé
______________________________________
Hviids Vinstue
Mörghundruð ára gamalt brak
undir skónum
strýk þys borgarinnar af mér
og spyr eftir þögninni
Ég er ekki búinn að drekka mikið
þegar maður frá síðustu öld
sest á móti mér
honum fylgja
skógarþröstur
lóa
og lykt af fjalli
Jón Stefánsson
______________________________________
Jarðarglópur
Það er ekkert verra
að vera Guðsson og
á leið heim til Paradísar
þótt maður hafi misst af síðustu
ferð í kvöld
Á meðan getur maður bara
setið á bekknum og gónt
á stjörnur og rauðamöl þyrlast
um janúarnóttina og já
maður getur jafnvel hugsað
Nú væri gott að eiga
þótt ekki væri nema einn lítinn
poka af piparmyntum
frá Síríusi, Nói
Ísak Harðarson
______________________________________
Þórdís
Engin ummæli:
Skrifa ummæli