Ég varð fyrir nokkru áfalli um daginn þegar ég komst að því að Þórdís Gísladóttir ljóðskáld og barnabókahöfundur, sem ég stóð í þeirri trú að þekkti allar barnabækur sem hefðu komið út á Íslandi frá upphafi vega, hafði aldrei heyrt um
Klukkuþjófinn klóka. Öfugt við margar af mínum góðu meðbloggurum er ég lítil IBBY-týpa í mér, en sumar barnabækur sitja í minninu fyrir að hafa verið skemmtilegri en aðrar. Það var lítil saga af skólastjóranum í
Klukkuþjófnum klóka sem rifjaðist upp fyrir mér þegar við Þórdís vorum að fara að sofa í heimavistarlegu herbergi í Finnlandi og ræddum hvort við ættum ekki að opna glugga fyrir nóttina:
„Þegar minnst var á þá ósvinnu að opna glugga ef veðrið var gott, sagði hann ætíð sömu söguna um bekkjarfélaga sinn í Kennaraskólanum, sem hafði alltaf sofið við opinn glugga og einn morguninn fannst hann dauður í rúmi sínu með snjóskafl á brjóstinu. Það hafði fennt inn um gluggann um nóttina og á bringu hins sofandi kennaraefnis.“
(Við opnuðum nú samt.)
Höfundur
Klukkuþjófsins klóka er Guðmundur Ólafsson, leikari og rithöfundur, sem alls hefur gefið út eina unglingabók og fimm barnabækur. Þekktastur er hann fyrir bækurnar um Emil og Skunda, sem kvikmyndin
Skýjahöllin var gerð eftir, en þótt ég hefði ósköp gaman af þeim var það alltaf
Klukkuþjófurinn sem átti hjarta mitt. Það segir kannski eitthvað um mig sem lesanda;
Klukkuþjófurinn gengur mikið til út á stuð og sniðugheit, en
Emil og Skundi er meiri þroskasaga. Það fór ekki sérlega vel í mig sem barn, og gerir reyndar ekki enn, þegar persónur sögunnar læra af mistökum sínum og lesandinn á helst að gera það líka.