27. janúar 2009

Bókmenntaverðlaunin veitt á Bessastöðum

Fyrir hálftíma eða svo var tilkynnt á Bessastöðum á Álftanesi að Íslensku bókmenntaverðlaunin 2008 hljóti Einar Kárason fyrir skáldsöguna Ofsa og Þorvaldur Kristinsson fyrir ævisögu Lárusar Pálssonar leikara.

Við óskum strákunum til hamingju með verðlaunin!

22. janúar 2009„Börn síns tíma“ og barnabækur.

Raymond Chandler og Dashiell Hammett eru höfundar sem ég hef ekki gluggað í lengi en nýlega varð breyting þar á og hef ég nú sökkt mér á kaf í reyfaralestur. Eins og Pollýanna vinkona mín hafa þeir elst misvel – írónían, ljóðrænn og ofbeldisfullur stíllinn í bland við þurran húmor og pent mannhatur eiga alltaf jafn vel við. Kvenfyrirlitningin og kynþáttafordómarnir líta hins vegar aðeins verr út í dag en fyrir 60-70 árum. Hins vegar eyðilagði það nú alls ekki fyrir mér lesturinn – enda slíkt fánýtt – Þeir félagar Hammett og Chandler komust víst ekki hjá því að vera börn síns tíma frekar en svo margir aðrir og þar fyrir utan má auðvitað telja þeim það til hróss að vera yfirhöfuð að draga upp nýjar og oft á tíðum ögrandi myndir af minnihlutahópum sem aðrir kusu að fjalla hreinlega ekki um.

Að lestri loknum hjó ég hins vegar eftir því að þrátt fyrir að vera stundum röngu megin við pólitísku réttsýnis línuna þá hefur (sem betur fer) ekki hvarflað að neinum að endurskrifa Chandler og Hammett fyrir nýjar kynslóðir lesenda – eins og til að mynda barnabókahöfundurinn Enid Blyton hefur mátt þola. Í bókum hennar voru „útlendingslegir“ menn yfirleitt óreiðumenn ef ekki illir glæpamenn og á meðan drengirnir „könnuðu aðstæður“ kom það í hlut telpnanna að þvo upp. Í nýjum útgáfum bóka Blyton er búið að „laga“ slík atriði – aflita hárið á nokkrum skúrkum og skikka strákana í heimilisstörfin.

Þótt ugglaust búi góður hugur að baki slíkum breytingum verður mér þó hálf órótt þegar ég hugsa til þeirra – ekki bara af því að mér finnst Blyton sýnd óvirðing heldur er hér eiginlega um sögufölsun að ræða – í öllu falli þegar kemur að heimilisstörfunum. Hefði Blyton sjálf látið Jonna rífa uppþottaburstann af Önnu og heimta að fá að blanda aldinsafa tæru lindarvatni hefði það þótt mjög sérkennilegt. Jafnvel hefðu einhverjir ályktað sem svo að höfundurinn væri að setja spurningamerki við kynhneigð Jonna eða í öllu falli karlmennsku hans. Bækurnar eru ekki skrifaðar í dag og þær eiga ekki að gerast í dag – margt hefur breyst og sumt til batnaðar. Í Ævintýra bókunum eru engir farsímar, engar tölvur – ekki einu sinni sjónvarp og kvenréttindi eru ekki komin langt á veg. Sem lítil stúlka dauðvorkenndi ég Önnu og Dísu þessi eilífu heimlisstörf og var því fegin að í ævintýrum okkar krakkanna í Þingholtunum mátti ég rétt eins og strákarnir „kanna aðstæður“.

Auðvitað má segja að barnabækur séu viðkvæmari viðfangs – eða í öllu falli er markhópurinn viðkvæmari og kannski það réttlæti endurskoðun. Sjálfri fannst mér út í hött þegar Tíu litlir negrastrákar voru gagnrýnilaust endurútgefnir og stillt upp í massavís í bókabúðum við hliðina á Línu Langsokk og annarri klassík. Ég var alls ekki á móti endurútgáfu bókarinnar heldur því að hún skyldi seld sem góð og gild barnabók.
Mér finnst hins vegar vera grundvallar munur á bókum sem eins og Ævintýrabækur Blyton eru „börn síns tíma“ og bók eins og Tíu litlir negrastrákar sem var upphaflega beinlínis skrifuð til að kynda undir kynþáttahatri – skrifuð til höfuðs ákveðnum þjóðfélagshópum. En sjálfsagt er þessi skilgreining mín loðin og alls ekki allir sammála. Engu að síður er athyglisvert að skoða hvað í bókmenntasögunni er ritskoðað og hvað ekki og á hvaða forsendum.

20. janúar 2009

Af grafhýsum og legsteinum

Í desember var sjötta flaggskipsbúð Taschen-bókaútgáfunnar utan Þýskalands opnuð inni á milli listaverkasala og konfektmeistara við Sablon-torg í Brussel. Ofurhönnuðurinn Stark setti saman innvolsið eins og í öðrum búðum útgáfunnar og leggur sig allan fram. Þarna getur að líta gullhúðaðar bókahillur sem minna á trjáboli, hvít satíntjöld og kolsvarta veggi. Áhrifin eru eins og í grafhýsi, hressilega kitsch grafhýsi. Þetta er ekki fyrir minn smekk en því er ekki að neita að maður verður fyrir áhrifum. Bækurnar verða að skjöldum með nöfnum þeirra látnu þar sem hver titill kallar til manns sem grafskrift („The big penis“!). Ein bók rís þó upp eins og bautasteinn.

