30. apríl 2016

Að rannsaka það hvernig við komumst í gegnum dagana: Viðtal við Evu Rún Snorradóttur

Stundum, sérstaklega ef ég hef verið að hjálpa Dagnýju, haldið á henni, þurrkað af henni gubbið, huggað hana, er ég hrædd um að verða skrumskæling á þessari prúðu stúlku. Að ég missi sjónar á handritinu, eða það vanti í það kafla. Ég óttast að það sjáist í gegnum mig. Að ég líkist meira og meria Hrefnu leikfimikennara. Í skærbleikum krumpugalla og pinnaskóm, alltaf að skamma okkur fyrir að reykja, allar, líka þær sem reykja ekki, hún sjálf eitt þykkt lyktandi reykský og allir hafa séð hana, bleika klessu bak við skúrinn á skólalóðinni, reykjandi af losta. Hún býr í raðhúsunum og veit sennilega ekki hversu langt sést frá svölum blokkanna. Við nennum ekki lengur að svara henni, það vita allir að þetta er leikrit sem hún virðist þurfa að leika. Kannski var þetta hlutverk eitt sinn mikilvægt skálkaskjól fyrir hana gegn veðrum og vindum lífsins, sem hætti svo að virka, en nú kemst hún ekki út úr því.

Þetta er brot úr ljóðinu Leikritin sem við leikum úr splunkunýrri ljóðabók Evu Rúnar Snorradóttur, Tappi á himninum, sem kom út hjá Bjarti um síðustu helgi. Ljóðaviðtalafulltrúi Druslubóka og doðranta mætti í útgáfuhófið, fjárfesti í bókinni, las hana í einum rykk – og tók viðtal við höfundinn.

Ég var mjög glöð að sjá Tappa á himninum titlaða sem ljóðabók – það þýddi að ég gat kippt þér inn í þessa viðtalaseríu! – en það er alls ekki sjálfsögð flokkun. Þetta eru stuttir textar sem eru töluvert efnislega tengdir og hefði allt eins verið hægt að kalla örsögur, smásögur, sagnasveig, jafnvel nóvellu eða skáldsögu. Hvers vegna ljóðabók?

Sko, ég skrifaði þetta bara alveg eins og það kom til mín. Ég vissi svo ekkert hvað þetta var. Sendi þetta til útgefandans og þeim þótti þetta vera ljóðabók. Og ég var bara sátt við þá sýn. Ég vildi bara að bókin fengi rými til að vera til á sínum forsendum. Mér þykir alveg ferlegt hvað form geta verið afmarkandi og skemmt upplifunirnar og umræður á verkum. Stundum eru til dæmis alveg frábærar skáldsögur sem fá mikið umtal fyrir að vera of stuttar. Ef að sviðsverk er skráð sem leiksýning er það oft metið út frá mjög ströngum ramma, þó hann eigi alls ekki við. Ég upplifi ljóðið vera opnasta formið. Þú ferð með minnstu afmarkanirnar með þér þegar þú byrjar að lesa ljóð. Ég tala annars bara um þetta sem bók.

25. apríl 2016

Hús búa í mönnum: Viðtal við Þorvald Sigurbjörn Helgason

húsið kunnuglegt
gatan framandi
sprungin steypan
berar saumana
andlitin í glugganum
löngu horfin
glittir í það sem var skilið eftir

Síðan í febrúar hafa Druslubækur og doðrantar birt regluleg viðtöl við skáld sem gáfu út ljóðabækur á síðasta ári. Á síðustu dögum komu hins vegar út fjórar splunkunýjar ljóðabækur, þrjár hjá Meðgönguljóðum og ein hjá Bjarti, og er skáldunum hér með kippt inn í viðtalaseríuna med det samme. Fyrsti viðmælandi okkar úr þessum hópi er Þorvaldur Sigurbjörn Helgason, sem gaf út ljóðabókina Draumar á þvottasnúru hjá Meðgönguljóðum, en úr henni er ljóðið í vesturbænum sem birtist hér í upphafi.
  
Sæll Þorvaldur, takk fyrir að vera til í að koma í viðtal, og til hamingju með nýju bókina! 

