25. nóvember 2016

Að veigra sér ekki við að vera viðkvæmur og opinskár: Viðtal við Jónu Kristjönu Hólmgeirsdóttur

veröldin hverfur
bak við snjóþekju
á gluggum

hverfa bílar
hverfa strætóskýli

í takt við vindinn
dansa blýantar
á hvítum pappír

hverfa götur
hverfur fólk

eftir örskamma stund
boða ljóðin brottför
upp til skýjanna

Í byrjun október komu út þrjár nýjar ljóðabækur í seríunni Meðgönguljóð undir merkjum forlagsins Partusar, sem er að verða einn afkastamesti ljóðaútgefandi landsins. Ein af þessum bókum er Skýjafar eftir Jónu Kristjönu Hólmgeirsdóttur sem hefst á ljóðinu hér í upphafi: För. Druslubækur og doðrantar tóku þetta nýbakaða ljóðskáld rafrænu tali á dögunum.

Sæl Jóna Kristjana og til hamingju með nýju bókina! Skýjafar er þín fyrsta ljóðabók hefurðu verið að skrifa ljóð lengi? 

Sæl Kristín Svava, þakka þér kærlega fyrir og takk fyrir að taka mig í viðtal. Ég held ég hafi fengið virkilegan áhuga á ljóðaskrifum þegar ég var unglingur, svona ellefu, tólf ára, en ég hef skrifað allskyns texta síðan ég var stelpa. Þegar ég var fimm eða sex ára fengum við tölvu á heimilið og ég varð alveg heilluð af Microsoft Word. Eftir það þurftu foreldrar mínir lítið að hafa fyrir mér, held ég.

Skrifarðu líka annars konar texta? Hvað er það við ljóðformið sem höfðar til þín? 

Ég er í BA-námi í íslensku HÍ með ritlist sem aukagrein og námið mitt snýst því mikið um að skrifa. Þar fæ ég tækifæri til að skrifa smásögur, örsögur, ljóð og jafnvel leiktexta, en líka ritgerðir og annan hagnýtan texta og mér finnst það ekki síður skemmtilegt. Ég hef prófað að skrifa smásögur og byrjaði á mörgum skáldsögum þegar ég var yngri en kláraði þær aldrei. Mér finnst ég hafa meira frelsi þegar ég skrifa ljóð, þar er ekki gerð krafa um söguframvindu eða lógik. Ég hef alltaf verið afspyrnu léleg í því að fylgja þræði og heillast t.d. meira af myndvísi og góðri persónusköpun í skáldsögum en hasarspennandi söguþræði. Eitt ljóð getur verið heimur út af fyrir sig. Þess vegna heilla ljóðin mig.

22. nóvember 2016

Sprækir bangsafeðgar gleðja fullorðna og börn!

Þriðja kvöldið í röð er ég beðin um að lesa “skemmtilegu bókina um bangsana” og það er auðsótt mál því þótt ég verði mögulega orðin örlítið leið á bókinni eftir þrjátíu skipti í viðbót er enn nóg að skoða og margt nýtt til að taka eftir við hvern lestur.

Nú fyrir jólin gefur hið glænýja bókaforlag Angustúra út stórskemmtilega barnabók eftir hinn franska Benjamin Chaud. Bókin ber nafnið Bangsi litli í sumarsól og það er Guðrún Vilmundardóttir (sem einnig var að stofna nýtt bókaforlag – Benedikt, allt að gerast í bókaforlaga bransanum) sem þýðir yfir á hið ástkæra ylhýra. Chaud þessi er margverðlaunaður barnabókahöfundur og hefur gert nokkrar bækur um spræku bangsa-feðganna sem eru aðalsöguhetjurnar í Bangsa litla í sumarsól. Sú fyrsta þeirra, Une chanson d'ours (sem mætti þýða sem Söngur bjarnarins) spratt upp úr óperuplakati sem Chaud var fenginn til að teikna og hefur hún notið gríðarlegra vinsælda og verið þýdd á yfir 20 tungumál. Í skemmtilegu viðtali sem lesa má hér segist höfundurinn teikna margar litlar myndir, litlar sögur og raða þeim svo saman í eins og púsluspili. Það liggur því í augum uppi að vinnan við hverja mynd hlýtur að vera gríðarleg og sjálfur segir höfundurinn: „[…] sometimes I ask myself, “What possessed me to make a book with so many people and details?”… and then I draw someone I know, doing something silly in the corner of a page, and I end up laughing to myself over my work.“

11. nóvember 2016

„Þess vegna lokaði ég sársaukann inni og fór“ – af æviminningum Ástu Sigurbrandsdóttur

Bókadruslan sem hér pikkar á lyklaborð varði febrúarmánuði síðastliðnum í Sysmä, um 4 þúsund manna bæ tæpa 200 kílómetra norður af Helsinki. Þar var:

- mikið af snjó
- enn meira af trjám
- mýgrútur af sumarbústöðum niðri við
- mjög stórt stöðuvatn
- tveir veitingastaðir (sem voru lokaðir á kvöldin (þó að sennilega gegni öðru máli um sumarkvöld))
- einn bar (sem er samt eiginlega rútubiðstöð sem selur kaffi og meððí og áfengi, og var heldur ekki opinn á kvöldin)
- eitt hótel
- engir sjáanlegir ferðamenn
- reisulegt timburhús að nafni Villa Sarkia, byggt við upphaf síðustu aldar sem íbúðarhús bankastjóra bæjarins en þjónar nú hlutverki residensíu fyrir þýðendur og rithöfunda og þar sem ég hafði sem sagt fengið að dvelja um mánaðartíma
- huggulegt bókasafn
- sundlaug
- og notaleg bókabúð, þar sem var nokkuð gott úrval og útsala allan febrúar (úps).

Villa Sarkia og snjókerla.
Við komuna til Sysmä vissi ég fátt um bæinn annað en að hann er fæðingarstaður tangósöngvarans virta Olavi Virta, og svo hafði ég líka haft spurnir af því að þarna hefði um hálfrar aldar skeið búið íslensk kona að nafni Ásta Sigurbrandsdóttir og að ævisaga hennar hefði komið út á Íslandi. Þetta vakti áhuga minn, eins og tengingar milli þessara tveggja landa gera reyndar almennt, enda bjó ég sjálf í Finnlandi og kem þangað reglulega – og svo eru Íslendingar heldur ekki á hverju strái í finnskum smábæjum eða í borgunum heldur ef út í það er farið, miðað við t.d. í hinum norrænu löndunum: árið 2011 voru tíu þúsund stykki búsett í Danmörku samkvæmt Þjóðskrá, tæp sjö þúsund í Svíþjóð og álíka í Noregi, en tvö hundruð og sex í Finnlandi.
           
Ég vonaðist sem sagt til þess að fá meira að heyra um Ástu Sigurbrandsdóttur og hennar sögu þarna í Sysmä, og sjá: þegar ég hafði dvalið í Villa Sarkia í tæpa viku var póstkorti stungið inn um bréfalúguna.

8. nóvember 2016

Þessa stund sem við eigum: Ingibjörg Haraldsdóttir látin

Núna

Einhverntíma seinna
koma þeir eflaust
með tækin sín
að snuðra í rústunum

verða margs vísari
um okkur:
þetta undarlega fólk
fyrri tíma

eflaust verða tækin þeirra
fullkomin, þekking þeirra
óskeikul

aldrei finna þeir samt
það sem máli skiptir:
þessa stund sem við eigum
núna


(Höfuð konunnar, 1995)