Taschen gaf út á dögunum, í samvinnu við sænska útgefandann Max Ström, doðrantinn The Ingmar Bergman Archives. Það hlýtur nú að teljast doðrantur þegar bók vegur heil sex kílógrömm. Bergman studdi verkefnið og gaf ritstjórunum Paul Duncan (texti) og Bengt Wanselius (myndir) fullan aðgang að gögnum sínum. Enda er allt er viðkemur manninum að finna í bókinni; mikið magn ljósmynda, teikninga, dagbókabrot, útkrassaðar síður úr handritum og ekki síst viðtöl við leikstjórann, allt á sexhundruð blaðsíðum. Mikið af frásögninni er því frá Bergman sjálfum en greinar frá fræðimönnum og samstarfsfólki Bergmans (og ástkonum) gefa svo fleiri sjónarhorn. Bókinni er skipt upp í sjö kafla í tímaröð og eru allar kvikmyndirnar 62 teknar fyrir í smáatriðum. Bergman var ekki síður þekktur sem sviðsleikstjóri, t.d. af uppsetningum sínum á Strindberg, og í bókinni er mikið af áður óbirtum ljósmyndum af sviðsuppfærslum hans. Vinnu hans í útvarpi og sjónvarpi eru einnig gerð full skil. Bókinni fylgir svo DVD-diskur og bútur af upprunalegri filmu úr Fanny och Alexander fyrir Bergmannörda.

Þó að ég teljist varla innvígð í þann félagsskap tók ég á mig pílagrímsferð síðasta sumar ásamt manni og dóttur að leiði Bergmans á eynni Fårö við Gotland, sem var heimili hans í áratugi. Þar gerði hann fjölda mynda sinna eins og hina stórbrotnu Persona með leikkonunum Bibi Andersson og Liv Ullmann.

Það var skjannasólskin og heitt þegar við komum að kirkjunni í Fårö. Ég var orðinn útbelgd af dramatík og gjörsamlega tilbúin að finna anda meistarans koma yfir mig er heil rúta af svenssonum þusti frammúr okkur við kirkjuhliðið. Hersingin lagði undir sig garðinn og sextíu manns tóku mynd af leiðinu. Á meðan við biðum þetta af okkur tíndi dóttirin blóm af minna merkilegum leiðum, eiginmaðurinn réði spakur í rúnastein en ég, líkt og Elisabet Vogler Bergmans, horfði fjarrænt út á sjó. Reyndi að blokkera út háværar sænskar vangaveltur um hvað legsteinninn væri lítill og sjávargrjótið ómerkilegur efniviður. Í þögninni sem myndaðist eftir að hópurinn var farinn mátti heyra rollur jarma og skíta með látum í skjólinu undir kirkjugarðsveggnum. Þegar ég gekk loks að leiðinu var galdurinn horfinn. Við Vogler runnum ekki saman eins og Bibi og Liv í myndinni heldur út í sandinn. Legsteinninn var á endanum bara lítið grjót og sagði mér ekkert um Bergman.

Minnisvarðinn frá Taschen veldur engum vonbrigðum. Hvílíkur gleðilestur, margslungin og marglaga umfjöllun um þennan mikla listamann. Það er heldur ekkert verið að fela manninn og hans fjölmörgu galla: skapsveiflur, skort á sjálfstrausti, grimmd eða fjörleg ástarmál og sæta bernskuaðdáun á Hitler; allt er með og lyftir bókinni uppfyrir það að verða mærðarfull líkræða. Það er eiginlega ekki hægt að komast yfir það að Bergman hafi getað unnið að svona gríðarlega mörgum skapandi verkum á einni ævi. Enda er þetta bók sem maður mun grípa í svo lengi sem maður getur loftað henni.

Bókinni er allri hægt að fletta á taschen.com.

19. janúar 2009

Rúnturinn

Í vefútgáfu breska dagblaðsins The Guardian er sagt frá því að rithöfundurinn Irvine Welsh hyggist styrkja skosku góðgerðarsamtökin Love in action með því bjóða fram möguleikann á því að hæstbjóðandi á uppboði verði persóna í næstu skáldsögu hans. Næsta skáldsaga segir frá sömu persónum og skáldsagan Trainspotting og mun heita Skagboys. Margir muna eflaust eftir ástsælum heróínfíklum í Trainspotting, hver vill ekki verða næsti Renton eða Sick Boy? Þeim auðmönnum sem tókst að stinga einhverju undan í bankahruninu er bent á þennan möguleika, það er miklu svalara að vera persóna í skáldsögu en að kaupa ómálað málverk eftir Hallgrím Helgason eða fá Elton John til að gaula í afmælinu sínu. Jón Ásgeir og Spud slaka á í snekkjunni, Hannes og Sick Boy fá sér einn gráan í Chelsea íbúðinni...möguleikarnir eru endalausir. Hér má kynna sér málið.

Áhugafólk um fagrar bókakápur ætti að kynna sér þessa merkilegu vefsíðu. Viltu fylgjast með því heitasta í bókakápubransanum? Hér er bloggið fyrir þig.

Hér er svo dálítið skemmtilegt prójekt. Sjö konur lesa The Golden Notebook eftir Doris Lessing og kommentera á "spássíurnar". Kannski ættu druslubókakerlur að gera eitthvað svona? Þetta er að minnsta kosti sniðug hugmynd.

