19. október 2010

Ský - tímarit fyrir skáldskap

skyÍ vor gaf Jón Hallur Stefánsson mér átta eintök af tímaritinu SKÝ sem kom út ellefu sinnum á árunum 1990-1994. Síðan hef ég haft þessi eintök sem náttborðslesningu og gluggað í þau öðru hverju mér til upplyftingar. Á innsíðu tímaritsins, sem er látlaust og í litlu og skemmtilegu vasabroti (ég giska á 10x15 cm), stendur að Ský sé tímarit fyrir skáldskap, í því birtust aðallega ljóð eftir íslenska og erlenda höfunda en þar má líka finna öðruvísi texta, ljósmyndir og dúkristur. Ritstjórar Skýs voru Jón Hallur og Óskar Árni Óskarsson en síðan voru gestaritstjórar sem fóru fyrir einstökum heftum, menn á borð við Geirlaug Magnússon, Gyrði Elíasson, Braga Ólafsson og Þór Eldon. Meðal íslenskra höfunda sem birtu ljóð má t.d. sjá Jón Stefánsson (sem nú heitir líka Kalman), Ágúst Borgþór Sverrisson, Harald Jónsson, Hannes Sigfússon, Sjón, Hallgrím Helgason, Hlyn Hallsson, Svein Yngva Egilsson o.fl. Þýddir höfundar eru t.d. Pentti Saarikoski, Eduardo Pérez Baca, Elias Canetti og Guillaume Appollinaire.  Kvenmannsnöfnum fer lítið fyrir í tímaritinu Ský en þó má t.d. finna ljóð eftir Úlfhildi Dagsdóttur, Berglindi Gunnarsdóttur, Önnu Láru Steindal og þýðingu Ingibjargar Haraldsdóttur á ljóði eftir Marínu Tsvetajevu og þýðingar Geirlaugs á Wieslawa Szymborska, sem þá var ekki orðin Nóbelsskáld. Hér á eftir fara örfá sýnishorn úr tímaritinu SKÝ.

Á heitum degi
getur majónes verið banvænt
það sagði mér frænka mín

hún sagði mér einnig
að fara aldrei veskislaus út
ef svo færi ég dræpist
þyrftu þeir að bera kennsl á líkið

Sam Shephard (Óskar Árni Óskarsson þýddi)

______________________________________


Lífshlaupið

Ginblautt var bréfið er ég sendi minni móður
Hún sagði komdu aldrei aftur heim
Ginblautt var skeytið er ég sendi minni konu
Hún sagði komdu strax aftur heim
Ginblautt var kortið er ég sendi mínum föður
Hann kom til mín strax næsta dag
Ginblautur var pakkinn er ég sendi mínum syni
Hann elskar mig ennþá í dag

Því að ginblautt er líf mitt     gegnsósa af gini
ég ferðast um ókunn lönd
með tösku fulla af gini og brúsa af tónik
ég heilsa uppá fjarlæga strönd

Óttarr Proppé

______________________________________


Hviids Vinstue

Mörghundruð ára gamalt brak
undir skónum

strýk þys borgarinnar af mér
og spyr eftir þögninni

Ég er ekki búinn að drekka mikið
þegar maður frá síðustu öld
sest á móti mér

honum fylgja
skógarþröstur
lóa

og lykt af fjalli

Jón Stefánsson

______________________________________


Jarðarglópur

Það er ekkert verra
að vera Guðsson og
á leið heim til Paradísar
þótt maður hafi misst af síðustu
ferð í kvöld

Á meðan getur maður bara
setið á bekknum og gónt
á stjörnur og rauðamöl þyrlast
um janúarnóttina og já
maður getur jafnvel hugsað

Nú væri gott að eiga
þótt ekki væri nema einn lítinn
poka af piparmyntum
frá Síríusi, Nói

Ísak Harðarson

______________________________________

Þórdís

Engin ummæli: