30. desember 2013

Morð, spenna, tár og veður

er „augað“ ekki orðið dáldið
þreytt sem kápumynd?


Larsson á góðri stund
Ég hef lengi verið mikill aðdáandi Åsa Larsson og dálítið-dapurlegu-en-þó-skemmtilegu reyfara hennar. Fyrir það fyrsta er hún með frumlegar og áhugaverðar aðalsöguhetjur sem þróast og eru ekki fullkomlega fyrirsjáanlegar. Þar ber fyrst að nefna lögfræðinginn Rebecku Martinsson sem var áður heilmikið númer hjá stórri lögfræðistofu í Stokkhólmi en vegna persónulegra aðstæðna er hún nú flutt aftur á heimaslóðirnar í Kiruna, fyrrum yfirmanni sínum og ástmanni til mikils ama. Fórnargjöf Móloks (langsóttur titill verð ég að segja) er fimmta bókin um hana og þó að bækurnar séu allar sjálfstæðar þá mæli ég með því að þær séu lesnar frá byrjun...eða í öllu falli allar lesnar til að skilja til fulls persónuna - og svo líka af því þær eru spennandi og skemmtilegar. Til að ljóstra ekki upp um neitt læt ég nægja að segja að Rebecka hafi í fortíðinni orðið fyrir áfalli sem breytti afstöðu hennar til lífsins og í raun henni sjálfri – sem er líka þægileg tilbreyting frá lögreglumönnum (eða öðrum sem leysa glæpamál í reyfurum) sem spretta iðulega alheilir upp í bókarlok og hrista af sér skelfingu síðustu 300 blaðsíðna eins og kátir hundar hrista af sér vatn.

22. desember 2013

A gruffalo! Whit, dae ye no ken?

Nýlega áskotnuðust mér óvæntur happafengur, tvær afar skemmtilegar barnabækur. Aðra þeirra hafði ég reyndar lesið áður en á öðrum tungumálum. Þetta voru bækurnar "The Gruffalo" og "The Gruffalo's Wean" eftir Juliu Donaldson og Axel Scheffler - á skosku.

Mörg börn og foreldrar þekkja bækurnar um the Gruffalo, sem í skemmtilegri þýðingu Þórarins Eldjárn heitir Greppikló. Greppikló er skrítið og skemmtilegt skrímsli sem kemst í kynni við brögðótta mús. Eftir fyrri bókinni hefur verið gerð teiknimynd sem var sýnd í íslensku sjónvarpi fyrir einhverjum jólum síðan; ekki veit ég hvort myndin eftir seinni bókinni hefur verið sýnd hér en hún er allavega líka til.

Greppikló hefur líka komið út á rússnesku
Greppiklóarbækurnar eru ætlaðar ungum börnum og texti Juliu Donaldson sem er að mestu leyti í bundnu formi einkennist af rími og skemmtilegri hrynjandi. Myndirnar eftir Axel Scheffler eru fallegar, líflegar og uppfullar af húmor; líkt og Áslaug Jónsdóttir og félagar gera í skrímslabókunum vinsælu varpar textinn gjarnan óvæntu ljósi á myndirnar og öfugt. Lesandinn fær að sjá hvernig í pottinn er búið á undan persónum.

Skosku, eða Scots, má ekki rugla saman við skoska gelísku, sem er keltneskt tungumál sem u.þ.b. eitt prósent skosku þjóðarinnar talar. Scots er ýmist flokkað sem tungumál eða sem mállýska/afbrigði af ensku, sumsé skosk enska. Talið er að einn af hverjum þremur Skotum hafi vald á að tala skosku en mun fleiri skilja hana. Innan skoskunnar er svo hellingur af mállýskum og svæðisbundnum sérkennum. Eitthvað er enn gefið út af bókum á skosku og margir nútímahöfundar sem skrifa á ensku nota eitthvað úr skoskunni. Þegar leikrit eftir undirritaða var sett upp með skoskum leikurum var til dæmis önnur persónan þýdd yfir á skoska mállýsku á meðan hin talar "flatari" ensku. Í skosku (og skoskri ensku almennt) er fullt af orðum sem eiga meira skylt við íslensku og norræn mál en enskuna. Mér reyndist oft auðveldara að skilja skosku orðin heldur en enskum og bandarískum vinum mínum. Skoska er blæbrigðarík og það er einhver innbyggður húmor í málinu; ég á mjög skemmtilega bók þar sem safnað hefur verið saman vísum og leikjaþulum frá Skotlandi þar sem smellið rím og óvænt málnotkun eru á hverju strái.

21. desember 2013

Útlenskar gauksklukkur, gaddfreðnar tertur og kennaraefni sem hefðu betur sleppt því að sofa við opinn glugga

Ég varð fyrir nokkru áfalli um daginn þegar ég komst að því að Þórdís Gísladóttir ljóðskáld og barnabókahöfundur, sem ég stóð í þeirri trú að þekkti allar barnabækur sem hefðu komið út á Íslandi frá upphafi vega, hafði aldrei heyrt um Klukkuþjófinn klóka. Öfugt við margar af mínum góðu meðbloggurum er ég lítil IBBY-týpa í mér, en sumar barnabækur sitja í minninu fyrir að hafa verið skemmtilegri en aðrar. Það var lítil saga af skólastjóranum í Klukkuþjófnum klóka sem rifjaðist upp fyrir mér þegar við Þórdís vorum að fara að sofa í heimavistarlegu herbergi í Finnlandi og ræddum hvort við ættum ekki að opna glugga fyrir nóttina:

„Þegar minnst var á þá ósvinnu að opna glugga ef veðrið var gott, sagði hann ætíð sömu söguna um bekkjarfélaga sinn í Kennaraskólanum, sem hafði alltaf sofið við opinn glugga og einn morguninn fannst hann dauður í rúmi sínu með snjóskafl á brjóstinu. Það hafði fennt inn um gluggann um nóttina og á bringu hins sofandi kennaraefnis.“

(Við opnuðum nú samt.)

Höfundur Klukkuþjófsins klóka er Guðmundur Ólafsson, leikari og rithöfundur, sem alls hefur gefið út eina unglingabók og fimm barnabækur. Þekktastur er hann fyrir bækurnar um Emil og Skunda, sem kvikmyndin Skýjahöllin var gerð eftir, en þótt ég hefði ósköp gaman af þeim var það alltaf Klukkuþjófurinn sem átti hjarta mitt. Það segir kannski eitthvað um mig sem lesanda; Klukkuþjófurinn gengur mikið til út á stuð og sniðugheit, en Emil og Skundi er meiri þroskasaga. Það fór ekki sérlega vel í mig sem barn, og gerir reyndar ekki enn, þegar persónur sögunnar læra af mistökum sínum og lesandinn á helst að gera það líka.

Tvær góðar nóvellur

Nýlega kom út hjá Máli og menningu fyrsta bók Halldórs Armands Ásgeirssonar, Vince Vaughn í skýjunum, sem inniheldur tvær nóvellur. Sú fyrri er samnefnd bókinni og segir frá menntaskólanemanum og sundlaugarsumarstarfsmanninum Söru. Sú seinni heitir Hjartað er jójó og er frásögn Þóris, lottókynnis í sjónvarpinu.

