19. desember 2019

Heimsbókmenntir fyrir börn

Það er kunnara en frá þurfi að segja að útgáfa barnabóka á íslandi stendur völtum fótum - ekki af því að það skorti hæfileika, ástríðu eða metnað heldur af því að það skortir fjármagn og athygli fjölmiðla í þennan ótrúlega mikilvæga málaflokk. Barnabókaútgáfa hefur löngum verið nokkurs konar hugsjónastarf þeirra rithöfunda, myndskreyta og bókaútgáfa sem láta sig málið varða

Það er því alltaf gleðiefni þegar einhver ræðst í það (að mörgu leyti) vanþakkláta verkefni að koma heimsbókmenntum til íslenskra barna en það hefur einmitt lítil bókaforlag að nafni AM gert nýverið þegar þau gáfu út þrjár bækur eftir rithöfundinn og myndlistamanninn Tomi Ungerer. Ungerer er fæddur í Strasbourg í Frakklandi árið 1931 en lést í byrjun þessa árs eftir magnaðan feril sem rithöfundur, myndlistarmaður og hönnuður svo fátt eitt sé nefnt . Eftir hann liggja yfir 150 bækur af ýmsum toga en þekktastur var hann fyrir barnabækur sínar. Þær þrjár bækur sem AM forlag gefur nú út, í ljómandi skemmtilegri þýðingu Sverris Norlands, eru Ræningjarnir þrír, Máni og Tröllið hennar Sigríðar. Allt eru þetta ævintýri – ævintýri sem byrja kunnuglega en breyta svo skemmtilega um stefnu og fara í allt aðra átt en lesendur, ungir sem aldnir, búast við.Ungerer bregður á leik
Bækurnar voru lesnar yfir nokkur kvöld (bæði eru þær þrjár og svo telst barnabók eiginlega ekki lesin nema hún hafi verið lesin nokkrum sinnum) og var það samdóma álit tveggja ára, sjö ára og fjörtíu og tveggja ára að Ræningjarnir þrír bæru af – alla vega hvað söguna varðar – myndskreytingarnar í öllum bókunum eru pípandi snilld. Í Ræningjunum þremur kynnumst við hópi miskunnarlausra ræningja sem fara um með vopn, stöðva hestvagna og ræna ferðalanga á vegum úti áður en þeir fara með góssið á felustað sinn uppi í fjöllunum. En einn daginn ræna þeir vagn sem í er ekkert verðmætt annað en lítil stúlka að nafni Torfhildur. Stúlkan er munaðarlaus og á leið til andstyggilegrar frænku sinnar svo henni finnst hið besta mál þegar ræningjarnir taka hana í stað gulls og silfurs. Þegar í felustað ræningjanna er komið og stúlkan sér allt gullið, spyr hún hvað þeir noti alla peningana í og þá kemur í ljós að ræningjunum hefur aldrei dottið í hug að gera neitt við gullið annað en að safna því í stórar kistur. En þetta vekur þá til umhugsunar og á næstu síðu eru þeir búnir að byggja stóra höll fyrir Torfhildi og þangað eru öll munaðarlaus börn velkomin. Þetta spyrst út og kornabörn eru jafnvel skilin eftir á tröppum hallarinnar. Þegar börnin svo verða fullorðin byggja þau hús í kringum höllina til að vera nálægt ræningjunum og þannig vex upp stórt þorp í kringum höll ræningjanna sem verða elskaðir og dáðir af börnunum hér eftir.

Í þessari stuttu og einföldu sögu rúmast ansi margt. Að það séu til ræningjar sem ræna öllum verðmætum fólks, að það séu til börn sem eiga engan til að annast þau, að það sé eitt að eiga peninga og allt annað mál að nota þá til góðs og síðast en ekki síst – það sem er raunar leiðarstef í öllum þremur bókum Ungerer sem Am gefur hér út, að þótt einhver geri eitthvað slæmt er hann ekki endilega bara vondur svo heimurinn skyldi ekki gefast strax upp á illvirkjum, þeim er kannski ekki alls varnað ef þeir fá tækifæri til að gera gott.