Takk sömuleiðis! Ég hef aldrei áður farið í viðtal út af eigin ljóðum þannig ég tek enga ábyrgð á því ef það sem ég segi er algjört kjaftæði.

Þetta er þín fyrsta bók en þú hefur líka skrifað smásögur og ert útskrifaður af sviðshöfundabraut Listaháskóla Íslands. Hvað gera sviðshöfundar og hvernig er það frábrugðið ljóðlistinni? 

Sviðshöfundar eru stétt innan sviðslista sem er soldið illskilgreinanleg. Við gerum bæði allt og ekkert, erum miðja vegu milli þess að vera leikstjórar og performerar (en það fer náttúrulega eftir listrænni áherslu hvers og eins). Ég útskrifaðist úr Listaháskólanum sumarið 2015 og byrjaði í meistaranámi í ritlist haustið sama ár þannig ég hef aðallega einbeitt mér að skrifum undanfarið ár. Í þeim verkefnum sem ég hef unnið í sviðlistum hef ég oftast unnið með einhvern texta en það að skrifa texta fyrir svið (í víðustu merkingu þess orðs) er gjörólíkt því að skrifa ljóð. Í ljóði eru orðin það eina sem skiptir máli og textinn stendur og fellur með sjálfum sér á meðan leiktexti er miklu meira eins og leiðbeiningar og lifnar í rauninni ekki við fyrr en í sviðsetningunni.

Hvenær byrjaðirðu að skrifa ljóð og hvernig kom það til að þú ákvaðst að senda handrit til Meðgönguljóða? 

12. apríl 2016

Þessi erfiða tjáning: Viðtal við Kára Tulinius

ÁSTÁ LAND AMÆR UNUM 

hegr arog skun karí
garð inum afta nvið
fjöl býli shús mitt
semu tanm íner autt

fugl inns pend ýrið
skip tast áaðd eila
meðs érná ttve röld
óupp lýst riaf mána

ísla ndég elsk aþig
enás tmín ásku nkum
oghe grum erei nnig
sönn ogán endi mrka

skóg urég leit aþín
éger ætíð þinn eins
ogat lant shaf iðog
svar tare yðim erkr 

Grasrótarútgáfan Meðgönguljóð var með öflugustu ljóðabókaútgefendum síðasta árs og gaf út einar fimm ljóðabækur (en Meðgönguljóðaserían er reyndar orðin hluti af enn stærra batteríi, Partus Press, sem einnig nær yfir smásögu- og esseyjuseríur). Þar á meðal var fyrsta sjálfstæða ljóðabók eins af stofnendum Meðgönguljóða, brot hætt frum eind eftir Kára Tulinius, en hann hefur áður gefið út ljóðabók í samstarfi við annan stofnanda seríunnar, Valgerði Þóroddsdóttur, og skáldsöguna Píslarvottar án hæfileika. Kári Tulinius er viðmælandi Druslubóka og doðranta í dag.

Sæll Kári, takk fyrir að vera til í að koma í viðtal! Þú ert ritstjóri hjá Meðgönguljóðum (ég ætti að vita það, verandi hinn ritstjórinn) og gefur með brot hættri frum eind í fyrsta skipti út sjálfstæða ljóðabók hjá útgáfunni, í ritstjórn Antons Helga Jónssonar. Hvernig var tilfinningin að vera þarna megin borðsins? Geturðu sagt okkur aðeins frá ritstjórnarfyrirkomulagi Meðgönguljóða, hvað er fengið með því og hvernig þú upplifir það sem ritstjóri annars vegar og skáld hins vegar?

Takk fyrir, Kristín, fyrir að taka við mig viðtal. Og takk fyrir að hafa komið inn í Meðgönguljóð fyrir á að giska einu ári síðan!

Eitt sem hefur verið í fyrirrúmi í starfi Meðgönguljóða frá því að við Valgerður Þóroddsdóttir og Sveinbjörg Bjarnadóttur stofnuðum þau, er samtal. Fyrsta bókin sem kom út, Þungir forsetar, var samin þannig að við Valgerður hittumst á kaffihúsum, oftast Babalú, og skrifuðum ljóðlínur. Þegar við höfðum samið sitthvora línuna, þá skiptumst við á þeim og endurskrifuðum eftir eigin höfði. Síðan endurskrifuðum við endurskriftina, og að lokum endurskrifuðum við endurskriftina á endurskriftinni á upprunalegu línunni. Þannig að hver ljóðlína var skrifuð af okkur báðum, en ekki öðru okkar, eins og hugmynd sem sprettur fram í samtali tveggja einstaklinga.