Báðar gerast nóvellurnar að stærstum hluta í Reykjavík og tímarammi beggja spannar fáeinar vikur. Á yfirborðinu eru sögurnar og aðalpersónur þeirra annars nokkuð ólíkar, auk þess sem við kynnumst Söru í frásögn alviturs sögumanns á meðan Þórir segir frá í fyrstu persónu. Bæði verða þau fyrir einhvers konar vitrun, sem verður ekki betur séð en hafi verið ætluð þeim einum og sem kemur til með að hafa töluverð áhrif á líf þeirra, en nálgast þó þessar vitranir og tilheyrandi afleiðingar með ólíku móti hvort um sig. Á meðan Þórir er sannfærður um það frá byrjun að honum hafi verið falin mikilvæg skilaboð til umheimsins er það fyrst eftir viðbrögð annarra að Söru fer að detta í hug að hennar upplifun hafi kannski verið eitthvað merkileg. Þrátt fyrir sterka sannfæringu þarf Þórir líka að hafa töluvert meira fyrir því en Sara að miðla boðskapnum sem hann telur sig hafa að flytja, og þegar athyglin loks næst er hún ekki beinlínis af þeim toga sem hann hafði séð fyrir sér. Þórir er eldhress á yfirborðinu en í raun félagslega einangraður; þráir nánd í samskiptum en veit ekki hvernig hann ætti að bera sig að við að nálgast aðra. Í vitrun hans birtist nokkuð sem hann telur eiga almennt erindi, eitthvað sem fólk gæti sameinast um, en það gengur ekki eftir. Þetta er þó einmitt það sem gerist í tilfelli Söru, án þess að hún hafi séð það fyrir eða vonast eftir því sjálf. Með öðrum orðum birtist afar tilviljunarkennt samband milli persónulegrar sannfæringar og viðleitni annars vegar og viðbragða umhverfisins hins vegar.

Af tilgangi og merkingu hausatalninga


Um daginn birti ég hér niðurstöður óvísindalegrar könnunar minnar á kyni höfunda uppáhaldsbóka (í grófum dráttum) kvenna annars vegar og karla hins vegar. Sumir brugðust við þessari talningu með því að hlaupa í vörn og fara að útskýra hvernig kvenmannsleysi á þeirra listum væri sko alls ekki til komið vegna fordóma gagnvart kvenrithöfundum eða bókum eftir konur. Jafnframt fékk ég ýmsar spurningar, t.d. um það hvað mér fyndist þá ásættanlegt kynjahlutfall höfunda sem fólk les eða hvort ég væri virkilega að reyna að neyða fólk til að lesa eitthvað annað en það langar til að lesa, birta falsaða vinsældalista eða þar fram eftir götunum. Af þessu tilefni tel ég rétt að koma á framfæri eftirfarandi atriðum:

19. desember 2013

Gott myndasögustöff frá Norðurlöndunum (hinum sko)

Alltaf við og við man ég hvað bókasafnið í Norræna húsinu er mér mikil uppspretta gleði og þá fer ég margar ferðir í röð, yfirleitt alveg þangað til ég fer til útlanda, gleymi að skila bókum og þarf að biðja bóngott foreldri um að skila þeim áður en sektin skellur á. Núna er Norræna hússhrina í gangi hjá mér og ég hef nælt mér í nokkrar góðar skruddur síðustu vikurnar.

Fyrir þá sem hafa áhuga á myndasögum er ekki slæm hugmynd að kíkja í Norræna húsið og skoða úrvalið. Síðasta mánuðinn hefur verið þar afar girnileg útstilling með myndasögum norrænna kvenhöfunda, en einn af eftirlætisbókaflokkunum mínum er einmitt sænska serían um Johönnu eftir Li Österberg og Patrik Rochling (sá hinn síðarnefndi er raunar ekki kona, en hann er mjög töff). Johönnu kynntist ég í bókasafni Norræna hússins þegar ég byrjaði að lesa safnbækurnar Allt för konsten sem eru gefnar út í Svíþjóð og innihalda úrval norrænna myndasagna. Fyrsta bókin kom út 1998 og nú eru þær orðnar tíu, mjög djúsí bækur sem hafa kynnt mig fyrir ýmsum spennandi höfundum. Eins og títt er um safnrit tengi ég mismikið við höfundana en í hverju bindi hafa verið einhverjar sögur sem mér finnst alveg frábærar. Ég fékk nr. 7 og 8 lánaðar á bókasafninu um daginn og nú vantar mig bara tvær síðustu til að hafa lesið allar. Ég held þær séu allar uppseldar hjá útgefanda en eru eflaust til á alls kyns bókasöfnum á Norðurlöndunum. Það er Optimal Press sem gefur út Allt för konsten; sérhæfð forlög með svona katalóg vekja alltaf með mér ákveðinn pirring yfir að við skulum vera dvergþjóð þar sem ekkert þrífst nema það almenna.
Það var einmitt önnur bók frá Optimal Press sem ég féll algjörlega fyrir núna í haust. Í Norræna húsinu fékk ég að láni dönsku myndasöguna Glimt (las hana reyndar á sænsku undir heitinu Glimtar) eftir Rikke Bakman, sem er núna nýja uppáhalds mín.