18. janúar 2009

Eðalglæpir í boði Svía

Það þarf varla að taka fram að Íslendingar hafa tekið glæpasögum fagnandi á undanförnum árum, Arnaldur er kóngurinn og á hæla hans koma hinir ýmsu krónprinsar og svo Yrsa. Flestir þessara höfunda skrifa sögur sem eru í ætt við skandinavísku glæpasagnahefðina svokölluðu þar sem þjóðfélagsmálum og allskonar félagslegum vandamálum er fléttað saman við glæpaplottið. Vandamálin liggja venjulega ekki síst hjá aðalsöguhetjunum sem eru upp til hópa misvirkar fyllibyttur, iðulega með að minnsta kosti einn hjónaskilnað að baki og ýmisskonar samskiptavandræði þar að lútandi.

Ég held að það megi segja að íslenskar glæpasögur hafi notið mikillar velvildar og athygli lesenda og fjölmiðla. Það má líka segja að íslenskar glæpasögur verði sífellt betri en það má hinsvegar deila um það hvort þær standist samanburð við það besta í þessum geira. Fyrst og fremst finnst mér að íslenskir glæpasagnahöfundar megi oft vanda sig betur þegar kemur að plottinu en glæpasaga er auðvitað ekkert á almennilegs plots. Þeir fjölmörgu sem hafa látið dáleiðast af Millenium þríleik Stieg Larsson vita hvað ég á við, þær bækur eru gríðarlega vel skrifaðar og spennandi, sérstaklega sú fyrsta sem kom út fyrir nýliðin jól í íslenskri þýðingu. Það fór að vísu merkilega lítið fyrir henni í jólabókaoforsinu, svona miðað við vinsældir höfundarins, en enskar þýðingar á tveimur fyrstu bókunum eru vinsælustu glæpasögur bresku amazon netverslunarinnar þegar þetta er skrifað. Stieg Larsson var blaðamaður, þekktastur fyrir skrif sín og þekkingu á hægri öfgahreyfingum og kynþáttafordómum, en hann fékk hjartaáfall og lést árið 2004. Bækurnar komu út eftir andlát hans en hér má lesa meira um Stieg Larsson og bækur hans. Mér tókst að rúlla í gegnum múrsteinsígildin þrjú á undraskömmum tíma og veit til þess að það á við um ansi marga. Þeir sem vilja lesa allar bækurnar í einum rykk verða þó að sætta sig við það að lesa þær á einhverju öðru tungumáli en íslensku eða ensku, það er von á síðustu bókinni á ensku á þessu ári og vonandi er ekki langt í bók númer tvö á íslensku.

Karlar sem hata konur var ekki eina sænska glæpasagan sem gefin var út fyrir þessi jól hérlendis, einnig kom út þýðing á bók eftir Henning Mankell en hún er ekki síst merkileg fyrir þær sakir að druslubókadama nokkur þýddi hana af mikilli list. Þetta er bókin Fyrir frostið (Innan frosten 2002)en í henni er Linda Wallander, dóttir lögregluforingjans Kurt Wallander í aðalhlutverki, hún er nýútskrifuð úr lögregluskólanum þegar hér er komið sögu og er um það bil að hefja störf við hlið föður síns. Hér er fjallað um trúarofstæki sem á rætur sínar að rekja til raunveruleikans svokallaða, en við sögu kemur söfnuður Jim Jones og fjöldasjálfsmorð safnaðar hans í Jonestown í Gvæjana. Þeir sem hafa sjúklegan áhuga á fjöldamorðingjum og ofsatrúarhreyfingum, eins og ég, ættu því að kunna að meta þessa ágætu bók. Einhvern tímann var því haldið fram að Henning Mankell hefði stolið frá Arnaldi Indriðasyni. Einhvern veginn finnst mér það ólíklegt.

Í lokin langar mig aðeins að minnast á ansi hreint fína glæpasögu eftir enn einn Svíann, Håkan Nesser. Þetta er bókin En helt annan historia sem fékk sænsku glæpasagnaverðlaunin árið 2007. Nesser hefur skrifað heil ósköp af glæpasögum og einhverjar hafa verið þýddar yfir á ensku en hinsvegar kannast Gegnir ekki við að neitt hafi komið út eftir þennan höfund á íslensku. Einhversstaðar heyrði ég að Nesser sé uppáhalds glæpasagnahöfundur Ævars Arnar Jósepssonar en sel það svo sem ekki dýrara en ég keypti það. Ef eitthvað er að marka þessa einu bók sem ég hef lesið er óhætt að mæla með Nesser fyrir glæpasagnaaðdáendur. En helt annan historia er önnur bókin í svokölluðum Barbarotti þríleik og ég er nú þegar búin að útvega mér fyrstu bókina sem bíður nú eftir næsta glæpasagnaskeiði í mínu lífi.

Ég les glæpasögur nefnilega í skorpum og nú hef ég snúið mér að öðru í bili.

