„Sumarið 2004 hóf ég að rannsaka sögu manneskju sem ég þekkti ekki sérstaklega vel. Um var að ræða pabba minn. Verkefnið spratt upp úr beiskjutilfinningu, upp úr reiði dóttur sem átti foreldri sem hafði horfið úr lífi hennar. Ég var á höttunum eftir óbermi, slægum manni, sem hafði, háll sem áll, stungið af frá svo mörgu; ábyrgð, ást, skuldum, iðrun. Ég hóf undirbúning ákæru, safnaði saman sönnunargögnum til að nota við réttarhöld. En einhvers staðar á miðri leið breyttist saksóknarinn í vitni.“
Með þessum orðum hefst inngangur bandaríska feministans og Pulitzer-verðlaunahafans Susan Faludi að bókinni Í myrkraherberginu (In the Darkroom) sem kom út árið 2016, en bókin er afrakstur djúpköfunar þar sem höfundurinn sekkur sér í ævi og sjálfsmyndarleit pabba síns og staldrar víða við á meðan sagan er skrifuð.
Skömmu eftir að Susan Faludi fékk tölvupóst og komst að því að pabbi hennar, sem hún hafði ekki haft nein samskipti við í tuttugu og fimm ár, hafði flutt til Ungverjalands og látið leiðrétta kyn sitt í Taílandi á gamals aldri, ákvað hún að slá til og hitta hann aftur. Gat það virkilega staðist að ofbeldisfulli karlakarlinn sem hún ólst upp hjá væri orðin settleg kona í landinu sem hún flúði eitt sinn frá?