21. desember 2019

Brotakennd mynd af merkilegum konum

Ung Vera Zilzer prýðir kápu bókarinnar Brot
Ég hugsa oft um allar ævisögurnar sem væri gaman að skrifa. Allar þessar áhugaverðu ósögðu ævir! Og hið dásamlega ævisöguform, hinn fasti frásagnarrammi, ævin, sem er hægt að fara með í svo margvíslegar áttir. Vissulega eru tilraunaglaðir ævisagnahöfundar í minnihluta, og leiðinlegar ævisögur eru með leiðinlegustu bókum, en það er líka svo ánægjulegt þegar vel tekst til.

Ég hef lýst þeirri skoðun minni frjálslega undanfarin ár að það ætti að setja eins og tíu ára lögbann á kvikmyndir um tilvistarkrísur og þroskasögur karlmanna. Það myndi bæði auka á fjölbreytni kvikmyndanna og forða áhorfendum frá melódramatískum endurtekningum. Þetta sama mætti kannski segja um ævisögur; tíu ára lögbann á ævisögur íslenskra karlmanna. Það væri forvitnilegt að sjá hvað gerðist ef höfundar væru þvingaðir til að leita annarra viðfangsefna. Myndu ævisögur hætta að koma út?

Eða myndi ég kannski loksins fá bækur um allar forvitnilegu konurnar sem ég þrái að vita meira um og hinar sem ég veit ekki einu sinni að voru til? Hvernig eigum við að túlka líf og stöðu stórjarðeigandans Guðrúnar eldri Eggertsdóttur frá Skarði? Eða KFUK-frömuðarins Ingibjargar Ólafsson sem þrumaði svo harðorðar siðapredikanir yfir íslenskri þjóð um 1910 að hún þurfti að flýja land og bjó svo í marga áratugi með grískri prinsessu? Hvers konar Reykjavík aldamótanna myndum við kynnast gegnum augu Diðrikku Hölter, sem var skráð ómagi í manntölum en spákona í bæjarskránni?

Ég fékk slíkt kikk út úr Brot. Konur sem þorðu eftir Dóru S. Bjarnason sem er nýlega komin út hjá bókaforlaginu Benedikt og fjallar um þrjár kynslóðir óvenjulegra kvenna. Meðal þess sem gerir bókina athyglisverða er að þótt þetta sé íslensk ævisaga, gefin út á íslensku af íslenskum höfundi, eru konurnar þrjár staðsettar á mörkum Íslandssögunnar og hins alþjóðlega samhengis (hér koma fyrir persónur með nöfn eins og Ödön Zichy zu Zich sur Vasonykeö). Þær voru allar fæddar annars staðar og í rauninni eyddi engin þeirra löngum tíma á Íslandi.

19. desember 2019

Heimsbókmenntir fyrir börn

Það er kunnara en frá þurfi að segja að útgáfa barnabóka á íslandi stendur völtum fótum - ekki af því að það skorti hæfileika, ástríðu eða metnað heldur af því að það skortir fjármagn og athygli fjölmiðla í þennan ótrúlega mikilvæga málaflokk. Barnabókaútgáfa hefur löngum verið nokkurs konar hugsjónastarf þeirra rithöfunda, myndskreyta og bókaútgáfa sem láta sig málið varða

Það er því alltaf gleðiefni þegar einhver ræðst í það (að mörgu leyti) vanþakkláta verkefni að koma heimsbókmenntum til íslenskra barna en það hefur einmitt lítil bókaforlag að nafni AM gert nýverið þegar þau gáfu út þrjár bækur eftir rithöfundinn og myndlistamanninn Tomi Ungerer. Ungerer er fæddur í Strasbourg í Frakklandi árið 1931 en lést í byrjun þessa árs eftir magnaðan feril sem rithöfundur, myndlistarmaður og hönnuður svo fátt eitt sé nefnt . Eftir hann liggja yfir 150 bækur af ýmsum toga en þekktastur var hann fyrir barnabækur sínar. Þær þrjár bækur sem AM forlag gefur nú út, í ljómandi skemmtilegri þýðingu Sverris Norlands, eru Ræningjarnir þrír, Máni og Tröllið hennar Sigríðar. Allt eru þetta ævintýri – ævintýri sem byrja kunnuglega en breyta svo skemmtilega um stefnu og fara í allt aðra átt en lesendur, ungir sem aldnir, búast við.

