Ung Vera Zilzer prýðir kápu bókarinnar Brot |
Ég hef lýst þeirri skoðun minni frjálslega undanfarin ár að það ætti að setja eins og tíu ára lögbann á kvikmyndir um tilvistarkrísur og þroskasögur karlmanna. Það myndi bæði auka á fjölbreytni kvikmyndanna og forða áhorfendum frá melódramatískum endurtekningum. Þetta sama mætti kannski segja um ævisögur; tíu ára lögbann á ævisögur íslenskra karlmanna. Það væri forvitnilegt að sjá hvað gerðist ef höfundar væru þvingaðir til að leita annarra viðfangsefna. Myndu ævisögur hætta að koma út?
Eða myndi ég kannski loksins fá bækur um allar forvitnilegu konurnar sem ég þrái að vita meira um og hinar sem ég veit ekki einu sinni að voru til? Hvernig eigum við að túlka líf og stöðu stórjarðeigandans Guðrúnar eldri Eggertsdóttur frá Skarði? Eða KFUK-frömuðarins Ingibjargar Ólafsson sem þrumaði svo harðorðar siðapredikanir yfir íslenskri þjóð um 1910 að hún þurfti að flýja land og bjó svo í marga áratugi með grískri prinsessu? Hvers konar Reykjavík aldamótanna myndum við kynnast gegnum augu Diðrikku Hölter, sem var skráð ómagi í manntölum en spákona í bæjarskránni?
Ég fékk slíkt kikk út úr Brot. Konur sem þorðu eftir Dóru S. Bjarnason sem er nýlega komin út hjá bókaforlaginu Benedikt og fjallar um þrjár kynslóðir óvenjulegra kvenna. Meðal þess sem gerir bókina athyglisverða er að þótt þetta sé íslensk ævisaga, gefin út á íslensku af íslenskum höfundi, eru konurnar þrjár staðsettar á mörkum Íslandssögunnar og hins alþjóðlega samhengis (hér koma fyrir persónur með nöfn eins og Ödön Zichy zu Zich sur Vasonykeö). Þær voru allar fæddar annars staðar og í rauninni eyddi engin þeirra löngum tíma á Íslandi.