16. janúar 2009

Shakespeare Wrote for Money - Nick Hornby

Bækur keyptar í janúar 2009
We Need To Talk About Kevin – Lionel Shriver
Shakespeare’s Wife - Germanie Greer
Twelfth Night – William Shakespeare
The Madwoman in the Attic – Gilbert og Gubar
Deaf Sentence - David Lodge

Bækur lesnar í janúar 2009
Twelfth Night – William Shakespeare
We Need To Talk About Kevin – Lionel Shriver
Bavian – Naja Marie Aidt
Dreams from my father – Barack Obama
Lives of Animals - J.M.Coetzee
Vanære (Disgrace) – J.M.Coetzee
De skæbneløse (Fatelessness) – Imre Kertész*
Skaparinn – Guðrún Eva Mínervudóttir
10 ráð til að... – Hallgrímur Helgason
Deaf Sentence – David Lodge
Shakespeare Wrote for Money - Nick Hornby


Síðan 2003 hefur Nick Hornby hafið mánaðarlegan dálk sinn, Stuff I’ve Been Reading, í tímaritinu The Believer á upptalningu eins og þeirri hér að ofan. Hvaða bækur hann keypti í síðasta mánuði og hvaða bækur hann las. Í raun og veru þyrftu greinar hans ekkert að vera lengri, þar sem það má ýmislegt lesa úr samhengi keyptra og lesinna bóka. En Hornby lætur auðvitað ekki þar með sitja heldur segir frá upplifun sinni af bókunum, á mjög óformlegan og hressandi hátt eins og honum einum er lagið. Í desember 2008 kom út greinasafnið Shakespeare Wrote for Money en það er þriðja og síðasta samantektin á skrifum hans í The Believer. Fyrstu tvær bækurnar í þessari skemmtilegu tríológíu voru Polysyllabic Spree (2004) og Housekeeping vs. the Dirt (2006).

Auðvitað er Hornby ekki að finna upp hjólið, frekar en við Druslubókadömurnar. Greinarnar hans eru hins vegar afar skemmtilegar aflesturs. Meinfyndið þus og einlægar umsagnir er kannski hin eina sanna blanda þegar kemur að bókagagnrýni í þessu formi, alvöruþrungnar túlkanir og greiningar á táknum og þemum eiga betur heima í akademískara umhverfi, að þeim og því ólöstuðu. Mikið má rýna í upptalningar hans um keyptar bækur og lesnar og má segja að lesendanum bjóðist með þeim innlit í hversdag Hornbys, í einum mánuði kaupir hann nokkrar bækur en les ekki eina einustu því hann gifti sig með tilheyrandi tilstandi. Þeir sem þekkja til Hornbys rennur þó grun í að Heimsmeistarakeppnin í fótbolta þann sama mánuð hafi einnig að eitthvað með lesleysið að gera. Ég ætla hiklaust að fylgja fordæmi Hornbys (stela þessari hugmynd hans) á árinu 2009 og halda til haga listunum mínum þar sem þetta hlýtur að virka sem fyrirtaks dagbók þegar lengra frá líður.

*Nóbelshöfundar á janúar listanum eru ekki back door bragging (bakdyramont?) heldur má við námskrána mína sakast, ég er í prófum.

15. janúar 2009

Um ástsjúka menn, eigulegar konur, karllegar og klunnalegar stúlkur og fleira áhugavert

Síðustu áratugina hafa vinsældir svokallaðra sjálfshjálparbóka aukist verulega. Metsölulista prýða oft margar slíkar bækur og þær seljast betur en flest lestrarkyns. Deila má um hvers vegna bækurnar kallast sjálfs-hjálparbækur, því í rauninni er oftast um að ræða bókmenntir sem bjóða upp á forskriftir að lausnum við flóknum vandamálum, oft afar einföldum lausnum, sem synd væri að segja að væru sniðnar að einstaklingsbundnum þörfum.

Tvær dálítið sniðugar bækur um samskipti kynjanna komu út á Íslandi á síðustu öld, önnur 1938 en hin 1952. Umræddar sjálfshjálparbækur eru því farnar að eldast verulega en þær segja mögulega eitthvað um ríkjandi viðhorf á ritunar- og útgáfutíma sínum.

Árið 1938 kom út bókin Ástalíf eftir Pétur Sigurðsson aðventistapredikara. Bókin skiptist í tvo hluta, í fyrri hlutanum er rætt um aðdraganda giftingar og hvernig velja skuli maka, en einnig veltir höfundur fyrir sér viðhorfum til frelsis í ástamálum sem hann tekur vera að aukast. Aðallega er þó hugað að makavali og er Pétur óspar á dæmi úr eigin lífi hvað það varðar en höfundur kveðst hafa verið hamingjusamlega kvæntur um árabil.

Í upphafi Ástalífs ræðir Pétur af mikilli mælsku um gildi ástarinnar og mikilvægi þess að varðveita og rækta hjónaástina út lífið. Ástfanginn mann telur hann vera stórhuga og göfuglyndan. Ástföngnum manni finnist hann geta faðmað að sér allan heiminn og að slíkur maður geti komist í sátt við hverja smásál. Með samruna tveggja ástfanginna sálna verði öll tilveran þeim dásamlegt samræmi og eining. Sálirnar logi af heitri þrá og innileika, faðmlög og eldheitir kossar láti hinar hinstu fjarlægðir hverfa, bræði sálirnar saman og umbreyti jarðnesku lífi í himneska sælu. Með ást tveggja einstaklinga nái lífið hámarki sínu, í fullkominni fórn og fullkomnum sigurvinningum. En Pétur Sigurðsson bendir jafnframt á að ástalíf manns og konu eigi ekki að ná hámarki sínu á tilhugalífsárunum eða hveitibrauðsdögunum, heldur eigi það að rísa með hverjum nýjum áfanga þar til takmarkinu er náð; að elskast allt til dauða. Og hvernig á fólk nú að fara að því að varðveita hina eldheitu ást? Jú, Pétur Sigurðsson er með lausn við því. Hann ráðleggur eiginmönnum að ástunda réttan og heilbrigðan hugsunarhátt, en í slíkum hugsunarhætti felst að halda áfram allt lífið að hugsa um konuna sína eins og þegar hann varð ástfanginn fyrst. Sú ímyndun, sem hafi gert stúlkuna hans að fallegustu og bestu og elskulegustu stúlku undir sólinni eins og allir nýtrúlofaðir menn hugsa um kærustur sínar, sé í raun blekking, en engu að síður verði eiginmaðurinn að nota ímyndunaraflið til að halda áfram að sjá konuna í þessum töfraheimi og í dýrð ástarljómans, og að aldrei megi hann gerast það rýnandi og nærgöngull í hugsun að ástargyðjan sé flett dýrðarljóma og englaslæðu hins ástsjúka manns.