6. apríl 2016

Að nýta alla orkuna sem hjartasárin framleiða: Viðtal við Eydísi Blöndal

í gamla daga
horfði fólk á tunglið
um stjörnubjartar nætur
og hugsaði
„kannski ert þú að horfa á það líka“

í dag
horfi ég á græna punktinn
hjá nafninu þínu
og hugsa
„kannski ert þú að horfa á hann líka“

Í október síðastliðnum fjölluðu Druslubækur og doðrantar um fyrstu ljóðabók Eydísar Blöndal, Tíst og bast, sem þá var nýkomin út, en í henni er meðal annars að finna ljóðið hér á undan, harmleikur á snjallsímaöld, nr. 2. Tíst og bast hlaut þó nokkra athygli, mokseldist á ljóðabókamælikvarða og var prentuð þrisvar, enda skemmtileg bók með Reykjavíkurljóðum úr samtímanum sem ættu að höfða til margra. Eydís Blöndal er næsti viðmælandi ljóðskáldaviðtalaseríu D&D.

Hæ, Eydís, takk fyrir að koma í viðtal! Tístið í Tíst og bast er vísun í tíst eins og í Twitter, ekki satt? Má kannski líta á 140 slög sem sjálfstætt ljóðform? Ef já, af hverju að gefa út bók – er hin efnislega útgefna bók ennþá lifandi sem form? 

Hæ, Kristín! Virkilega góð spurning. Mörg ljóðanna sem ég birti í bókinni voru ekki að líta dagsins ljós í fyrsta skiptið, heldur hafði ég tweetað þeim áður. En það var í raun þegar ég birti ljóðin á Twitter sem fólk – bæði vinir og ókunnugir – fóru að hvetja mig til þess að gefa þau út. Annars hefði það aldrei hvarflað að mér. Þá hugsaði ég einmitt: „Af hverju ég ætti að gefa þetta út, af hverju er ekki nóg að hafa þetta á Twitter?“ En eftir að hugmyndin kviknaði þá gat ég ekki slökkt á henni. Bókin er vissulega full af ljóðum sem áður voru tíst, en hún er líka full af ljóðum sem ég hefði ekki fyrir mitt litla líf viljað birta á Twitter. Mögulega vegna þess að á internetinu birtir allt fólk óneitanlega bara vissa hlið af sjálfu sér, þar sem allt er í toppstandi. Svo ég ákvað að ég vildi snúa pinku upp á þetta og gefa út bók þar sem ég er alltaf með þessa grín-grímu, þótt ég sé að skrifa um eitthvað sem ætti aldrei heima í þessum grín-veruleika.

Nú eru bæði tíst og lengri ljóð í bókinni (bast?), bæði ljóð sem skipt er í línur eftir hrynjandi og prósaljóð sem oft eru mjög talmálsleg. Hvernig hugsarðu þessar ólíku gerðir ljóða? Hvað stýrir því hvernig ljóðin verða á endanum? 

Titillinn vísar til þess að ljóðin eru öll á tvist og bast, flakka á milli viðfangsefna, tilfinninga og ljóðagerða. Ég hef aldrei sett mig í neinar stellingar þegar ég skrifa ljóð, heldur skrifa ég þau bara þegar þau poppa upp í hausnum á mér og loka svo bókinni, án þess að fínpússa þau neitt frekar. Það er minn stærsti kostur og galli, vil ég meina. Margt af því sem er í bókinni er eitthvað sem ég skrifaði í tölvupósti seint um nótt eftir djammið, eitthvað sem ég hripaði niður í símann minn í strætó eða sagði við vinkonu mína á kaffihúsi. Ætlunin var aldrei að gefa út bók þar sem hvert einasta orð væri vel ígrundað, heldur vildi ég að tilfinningarnar sem fylgja því að vera ég – og aðrar konur á þrítugsaldri í Reykjavík – fengju að skína í gegn. Og mér heyrist á flestum að það hafi tekist nokkuð vel.