23. júlí 2013

Gráðugir útfararstjórar og köllun smurningarinnar

Í vor bloggaði ég um stofnun leshópsins Dauði og ógeð og fyrstu bókina sem ég las fyrir hann, Stiff. The Curious Lives of Human Cadavers. Það er að vísu ekki enn búið að ræða Stiff í leshópnum, en ég dembdi mér strax í næstu bók, The American Way of Death Revisited eftir Jessicu Mitford. (Ég er ánægð með hvað kvenhöfundar eru duglegir að skrifa um dauða og ógeð.) The American Way of Death er klassískt rannsóknarblaðamennskuverk sem kom fyrst út árið 1963 en þessi endurskoðaða útgáfa er frá 1998.

Bókin fjallar í stuttu máli um greftrunarsiði Bandaríkjamanna á 20. öld og þá síauknu markaðsvæðingu sem einkennir bandarískar útfarir. Mitford er skemmtilegur penni og efnið sem hún er með í höndunum er oft ansi rosalegt, hvort sem litið er til ástandsins þegar bókin kom út upphaflega árið 1963 eða í dag; bara fagtímarit útfararstjóranna (sem heita nöfnum á borð við Casket and Sunnyside) og markaðssetningar- og viðskiptalingóið sem þar er að finna fær mann til að sitja gapandi yfir bókinni. Útfararstjórarnir sem Mitford kynnir til sögunnar svífast einskis þegar kemur að því að reka áróður gegn líkbrennslu (ódýrari valkostur), pranga sem dýrustum kistum inn á syrgjandi fjölskyldur með blygðunarlausri tilfinningakúgun og meika hvert einasta lík sem þeir fá í hendurnar í drasl („ég þekkti Bill gamla ekki aftur“).

20. júlí 2013

Fabúlur HKL: Guðrún Elsa og Kristín Svava spjalla um Kristnihald undir Jökli

Séra Jón Prímus (Baldvin Halldórsson) og Umbi
(Sigurður Sigurjónsson) ræða lífið og tilveruna
KST: Heil og sæl, Guðrún!

GEB: Nei, sæl og blessuð Kristín Svava! Mikið sem ég hef saknað þín! Eigum við að byrja á því að gefa einhverja mynd af því um hvað Kristnihald undir Jökli fjallar, svona fyrir þá sem ekki vita?

KST samþykkir hikandi. (Hér vantar í handritið)

GEB: Bókin hefst á því að biskup hefur kallað á fund sinn ungan guðfræðing til að biðja hann um að taka að sér það verkefni að rannsaka kristnihald undir Snæfellsjökli. Þar virðist ýmislegt undarlegt hafa verið að gerast undanfarna áratugi; til dæmis sýnir séra Jón Prímus, sem nýtur þó mikillar hylli meðal sóknarbarna sinna, prímusaviðgerðum og hestaumhirðu mun meiri áhuga en messuhaldi, kirkjan hefur grotnað niður, auk þess sem „kynleg umferð með ótiltekinn kassa á jökulinn“ veldur biskupi áhyggjum. Guðfræðingurinn ungi gerist því umboðsmaður biskups (UmBi) og heldur á Snæfellsnes með upptökutæki undir armi. Þar hyggst hann ræða við íbúa undir Jökli og varpa ljósi á ástandið með nákvæmri skráningu upplýsinga, sem eiga svo að verða skýrsla fyrir kirkjumálaráðuneytið. En ekki einu sinni upptökutæki getur tryggt hlutlausa athugun og þetta verkefni verður kannski ekki jafn einfalt og fljótunnið og Umbi vonast til…

11. júlí 2013

Handavinnukennari myrðir ekki manninn sinn (því miður)

Það var með talsverðri tilhlökkun sem ég opnaði Manneskju án hunds – verandi reyfara-aðdáandi hafði ég lengi ætlað að lesa bók eftir hinn fræga og margþýdda Håkan Nesser. Lengi framan af var það lögreglumaðurinn (og síðar antíksölumaðurinn) Van Veeteren sem leysti gátuna í bókum Nesser en frá 2006 hefur ítalskættaður lögreglumaður að nafni Gunnar Barbarotti séð um slíkt og Manneskja án hunds er einmitt fyrsta bókin um hann. (Þorgerður las aðra bókina um Barbarotti og minnist á hana hér)