18. desember 2013

Doctor Sleep, nýlegt framhald The Shining, veldur druslubókadömu ekki vonbrigðum

Falleg, jólarauð kápa.
Í haust kom út ný skáldsaga eftir Stephen King, Doctor Sleep, sem er framhald einhverrar bestu hryllingssögu allra tíma, The Shining. Ég hafði beðið bókarinnar með töluverðri eftirvæntingu, endurlas The Shining til að vera sem undirbúnust fyrir lesturinn og keypti mér meira að segja nýja útgáfu sem hafði að geyma brot úr fyrstu köflum framhaldsins óútgefna á lokablaðsíðunum. Það var vel við hæfi þar sem Doctor Sleep hefst árið 1981, ekki svo löngu eftir að Overlook-hótelið brennur til grunna. Lesendum er þá gefin svolítil hugmynd um afdrif mæðginanna Danny og Wendy Torrence í kjölfar hryllilegra atburða fyrri bókarinnar, en svo er fókusinn færður alveg yfir á Danny þegar hann er vaxinn úr grasi. Það kemur kannski ekki á óvart að draugar fortíðarinnar – sama hvaða skilning maður leggur í þau orð – skuli fylgja söguhetjunni okkar út fyrir lóðarmörk hótelsins óhugnanlega. Danny Torrence er semsagt ekki sá heilsteypti fullorðni einstaklingur sem við hefðum ef til vill vonast til að hinn ungi og afar viðkunnanlegi „doc“ yrði einhvern daginn, heldur flakkar hann einn milli bandarískra borga þar sem hann fær iðulega ráðningu á hjúkrunar- og elliheimilum um skeið, eða þangað til hann hættir að mæta sökum drykkju og ólifnaðar. Þá bíður hans enn ein rútuferðin, enn ein borgin, enn meiri þynnka og vesen.

12. desember 2013

Karlar lesa ekki kerlingar

Mál málanna á Facebook undanfarna daga hefur verið að telja upp tíu bækur sem hafa haft áhrif á líf viðkomandi. Ég hef séð lista frá ýmsum vinum mínum og líka vinum þeirra. Eitt helsta einkenni þessara lista kemur svo sem ekki á óvart: karlar lesa helst ekki bækur eftir konur, alla vega ekki þannig að þeir telji bækur þeirra hafa haft áhrif á sig. Nú veit ég að það er ekki alltaf að marka yfirsýn sem verður til við að renna yfir hlutina, þannig er hægt að upplifa kynjaslagsíðu án þess að hún sé til staðar rétt eins og mögulegt er að einhverjir taki ekki eftir slagsíðu sem er til staðar. Ég ákvað því að safna saman upplýsingum í snyrtilegt Excelskjal og greina tölurnar. Ég tíndi til 20 konur og 20 karla, sem ýmist eru vinir mínir á Facebook eða vinir vina minna, og kyngreindi listana þeirra. Val mitt var svo sem ekki hávísindalegt, þetta var það sem ég fann á veggjum vina minna eða vina þeirra og ég hætti þegar ég var komin með 20 af hvoru kyni.