Sú er einmitt raunin með tröllið illvíga í Tröllið hennar Sigríðar. Þar er á ferðinni sérstaklega illskeytt tröll sem borðar börn og helst ekkert annað en börn – börn eru það besta sem tröllið veit. Það fer um borgir og bæi og grípur öll börn sem það finnur svo aldrei sjást lengur börn að leik – eða yfirhöfuð á ferli, þau eru öll falin í kjöllurum – eða uppétin. En Sigríður býr hins vegar í skóginum með pabba sínum og hefur aldrei heyrt um tröllið svo þegar hún neyðist til að fara ein á markaðinn að selja matvörur, hefur hún ekki hugmynd um að hún á að vera hrædd við það. Tröllið ætlar að sitja fyrir Sigríði og éta hana en er orðið svo hungrað og veikburða að það dettur og slasar sig. Sigríður sér aumur á tröllinu, slær upp eldhúsi á staðnum og eldar ofan í það allan matinn sem átti að fara á markaðinn. Tröllið þykist hafa himinn höndum tekið enda aldrei komist í tæri við annan eins listakokk og Sigríði og steinhættir auðvitað að borða börn. Kemur ekki í ljós að það eina sem það kunni að elda fyrir utan börn var einhver ömurlegur grautur! Sigríður og faðir hennar fá vinnu í kastalanum hjá tröllinu og hún eldar hverja stórveisluna á fætur annarri ofan í tröllið og vini þess. Myndirnar af veisluföngunum grípa heldur betur augað og er sennilega sú blaðsíða sem oftast hefur verið skoðuð af fjölskyldu rýnis. Bókarlok komu hins vegar dálítið illa við sjö ára soninn og eiginlega móðurina líka en þar er Sigríður orðin ung stúlka og hún og tröllið verða ástfangin og hún giftist honum. „En hvað með öll börnin sem hann borðaði?“ spurði sonurinn, heldur hneykslaður á umburðarlyndi stúlkunnar. Ég var nú frekar sammála, en kannski segir það allt um kapítalískan tvískinnungshátt minn að mér fannst greinilega allt í lagi að Sigríður ynni fyrir tröllið – svo lengi sem hún giftist því ekki.

Síðasta sagan, Máni, er kannski óvenjulegust þótt fyrstu setningarnar séu vissulega eins og úr gamalli sögu. Þar kynnumst við karlinum í tunglinu, og eins og mannfólkið horfir dreymið á tunglið, horfir hann dreyminn á jörðina og þráir ekkert heitar en að komast þangað, dansa og skemmta sér og blanda geði við mennina. En þegar hann svo grípur í skottið á halastjörnu og kemst til jarðar rætast draumar hans ekki. Honum er tekið af tortryggni og illvilja og lendir í alls kyns vandræðum og jafnvel fangelsi áður en hann kemst loks heilu og höldnu aftur heim. Í óvenjulegri og margræðri sögu veltir Ungerer upp spurningum um hvernig við komum fram við þá sem eru öðruvísi og þá sem koma annars staðar frá og mannfólkið kemur ekki sérlega vel út úr þeirri rannsókn. Þrátt fyrir fremur dapurlegt efni er þó sagan líka létt og skemmtileg – eins og þegar Mána tekst að sleppa úr fangelsinu þegar tunglið minnkar – þegar það er orðið hálft fer hann létt með að smeygja sér út um rimlana.

Þetta eru óvenjulegar bækur, ótrúlega skemmtilega myndskreyttar en Ungerer vann mestmegnis með blek, bæði svart og litað, og teikningarnar eru dregnar stórum, einföldum dráttum – fullar af ógn en einnig húmor og léttleika. Eftir lestur bókanna er ljóst að bækur Ungerer eiga fullt erindi til íslenskra barna sem eiga það svo sannarlega skilið að fá að kynnast litríkum og spennandi heimi hans.