9. desember 2019

Fimm konur með nöfn og sögur

Áður en ég las bókina sem hér er til umfjöllunar hafði ég ekki gert mér grein fyrir alþjóðlegum vinsældum Kobba kviðristu, aka Jack the ripper, sem er frægur fyrir að hafa myrt fimm konur í Whitechapel-hverfinu í London árið 1888 og aldrei náðst. Það eru heil samfélög manna þarna úti sem þreytast ekki á að velta fyrir sér störfum hins dularfulla raðmorðingja og raunverulegu nafni.

Honum eru tileinkaðar sögugöngur, sjónvarpsþættir, kvikmyndir, heimasíður og lífleg spjallborð og það hafa verið prentaðir margir kílómetrar af texta um hann frá öllum mögulegum sjónarhornum. Bækur sem fjalla um morðin og morðingjann. Bækur sem fjalla um lögreglumennina sem eltust við morðingjann. Bækur sem fjalla um það hvernig dagblöðin fjölluðu um morðingjann. Bækur sem fjalla um viktoríanskt samfélag í ljósi morðanna. Bækur sem fjalla um aðra morðingja sem voru að störfum á sama tíma. Að ótöldum auðvitað öllum skáldverkunum innblásnum af atburðunum. Í langstærstum hluta þessa gríðarlega textamagns er morðinginn Jack the ripper semsé í forgrunni og þær limlestingar sem hann sérhæfði sig í.

Það sem sagnfræðingurinn Hallie Rubenhold gerir í The Five. The Untold Lives of the Women Killed by Jack the Ripper er hins vegar að beina sjónum sínum að konunum sem urðu fyrir honum. Þetta er sögulegt réttlætisverkefni með yfirlýst femínískt markmið af hálfu höfundarins; að gangast ekki undir ástríðufullan áhugann á karlmorðingjanum heldur byggja í staðinn upp mynd af kvenfórnarlömbunum sem manneskjum og setja í samhengi við stöðu þeirra í viktoríönsku samfélagi.

Áhugi minn var strax vakinn þegar ég las um útgáfu bókarinnar í vor. Ég var nýbúin að lesa bækur Maggie Nelson, Jane. A Murder frá 2005 og The Red Parts frá 2007, þar sem hún skrifar um móðursystur sína Jane sem var myrt í Bandaríkjunum á sjöunda áratug síðustu aldar, og veltir fyrir sér þeim þráhyggjukennda áhuga á morðum á ungum hvítum konum sem birtist svo mjög í skálduðum og sannsögulegum glæpasögum, prentuðum og kvikmynduðum. Bækurnar tvær eru meðal annars tilraun til að draga upp mynd af Jane sem lifandi persónu, skemmtilegri og greindri manneskju, og spyrna gegn því að morðið á henni sé gert að afþreyingarefni og hún að aukaatriði í sögu manns sem hefur gert það eitt sér til frægðar að drepa konur. Hin þekktu orð Edgar Allan Poe bergmála hér víða: „The death of a beautiful woman is, unquestionably, the most poetical topic in the world.“ Einmitt, Edgar. Eða svo ég vitni í The Red Parts:

1. desember 2019

Glæpir menningarmafíunnar

Matilda Gustavsson
Á föstudaginn fyrir rúmri viku kom bókin Klubben, eftir Matildu Gustavsson, út í Svíþjóð (hún kemur líka út á ensku með titilinn The Club: A Chronicle of Power and Abuse at the Heart of the Nobel Scandal). Matilda (f. 1987) fékk virt blaðamannaverðlaun 2018 fyrir að fletta ofan af nauðgunum, ofbeldi og fleiri glæpum sem viðgengust áratugum saman í kreðsum nátengdum Sænsku akademíunni og urðu til þess að Nóbelsverðlaunin í bókmenntum voru ekki veitt árið 2018. Ég fylgdist með afhjúpuninni í dagblöðum svo ég vissi töluvert um þetta mál, en engu að síður gleypti ég bókina í mig í gær og finnst hún alveg stórmerkileg lesning sem setur kvenfyrirlitninguna, menningarsnobbið og þöggunina í enn skýrara samhengi.