Alls voru tilnefningar 417 (nokkrir nefndu aðeins fleiri en tíu bækur og örfáir færri). Ég tala um tilnefningar því margir nefndu auðvitað sömu bækurnar. Tilnefningar eftir karlkyns höfunda voru 309, eða 74%, og eftir kvenkyns höfunda 108, eða 26%. Hjá körlum voru tilnefningar 192 eftir karla og 21 eftir konur, þ.e. 90% og 10%. Hjá konum voru tilnefningar 117 og 86, eða 58% og 42%.

Tíu af körlunum tuttugu nefndu enga bók eftir konu. Tveir nefndu fimm af hvoru kyni. Gaman er að segja frá því að þessir tveir voru báðir með mér í BA-námi í heimspeki fyrir nokkuð löngu og þeir eru báðir að norðan. Þeir átta karlar sem eftir standa nefna ýmist eina eða tvær bækur eftir konur. Bækur norrænu barnabókahöfundanna Astrid Lindgren og Tove Jansson eru greinilega körlum hugstæðastar af bókum eftir konur þar sem um er að ræða bækur eftir þær í ellefu tilfellum af tuttugu og einu. Þessi blinda á bókmenntir kvenna kemur svo sem ekki á óvart. Ég man eftir strákum sem voru með mér í menntaskóla sem töldu sig vel lesna og sem tóku það sérstaklega fram að þeir læsu aldrei bækur eftir konur.

Engin af konunum nefndi aðeins bækur eftir karla en ein nefndi eingöngu bækur eftir konur. Þrjár í viðbót nefndu fleiri bækur eftir konur en karla og sex kvennanna skiptu tilnefningum jafnt milli kynja. Hinar tíu konurnar nefndu allar fleiri bækur eftir karla en konur. Konan sem nefndi aðeins bækur eftir konur fékk eftirfarandi athugasemd við listann (frá karlmanni): „Bara konur - sama og flestar aðrar konur hér á FB“. Einmitt, þvílík ósvífni að nefna bara bækur eftir konur!

Meðal karlanna sem nefndu engar eða sárafáar bækur eftir konur eru þjóðþekktir rithöfundar, menn í störfum við bókaútgáfu og bókaumfjöllun og menn sem eru yfirlýstir femínistar eða stuðningsmenn kvennabaráttu. Mér finnst það ekki í lagi. Vissulega eru svona listar ekki settir fram af einhverri stórkostlegri alvöru en ég fellst samt ekki á að það skipti ekki máli hvernig þeir eru samansettir. Það skiptir máli hverju maður hampar sem merkilegu og mikilvægu, jafnvel þótt það sé hluti af leik. Val okkar á hinum ýmsu hlutum hefur áhrif á aðra í kringum okkur, það hvernig þeir upplifa heiminn og það smitar út frá sér. Þetta gildir ekki síst ef viðkomandi er stöðu sinnar vegna talinn meira marktækur en meðaljóninn um viðkomandi efni.




Bókin um píslirnar

Nú í haust sáum við nokkrar af skríbentum Druslubóka og doðranta um námskeið í Endurmenntun Háskóla Íslands um „uppáhaldsbækurnar okkar eftir íslenskar konur“. Við höfðum áður séð um árlegt jólabókanámskeið Endurmenntunar – og verðum aftur með það eftir jól – og það var virkilega skemmtilegt að sökkva sér ofan í bækurnar og fá ólík sjónarhorn annarra lesenda á þær. Ég hef aldrei verið í leshring þannig að þetta er mín fyrsta reynsla af því að ræða fagurbókmenntir á þennan skipulega hátt.