Pétri finnst ungt fólk ekki lifa nógu heilbrigðu ástalífi og hann vill að nokkrum reglum í mannrækt og uppeldismálum verði fylgt til að gera unga fólkið betur í stakk búið til að lifa í hamingjusömu hjónabandi. Honum finnst ungu mennirnir ekki nógu góð mannsefni og ungu stúlkurnar ekki nógu miklir kvenkostir og ekki nógu eigulegar, svo orðrétt sé vitnað. Ungar íslenskar stúlkur segir hann vissulega geta verið girnilegar, en þær séu ekki nógu elskulegar til að ungu mennirnir sækist eftir að eiga þær. Þær séu gleðidrósir, götustúlkur og hlaupa-hindir sem leiki á strengi holdlegra hvata ungu mannanna, sem vilji gjarna leika sér með þeim kvöld og kvöld á stangli, en að þeir kæri sig ekki alltaf um að eiga þær. Þess vegna sé því miður margt fólk einhleypt. Pétur Sigurðsson hefur mörg orð um hvað gott konuefni þurfi að hafa til að bera. Honum finnst mikilvægt að konur læri allt sem kunna þarf hvað varðar hefðbundin húsmóðurstörf og barnauppeldi, þær þurfi að vera ráðdeildarsamar og snyrtilegar, en að fyrsta og æðsta skylda konunnar sé að vera kvenleg. Í því felst að konan á að vera elskuleg, aðlaðandi, falleg, blíð og töfrandi, og hún á að rækta kvenlega fegurð sína og tign. Pólitískar hamhleypur, karllegar og klunnalegar stúlkur, málaðar og útflúraðar, allavega litar vindlingasugur og japlandi og jórtrandi tískudrósir, sem drekka og slarka og eru klúrar, eru honum ekki að skapi. Gott mannsefni á hins vegar að vera líkamlega hraustur og karlmannlegur, hugumstór með hetjulund og víkingsbrag, viljasterkur, stefnufastur, iðinn, sparsamur, reglusarmur og prúðmannlegur, ráðdeildarmaður og hann á að hafa góðar sálargáfur. Eftispurn sé eftir slíkum mönnum hjá ungum stúlkum.

Um sjálft hjónalífið segir höfundur að ástalíf karls og konu byggist aðallega á kynhvötinni, það sé fyrst og fremst holdrænt. Finni karlmaðurinn ekki sanna svölun í sambúðinni við konu sína, kunni hann að taka til þess ráðs að setjast við þann brunninn sem augnabliks svölun veitir. Með öðrum orðum þá þurfi hann einfaldlega að leita á önnur mið ef konan er eitthvað slöpp og sloj. Bæði þurfi að átta sig á því að það var upphaflega kynhvötin sem gerði þau drukkin af víni ástarinnar, þau verði að varðveita og viðhalda þeirri orkulind og virkja hana réttilega.
Og ekki megi slíta konunni út við endalaust basl og barneignir. Þarna má að vissu leyti segja að Pétur Sigurðsson hafi verið dálítið nútímalegur í hugsun og það á hann reyndar líka til á fleiri sviðum. Hann er að sjálfsögðu á móti lauslæti, en þó má finna töluvert umburðarlyndi, til dæmis virðist honum ekki finnast tiltökumál þótt stúlkur hafi verið við karlmann kenndar fyrir giftingu og framhjáhald telur hann ekki endilega þurfa að vera sérstakt tiltökumál.

Aðra bók um skyld efni gaf Pétur út árið 1952. Sú heitir Vandamál karls og konu. Í formálsorðum segir að hún fjalli um „Þjóðfélagsvandamálið mikla, sambúð karls og konu, heimilið, uppeldi æskumanna, ræktun kynstofnsins, þjóðaruppeldið, sérmenntun karla og kvenna og það sem gott fjölskyldulíf grundvallast á.“ Pétri verður tíðrætt um skemmtanabrjálæði ungu kynslóðarinnar, vond áhrif ástarreyfara og hávaðasamrar jazzmúsíkur og slæm áhrif glaumsins og gleðinnar sem glepur æskufólkið. Til að forðast þá lausung sem fylgir skemmtanalífi og svalli leggur hann til að fólk stofni ungt til hjúskapar, þannig megi komast undan slæmum áhrifum skemmtanalífsins og forðast neikvæð áhrif langvarandi bælingar kynhvatarinnar. Hann segir unga menn verða ráðsettari, sparsamari og gagnlegri þjóðfélagsþegna þegar þeir eru orðnir eiginmenn og feður og því skuli menn gjarna drífa sig í hjónabandið, það forði þeim frá siðspillandi næturlífi. Pétur nefnir einnig hernámið og ástandið.
Hann fordæmir vissulega ekki stúlkur þær sem lentu í ástandinu, en segir að stúlkurnar hefðu aldeilis ekki steypt sér út í spillingu ástandsins hefðu þær átt myndarlega og elskulega kærasta. Mannrækt og kynbætur eru einnig ræddar, Pétur telur að fólk eigi að kynna sér samviskusamlega ætterni þess sem það leggur lag sitt við. Hann ber þetta saman við kynbætur bænda og segir að Skagfirðingar kaupi til dæmis ekki hross nema vita undan hverjum þau séu!

