Þá er það þriðja druslubókadaman sem sest yfir bók úr íslenska barna- og/eða unglingabókaflokknum Rökkurhæðir, en hér má sjá umfjöllun Hildar um fyrstu bókina, Rústirnar, og svo las Guðrún Elsa bók númer tvö sem nefnist Óttulundur. Það er óþarfi að tyggja upp það sem þegar hefur verið sagt um bókaflokkinn, en í hnotskurn eru hér á ferðinni spennudulúðarhryllingssögur fyrir stálpuð börn og unglinga - talsvert óhugnanlegar en þó ekki ógeðslegar eða ofbeldisfullar - sem gerast í úthverfinu Rökkurhæðum og fjalla um ýmsa krakka úr hverfinu og þá dularfullu atburði sem þau lenda í. Sögurnar eru þannig samhangandi en sjálfsstæðar, það þarf ekki að hafa lesið það sem á undan er komið til að geta sett sig inn í hverja bók heldur hafa höfundarnir búið til sagnaheim sem er hægt að skrifa inn í alls kyns atburði.Þetta er sniðugt sett-öpp hjá þeim Birgittu Elínu Hassell og Mörtu Hlín Magnadóttur sem eru báðar skrifaðar fyrir þriðju bókinni er nefnist Kristófer. Sagnaheimurinn er spennandi og býður upp á marga möguleika. Mér þótti gaman að sjá kortið af hverfinu fremst í bókinni - það er eitthvað heillandi við þannig "ítarefni" og ég hefði svo sannarlega laðast að því sem krakki. Þótt nöfn á fólki og stöðum séu íslensk (Sigmar Snær, Sunnuvík, Berglind o.s.frv.) þá er umhverfið það í rauninni ekki og ég hélt lengi vel að sagnaheiminum væri ætlað að vera einhvers konar staðleysa, þar til minnst var á 17. júní-hátíðahöld. Það stakk dálítið í augun, kannski væri skemmtilegra að leyfa þessum óíslenska heimi að vera bara óstaðsettur? Hann er svo skemmtilega undarlegur hvort eð er, og það gæti auðveldað höfundunum að komast upp með ýmislegt sem lesendur færu annars að setja spurningarmerki við.