Fyrir mitt leyti stóð námskeiðið um „uppáhaldsbækurnar“ fyllilega undir nafni og ég á erfitt með að benda á neina eina bók sem mér finnst standa upp úr; þær voru flestar svo frábærar og myndaðist svo skemmtileg dýnamík á milli þeirra þegar maður las þær saman, skáldsögur, smásögur og ljóð. Ein þeirra er mér hins vegar efst í huga núna af því að hún var ein af síðustu bókunum sem við lásum, en það er Samastaður í tilverunni eftir Málfríði Einarsdóttur.

Ég man eftir að hafa átt samræður við mann sem sagðist hugga sig við að José Saramago hefði verið kominn á gamals aldur þegar hann fór að skrifa – hann var 25 ára þegar fyrsta bókin hans kom út en sú næsta kom ekki út fyrr en þremur áratugum síðar. Það var árið 1977, sama ár og Samastaður í tilverunni kom út, en það var fyrsta bók Málfríðar Einarsdóttur og hún átti þá tvö ár í áttrætt. Uppistaðan í bókinni mun reyndar hafa verið skrifuð löngu fyrr, en rataði ekki á prent fyrr en Sigfús Daðason „hirti upp blöðin“, eins og Guðbergur Bergsson orðar það í inngangsorðum, og gaf þau út.

4. desember 2013

Upplestrarstagl til að örva lestraráhuga?

Lesandi barn í Taíwan árið 2007
Mynd: Will Chen
Um þessar mundir er mikið rætt um slaka lestrarkunnáttu íslenskra unglinga samkvæmt PISA-könnun nokkurri. Af því tilefni er talað um mikilvægi þess að börn æfi sig í lestri heima hjá sér og að þau læri að það sé gaman að lesa. Sjálf verð ég æ sannfærðari um að sá háttur sem er hafður á því sem kallað er „heimalestur“ í íslenskum grunnskólum, sérstaklega á yngsta stigi, þjóni engan veginn þeim tilgangi að hvetja börn til að lesa sér til ánægju.

2. desember 2013

Ester verður ástfangin

Fyrir helgina fékk skáldsagan Egenmäktigt förfarande - en roman om kärlek, eftir Lenu Andersson, sænska Augustpriset í flokki fagurbókmennta. Þessi netta bók sem kom út í haust hefur fengið yfirþyrmandi góða dóma og hún á þá eiginlega alveg skilið því bókin, sem er með hálfóskiljanlegan titil úr lagamáli, er líklega næstbesta bók sem ég hef lesið á árinu og ég spáði henni tilnefningum og verðlaunum löngu áður en slíkar vegtyllur urðu að veruleika.

Inngangskafli bókarinnar hljóðar svona í hrárri þýðingu minni:

Kona hét Ester Nilsson. Hún var skáld og pistlahöfundur sem þrjátíu og eins árs að aldri hafði gefið út átta knapporðar bækur. Sérstakar sögðu sumir, fjörlega skrifaðar sögðu aðrir, flestir höfðu aldrei heyrt á hana minnst.
Af einstakri nákvæmni skilgreindi hún raunveruleikann út frá eigin skynjun og taldi veröldina vera eins og hún upplifði hana. Eða réttara sagt að fólk væri þannig gert að það skildi heiminn réttum skilningi ef það notaði athyglisgáfuna og lygi ekki að sjálfu sér. Hið huglæga var hlutlægt og hið hlutlæga huglægt. Hún reyndi að minnsta kosti að lifa samkvæmt þessu.
Hún vissi að leitin að viðlíka nákvæmni varðandi tungumálið væri ómöguleg en hún leitaði samt, vegna þess að annað gerði loddurum og froðusnökkum sem þóttust vera gáfaðir of auðvelt fyrir; mönnum sem höfðu ekki nægan áhuga á hvernig tungumálið afhjúpaði tengsl fyrirbæranna. Þó neyddist hún hvað eftir annað til þess viðurkenna að orðin voru ónákvæm. Hugsunin líka, þó að hún væri byggð upp af kerfisbundnum fyrirbærum og að tungumálið væri ekki eins traust og það gaf sig út fyrir að vera. Þessi saga fjallar um hinar ógnvænlegu gjár milli orða og hugsunar, ætlunar og tjáningar, raunveruleika og óraunveruleika, ásamt því sem grær í þessum gjám.
Síðan Ester Nilsson hafði, átján ára gömul, áttað sig á því að lífið gengur mestmegnis út á að berjast gegn leiðindunum og í viðleitni gegn þeim hafði hún á eigin spýtur uppgötvað tungumálið og hugmyndinar, hafði hún aldrei fundið til vanlíðunar, varla orðið niðurdregin. Hún vann stöðugt að því að túlka eðli manns og heims. Heimspekinámið stundaði hún í Konunglega tækniháskólanum og eftir að hún lauk við doktorsritgerðina, þar sem hún bar saman hið engilsaxneska og franska, það er að segja beitti naumhyggju og rökfræðilegri greiningu analítíska skólans á viðfeðmar kenningar meginlandsskólans um lífið og tilveruna, starfaði hún sjálfstætt við ritstörf.
Uppfrá þeim degi, þegar hún uppgötvaði tungumálið og hugmyndirnar og áttaði sig á hlutverki sínu, tók hún upp sparsama lifnaðarhætti, át ódýran mat, passaði upp á að nota getnaðarvarnir, ferðaðist skynsamlega, hún skuldaði hvorki bönkum né einkaaðilum og kom sér ekki í aðstæður sem kröfðust þess að hún þyrfti að gera eitthvað annað en það sem hún kaus helst að eyða tíma sínum í; að lesa, hugsa, skrifa og spjalla við fólk. Í þrettán ár hafði hún lifað á þennan hátt, meira en helming þess tíma í þægilegu og friðsælu sambandi við karlmann sem bæði leyfði henni að vera í friði og sinnti líkamlegum og andlegum þörfum hennar.
Svo hringdi síminn.



Lena Andersson
Sagan hefst svo á því Ester, sem er með afbrigðum jarðbundin og rúðustrikuð manneskja, er beðin að semja og halda fyrirlestur um listamanninn Hugo Rask. Hún tekur verkið að sér og það verður til þess að líf hennar fer gjörsamlega á hvolf. Hún verður nefnilega ástfangin af Hugo Rask, en hann er frekar sjálfumglaður og uppbelgdur náungi sem hefur lítinn áhuga á henni. Bókin fjallar um ást, sjálfsblekkingu, einsemd, þráhyggju og hvernig fólk er til í að notfæra sér aðra. Hún er einstaklega vel skrifuð og lúmskt fyndin og kaldhæðin. Efnið er að sjálfsögðu sígilt og tuggið en Lena Andersson er svo klár höfundur og stíllinn svo sérstakur, tær og léttur (ég veit ekki hvort þetta eru rétt orð) að maður sogast inn í söguna. Margir lesendur, m.a. umsjónarkona sænska bókmenntaþáttarins Babel, hafa lýst því að þeir þekki sjálfa sig og vini sína í sögu Esterar, fólk langar jafnvel stundum að æpa á sögupersónuna að senda ekki mannhelvítinu þessi fáránlegu sms, að niðurlægja sig ekki svona hrikalega og vera ekki svona asnaleg, en heimspekingurinn og femínistinn Nina Björk skrifaði aftur á móti að henni fyndist Ester eiga að væla meira í manninum og krefjast einhvers af honum. Einhver gagnrýnandi líkti Lenu Andersson við nákvæman skurðlækni, hún greinir og lýsir smáatriðum, en það er líka heillandi fjarlægð í textanum, sem er algjörlega fjarri tilfinningahlöðnum stíl margra ástarsagna. Egenmäktigt förfarande er frekar stutt skáldsaga en ansi beitt, djúp og skemmtileg.