Þorgerður og Þórdís

7. janúar 2009

Jonas Hassen Khemiri

Meðal gesta Alþjóðlegrar bókmenntahátíðar í Reykjavík árið 2007 var eitt af vinsælustu ungu skáldum Svía, Jonas Hassen Khemiri. Höfundurinn, sem varð þrítugur núna milli jóla og nýárs, hóf ferilinn árið 2003 með bókinni Ett öga rött. Bókin, sem er að hluta til skrifuð á heimatilbúinni innflytjendasænsku, fékk verðlaun sem besta fraumraunin á útgáfuárinu, hún hefur náð til ólíkra lesenda á öllum aldri, verið sviðsett í leikhúsi og eftir henni verið gerð bíómynd.

Jonas Hassen Khemiri er Svíi í móðurætt en pabbinn er frá Túnis, persónur verkanna hans eru líka oft innflytjendur eða koma úr umhverfi nýbúa. Frá upphafi ferilsins hefur verkum Khemiris verið fagnað, jafnvel svo kröftuglega að manni verður um og ó. Skáldsagan Montecore. En unik tiger, sem kom 2006, var tilnefnd til Augustpriset, leikritið Invasion! var sett á svið í Borgarleikhúsi Stokkhólms veturinn 2007-2008 og fékk almennt lof og er nú sýnt í fleiri löndum, leikritið Fem gånger Gud er sýnt víða um Svíþjóð við fögnuð áhorfenda og gagnrýnenda og Jonas Hassen Khemiri fékk nýlega smásagnaverðlaun Sænska ríkisútvarpsins. Segja má að þessi viðkunnanlegi höfundur (sem uppnefndur var á Bókmenntahátíð eftir fagurri söguhetju enskra barnabóka, en þar sem ég vil ekki uppnefna feisbúkkvini mína ætla ég að láta aðra um að ljóstra upp viðurnefninu) sé orðinn hálfgerð költfígúra í heimalandinu, hann á sér aðdáendaskara í fjölbreyttum þjóðfélagshópum, allt frá krökkum í félagsmiðstöðvum og matráðskonum í skólum til uppskrúfaðaðra og trénaðra magistera með flagaraklúta um hálsinn.

Einhverjir óttuðust að Jonas Hassen Khemiri næði ekki að fylgja fyrstu bókinni eftir, það er ekki auðvelt að koma með annað verk eftir að hafa verið kysstur og faðmaður af öllum fyrir frumraunina. En honum tókst að komast yfir hindrunina og trompa sjálfan sig því Montecore er að mínum dómi betri en Ett öga rött. Höfundurinn er galdrakall sem tekst að snúa á lesandann og leika sér með hann af fimi sjónhverfingamanns sem hefur algjört vald yfir áhorfandanum sem gleypir við trolleríinu og sprellinu með augun upp á gátt en veit samt vel að það er verið að svindla og blekkja.

Aðalpersóna Montecore. En unik tiger er rithöfundurinn Jonas Khemiri (já, já, metafiksjón) sem reynir ásamt Kadir, gömlum vini föður síns, að skrifa sögu pabbans sem kom fyrir nokkrum áratugum til Stokkhólms frá Túnis til að reyna fyrir sér sem ljósmyndari en tókst aldrei að komast inn í lokað þjóðfélagið og hvarf aftur út í heim. Þar hefur pabbinn, að sögn vinarins, öðlast frægð sem stjörnuljósmyndari sem minglar við Bono og Salman Rushdie í boðum hinna ríku og frægu. Þeir senda hvor öðrum tölvupósta og Kadir skrifar óborganlega fyndna sænsku sem er blönduð arabísku, frönsku og bókmenntamáli í anda sænskra þjóðskálda. Persónan Jonas leggur til bernskuminningar sínar um pabbann, mann sem passaði ekki inn í sænskt þjóðfélag sem byggir á óskrifuðum hirðsiðum og stífum samskiptareglum. Lýst er lífinu í samfélagi þar sem fólki er gert ómögulegt að lifa eftir eigin hugmyndum og óskum. Í orði er Svíþjóð land frjálslyndis og umburðarlyndis en undir yfirborðinu krauma rasismi og fordómar. Bókin er grípandi frásögn um fjölskyldu sem tekst ekki að láta draumana rætast vegna ytri takmarkana og um útlendinginn sem gefst upp og leggur á flótta því hann getur ekki látist vera eitthvað annað en hann er.

Gagnrýnandi skrifaði einu sinni eitthvað á þá leið að Jonas Hassen Khemiri hefði þann hæfileika að geta sýnt hið kjánalega í fari persóna sinna án þess að þær væru kjánalegar og það er nokkuð til í því. Þetta er náttúrlega mikilvægur hæfileiki góðra höfunda; að geta sýnt persónur gera sig að fíflum eða í niðurlægjandi aðstæðum án þess að gera þær annað hvort að aumingjum sem þarf að vorkenna eða einhverjum ómennskum vitleysingum. Khemiri er aldrei meinfýsinn eða hæðinn, hann predikar ekki og setur sig ekki á háan hest gagnvart oft hálfógæfulegum persónunum og hann er fyndinn og orðheppinn án þess að hægt sé að tala um einhverja tilgangslausa hnyttni. Hann á heldur ekki til bókmenntalega tilgerð, sem maður gæti í rauninni alveg búist við, það væri líka örugglega auðvelt að klúðra efniviðinum því höfundinum er oft mikið niðri fyrir.