Inngangurinn í
menningarklúbbinn Forum
Í Klubben segir Matilda Gustavsson frá því hvernig hún fletti ofan af Jean-Claude Arnault sem gekk undir nafninu Kulturprofilen áður en hann var dæmdur fyrir nauðgun og nafngeindur opinberlega. Jean-Claude er eiginmaður skáldsins Katarinu Frostenson, sem sat í stól númer 18 í sænsku akademíunni frá 1992 og þar til fyrr á þessu ári, þegar henni var ýtt út, en hún fær engu að síður ævilangar mánaðargreiðslur frá Akademíunni og má að auki búa í íbúð á besta stað í eigu þeirrar menningarstofnunar. Kynferðisleg áreitni Jeans-Claudes Arnaults var fyrst til umfjöllunar opinberlega fyrir síðustu aldamót. Þá var skrifuð blaðagrein og fólk í ýmsum stofnunum fékk bréf frá konum sem upplýstu um hegðun hans, en allt var þaggað niður, það þurfti #metoo og mál Harvey Weinsteins til að eitthvað gerðist og þá kom í ljós að margt fólk var aldeilis til í að verja margfaldan nauðgara og konuna hans sem tók þátt í öllu saman beint og óbeint.

8. mars 2019

Endalokin og ástin á lífríki jarðar

Í tilefni þess að þriðja loftslagsverkfallið fór fram á Austurvelli fyrr í dag datt mér í hug að það væri upplagt að henda í blogg um eina eftirminnilegustu bókina sem ég las á síðasta ári, sænsku unglingabókina Slutet (sem þýða mætti sem Endalokin) eftir Mats Strandberg. Mats er íslenskum unglingabókaaðdáendum að góðu kunnur frá því hann skrifaði Cirkeln-þríleikinn ásamt Söru Bergmark Elfgren. Fyrstu bækurnar tvær, Hringurinn og Eldur, komu út í íslenskri þýðingu Þórdísar Gísladóttur en þriðja bókin, sem hefði með öllu réttu átt að heita Lykillinn á íslensku, var því miður aldrei gefin út. (Spældum bendi ég á að bókin er til í enskri þýðingu sem er hægt að fá lánaða á Borgarbókasafninu eða kaupa á Amazon.)

Slutet segir frá síðustu vikunum í lífi unglinganna Simonar og Lucindu en þau segja söguna til skiptis. Formáli hennar gerist síðla vors þegar þær fréttir berast að hinn gríðarstóri loftsteinn Foxworth stefni á jörðina, muni lenda á henni á tilteknum degi í byrjun hausts og eyða þar öllu lífi á örfáum mínútum. Hin eiginlega saga hefst svo þegar það eru 4 vikur og 5 dagar í heimsendi. Kærasta Simonar, Tilda, hefur sagt honum upp þar sem hún vill ekki vera í sambandi þessa síðustu mánuði og hann er í ástarsorg. Milli þess sem við fylgjumst með villtu líferni Simonar, sem fer eins og flestir aðrir unglingar í partý öll kvöld, lesum við skilaboð sem Lucinda sendir út í geiminn í gegnum appið #TellUs, forrit sem var sett upp í von um að einhvern tímann í framtíðinni verði til einhverjar lífverur sem muni uppgötva skilaboðin og geti þannig fræðst um lífið fyrir Foxworth.

6. febrúar 2019

Þreyjum þorrann með pottaplöntum!


Það eru ekki mörg sumur (garðáhugafólk telur auðvitað árin í sumrum) síðan ég varð forfallin plöntuáhugakona. Raunverulegur áhugi kviknaði sennilega með fyrstu fjölæru plöntunni sem var gróðursett í garðinum – ég ætla ekki að reyna að lýsa því hvað hún gladdi mikið þegar hún stakk upp kollinum næsta vor! Fram að því hafði ég verið sú kona sem drap jafnvel kaktusa úr þurrki (eða öðru mótlæti) og skyldi engan veginn af hverju fólk gaf blóm þegar það gat gefið súkkulaði, vín eða bækur! En nú er ég sem sagt komin með græna fingur og tókst meira að segja að gleðjast (svolítið) yfir vætunni síðasta sumar því hún var svo góð fyrir gróðurinn (alla vega fram í júlí – svo fóru sumarblómin að mygla).

En hvað gerir plöntuáhugafólk yfir háveturinn þegar allt grænt er hvítt í snjónum? Jú það leggur allar gluggakistur, hillur og laus borð undir pottaplöntur. Hýasintur, Riddararósir, Aloa vera, einhver skrítin planta úr IKEA sem ekki var nafngreind á kvittun og fleiri hafa glatt augað og lyft geðinu yfir síðustu mánuði.