Nýjasta bókin eftir Khemiri er Invasion! sem kom út 2008. Hún er safn styttri texta og tveggja leikverka, þar á meðal er Invasion! sem er verkið sem kom höfundinum upp á leiksvið Evrópulandanna þar sem hefur verið sýnt víða undanfarið, líklega síðast í Soho í London. Eins og á við um allt sem Khemiri lætur frá sér er tungumálið í aðalhlutverki og um leið sjálfsmynd manneskjunnar sem notar orðin hverju sinni. Margir halda að það að tala mörg tungumál frá barnæsku og að nota ólík mál heima og í skóla sé á einhvern hátt takmarkandi fyrir málþroskann og valdi jafnvel vitsmunalegri fötlun. En Jonas Hassen Khemiri, sem ólst upp við að tala nokkur afar ólík tungumál heima og heiman, sýnir að það er rugl (enda notar meirihluti mannkyns að jafnaði fleiri tungumál en eitt í daglegu lífi). Leyfi menn sér að leika sér með tungumálin, nota orðin eftir eigin hentisemi og móta eins og leir eða brauðdeig, getur margt ótrúlega skemmtilegt gerst, veröldin getur vitrast frá óvæntum sjónarhornum og eldingum jafnvel slegið niður af heiðskírum himni. Jonas Hassen Khemiri sagði í samtali á Bókmenntahátíð í Reykjavík að heima hjá honum hefðu hann, foreldrarnir og yngri tvíburabræður hans alltaf hrært saman tungumálum. Þau hefðu raðað saman orðum úr sænsku, frönsku, arabísku og ensku, snúið setningum á hvolf, blandað saman orðtökum og búið til allrahanda orðasalöt sér til skemmtunar. Þetta skilar sér því tungumálið í bókunum hans er ekki fyrirsjáanlegt, klisjukennt, útþynnt eða forskriftarlega „vandað“ og það sama má segja um persónurnar sem hafa orðið hverju sinni. Væri Jonas Hassen Khemiri íslenskur höfundur myndi hann mögulega búa til persónur sem rugla til dæmis saman orðapörum á borð við utanvið og viðutan og látlaus og lauslát. Invasion! er sundurlaus bók og þannig ólík skáldsögunum tveimur en hún er verulega áhugaverð og inspírerandi og textarnir bjóða bæði upp á fliss og allrahanda vangaveltur og fabúleringar.

Verk Jonasar Hassen Khemiri hafa mér vitanlega verið þýdd á norsku, dönsku, þýsku og ensku (og örugglega fleiri mál líka án þess að ég viti það). Bækurnar á frummálinu má til dæmis fá lánaðar á bókasafninu í Norræna húsinu.

6. janúar 2009

Sedaris - beittur en aldrei bitur!

Ég ætla að byrja á því að biðja Æsu fyrirfram afsökunar á að grípa annan gleðigjafa úr höndum hennar – en meðan hún kvaldist yfir hroðbjóðnum Kevin og hinni köldu móður hans (foreldrarnir eru alltaf sekir), hló ég dátt að/með David Sedaris – einum skemmtilegasta höfundi sem hefur rekið á fjörur mínar.

Sedaris hóf feril sinn sem pistlahöfundur í útvarpi (eftir stutt stopp sem leikhúslistamaður) og sló í gegn á þeim vettvangi eftir að hafa flutt smásögu sína SantaLand Diaries – sú fjallar einmitt um hugsanlegan hápunkt leikferilsins þegar hann vann sem jólaálfur í bandarískum stórmarkaði einn kaldan desembermánuð. Tveimur árum síðar (1994) gaf hann út sína fyrstu bók, Barrell Fever sem er, eins og aðrar bækur hans, sjálfsævisögulegt samansafn pistla eða hugleiðinga.

Fyrsta bók Sedaris sem ég las var Naked (1997) og eftir það var ég friðlaus þar til ég hafði komist yfir þær allar – áðurnefnda Barrell Fever, Holidays on Ice (1997), My Talk Pretty One Day (2000) og Dress Your Family in Corduroy and Denim (2004). Allar eru þær svipaðar að formi (og innihaldi ef út í það er farið) og synd að segja að einhver þeirra skeri sig mikið úr. Í Holidays on Ice eru þó sögur tengdar hátíð ljóss og friðar í fyrirrúmi á meðan My Talk Pretty One Day snýst mikið til um búferlaflutninga hans og Hugh, sambýlismanns hans til margra ára, til Frakklands. Það er þó fjarri mér að spæla mig á skorti á listrænum hástökkum Sedaris – til þess er hann alltof skemmtilegur og það væri sorgardagur ef hann leggði húmorinn á hilluna til að einbeita sér að hinni stóru djúpþenkjandi skáldsögu.

Í nýjustu bók sinni When You are Engulfed In Flames er Sedaris sem betur fer við sama heygarðshornið. Umfjöllunarefnið er eins og áður fengið úr daglegu lífi hans og óhjákvæmilega leika vinir og vandamenn þar stóra rullu. Ekki er gott að segja hvort Sedaris færir í stílinn eða hvort fjölskylda hans er upp til hópa létt biluð – nema hvort tveggja sé. Það verður þó að teljast þeim til tekna að ekkert þeirra virðist hafa afneitað Sedaris sem fer þó engum silkihönskum um fjölskyldulífið. Honum til varnar skal þó taka fram að hlífir hann ekki sjálfum sér nema síður sé.

When You are Engulfed In Flames segir meðal annars frá Helen, gamalli konu sem var nágranni þeirra Hugh í New York – og nánasti vinur Sedaris - milli þess sem hún barði barnunga, heyrnalausa sendla og bölvaði svarta kynstofninum. Í bókinni kynnumst við líka sérstaklega óhugnanlegri barnfóstru sem gætti Sedaris systkinanna í æsku og tengdamóður hans sem eitt sinn ól snák í sköflungnum. Sedaris er sérfræðingur í að lýsa örvæntingarfullum augnablikum daglegs lífs – eins og að missa brjóstsykur í kjöltuna á næsta manni í flugvél, sitja slopplaus og kaldur á læknabiðstofu eða missa sjónar á ferðafélaga á lestarstöð. Ítrekað veinaði ég af hlátri og strauk tárin úr augnkrókunum um leið og ég hryllti mig og kreppti tærnar í skónum.

Sedaris hefur sérstakt lag á að segja frá yfirgengilegu fólki sem hagar sér óafsakanlega án þess þó að taka frá því mennskuna. Hann er brjálæðislega fyndinn og hlífir engum en minnir stundum á 21.aldar, samkynhneigða, léttgeggjaða útgáfu af Chekhov því þrátt fyrir alla ógæfuna og niðurlæginguna sem hann lýsir verður Sedaris aldrei vís að hroka og mannhatri. Hann er beittur en ekki bitur!

5. janúar 2009

Ekki lesa We Need To Talk About Kevin

Eftir að hafa oft labbað áhugalaus framhjá We Need To Talk About Kevin eftir Lionel Shriver tók ég bókina loksins upp í fyrradag og las aftan á hana. Ég hélt alltaf að hún fjallaði um uppeldi, sem ég hef takmarkaðan áhuga á en þarna kom í ljós að hún fjallar um fjöldamorð: bingó. Síðan ég las skáldsögu Wally Lamb um Columbine skotárásirnar hef ég verið haldin óútskýranlegum áhuga á fjöldamorðum. Ég hélt þessu útaf fyrir mig fyrstu vikurnar, enda hálf pervers að vera með svona hluti á heilanum. Með lævísum leiðum komst ég þó að því að saklausasta fólk í kringum mig drekkur í sig staðreyndir um aðferðir og ástæður viðurstyggilegra morða. Botnlaus hít internetsins nær varla til að fullnægja sjúklegri þekkingarlöngun fólks um frík eins og Harold Shipman, Fred og Rosemary, Charles Manson, Washington leyniskytturnar, auk allra skólaárásanna þar sem bólugrafin ungmenni frá Finnlandi til Flórída komast auðveldlega yfir byssur og stráfella samnemendur sína og kennara.

We Need To Talk About Kevin (2003) fjallar einmitt um skólaárás, en nálgun höfundar er mjög sérstök. Lionel Shriver staðsetur ímyndaða skólaárás tíu dögum áður en Columbine árásirnar áttu sér stað árið 1999, en bókin er safn bréfa sem Eva, móðir árásarmannsins, skrifar eiginmanni sínum, Franklin, tveimur árum síðar. Eva rekur sögu drengsins Kevin, allt frá því að hún fékk hann nýfæddan í fangið og fann ekki fyrir tengslum (nokkuð fyrirsjáanlegt fannst mér) til reglulegra heimsókna hennar í fangelsið sem hann mun dvelja næstu árin. Eva hlífir sér enganveginn í bréfum sínum til mannsins síns, hún ljóstrar upp ýmsum fjölskylduleyndarmálum svo sem að einu sinni hafi hún misst þolinmæðina og óvart handleggsbrotið Kevin (piff, aftur fyrirsjáanlegt hugsaði sérfræðingurinn ég) og aldrei sagt frá því. Lesandi áttar sig ekki á því í byrjun hvert samband þeirra Franklins og Evu er í dag, en fer fljótlega að átta sig á því að hjónaband þeirra hefur ekki staðist þessa raun.

Skemmst er frá því að segja að ekkert fyrirsjáanlegt er sem það sýnist og We Need To Talk About Kevin er ekkert nema óbærileg köfun í viðurstyggilega mannssálina. Ég vakti til fjögur í nótt að klára hroðbjóðinn og gat svo auðvitað ekki sofnað því heimurinn er svo vondur. Þetta er bók um blindaðar litlar stelpur og gröftinn úr augntóftum þeirra, kúkableyjur langt fram eftir aldri, óhugnarlega vonsku barnanna okkar og hryllilegt, hryllilegt vonleysi. Ég hélt fram á síðustu síðu að höfundur myndi gefa mér einhverja von um hið góða í manneskjunni en nei, svo var ekki. Ég sé eftir því að hafa lesið þessa bók. Hún er ekki góð fyrir sálina. Ég hef því lofað sjálfri mér að hætta að lesa um morð og ofbeldi á nýja árinu. Því miður var Maríanna mér fyrri til að skrifa um fíflið hana Pollýönnu, en ég ætla að leita að einhverjum álíka gleðigjafa til að fjalla um næst.