29. apríl 2012

Konunglega bókasafnið í Mafra

Fátt er meira við hæfi á sunnudögum en að heimsækja gamlar konungshallir. Í dag tók ég rútu út fyrir Lissabon og skoðaði konungshöllina og klaustrið í Mafra, sem João konungur fimmti lét byggja á fyrri hluta 18. aldar til að þakka almættinu fyrir að konan hans hefði loksins fætt honum barn (að vísu stúlku, en hey, þú getur ekki fengið allt). Fallegasti hlutinn af konungshöllinni þótti mér að sjálfsögðu bókasafnið og ég tók nokkrar myndir af því til að deila með lesendum bókasíðunnar. Meðal bókanna í safninu ku vera dýrmæt fyrsta útgáfa af frægasta verki stórskáldsins Luís de Camões, Os Lusíadas.

“Við erum ekki hrafnarnir ... við erum hræin sem þeir kroppa við veginn”: Hrafnarnir eftir Vidar Sundstøl



Hrafnarnir er lokabókin í Minnesota-þríleik norðmannsins Vidars Sundstøl. Fyrri bækurnar tvær eru Land draumanna sem kom út 2010 og Hinir dauðu sem er frá 2011. Stuttar umfjallanir um þessar tvær fyrri bækur hér á Druslubókum og doðröntum má finna hér og hér.

Líkt og í fyrri bókunum er það skógarlöggan Lance Hansen sem er sögumaður og aðalpersóna. Sagan hefst tveimur mánuðum eftir að atburðunum í bók númer tvö lýkur, en það sem gerðist við hjartarveiðarnar varð Lance ofraun og hann varð að komast í burtu. Hann segir fjölskyldunni að hann sé á leið til Noregs, gamla landsins, í frí. Það sem hann hinsvegar gerir er að keyra rétt yfir landamærin til Kanada. Þar fer hann á hótel og gerir í raun ekki margt annað í tvo mánuði en að hanga í þungum þönkum inná hótelherbergi. Hann hefur hinsvegar fyrir því að fá norskan lögreglumann, sem vann með honum að því að upplýsa morðmálið sem sagan hverfist um, til að senda ættingjunum með reglulegu millibili kort sem hann var þegar búinn að skrifa á. Það er svo í upphafi bókar að hann fær skyndilega nóg og fer heim aftur. Hann veit að hann verður að upplýsa málið, segja frá því sem hann veit og takast með því á við fortíðina og allskyns þöggun og erfiðleika sem hann myndi helst vilja að hægt væri að láta eiga sig. En það er augljóslega ekki í boði, hann veit að hann fær enga ró í sín bein fyrr en hann hefur tekist á við málið.

27. apríl 2012

Leikmyndahönnuður leysir glæpamál - Konurnar á ströndinni er spennandi reyfari!

Konurnar á ströndinni eftir Tove Alsterdal er sérlega óhugnanlegur og spennandi reyfari. Eins og flestar skandinavískar glæpasögur tekur hún á ákveðnu samfélagslegu meini og vefur söguþráðinn í kringum viðfangsefnið. Að þessu sinni er viðfangið nútíma þrælahald og þótt það sé svo sem ekki nýlegt vandamál er það þó fremur frumlegt miðað við mansal, raðmorðingja, fíkniefni, skipulögð glæpasamtök, hryðjuverk og vopnasölu (já það fer ekki á milli mála að þetta er ekki fyrsti skandinavíski reyfarinn sem ég les).

26. apríl 2012

Myrkrið, brjóstamjólk sagnanna

Stella er er „lítil og sæt bókaútgáfa sem elskar ljóð og annan skáldskap“ og gaf fyrir síðustu jól út bókina Við tilheyrum sama myrkrinu – Af vináttu: Marilyn Monroe og Greta Garbo eftir Kristínu Ómarsdóttur. (Hér er nýlegt viðtal Subbukallanna við Kristínu um bókina.) Mér barst þessi bók eins og fleiri með ferðum druslubókadama yfir hafið og kláraði hana í einum rykk í sófanum eitt kvöldið eftir að hafa verið að basla við að lesa hana í rúminu og á ströndinni en ekki gengið nógu vel; hún er nefnilega fullstór í brotinu til að þægilegt sé fyrir nærsýna manneskju að lesa hana liggjandi á bakinu án góðs hliðarstuðnings.

Meðan ég var að bíða eftir að fá bókina í hendurnar rifjaði ég upp gömul og hálfgleymd kynni af bókum Kristínar Ómarsdóttur. Þegar ég var krakki átti ég það nefnilega til að taka bækur af handahófi úr bókahillum foreldra minna og gleypa þær í mig fremur umhugsunarlaust – þetta er lesmál eins og annað – svona eins og Hómer Simpson étur það sem verður fyrir honum í eldhússkápnum, hvort sem það er samloka, kartöflumjöl eða niðursoðinn aspas. Þannig las ég alls konar skringilegheit eins og handbókina Vínin í ríkinu 1992 sem gefin var út af ÁTVR, Teningunum er kastað eftir Jean-Paul Sartre og fleira ósamstætt í þeim dúr. Ég hugsa að ég hljóti að hafa innbyrt texta á einhvern annan og lýðræðislegri hátt en ég geri í dag. En það kom fyrir að ég rambaði á safaríkara efni. Í hillunum heima voru til tvær skáldsögur eftir Kristínu Ómarsdóttur: Elskan mín ég dey og Dyrnar þröngu. Ég man ekki til þess að hafa lagt á þær sérstaklega íhugult fagurfræðilegt mat frekar en aðrar bækur sem ég las á þessum tíma, en ég man að mér fundust þær bæði skemmtilegar og mjög öðruvísi - maður vissi aldrei hvað kom næst - og ég las þær spjaldanna á milli. (Um daginn opnaði ég Dyrnar þröngu aftur og gat ekki annað en flissað yfir að hafa verið að lesa af athygli þessa súrrealísku erótík tólf, þrettán ára gömul.)

Jane Eyre í blómahafi? Onei!

Einu sinni bjó ég í næsta húsi við blokk með íbúðum fyrir eldri borgara úti á Granda. Veturinn sem ég bjó þar var ég ólétt, bíllaus og sjónvarpslaus, sem kallaði oft á að ég hreiðraði um mig með eitthvert léttmeti, bæði til að narta í og til að lesa. Því var einkar heppilegt að í elliblokkinni var bæði að finna litla verslun og útibú frá Borgarbókasafninu. Úrvalið á safninu samanstóð mikið til af ævisögum og þjóðlegum fróðleik, og svo auðvitað ástarsögum í röðum. Oft urðu því ástarsögur fyrir valinu hjá mér til lestrar þennan vetur og það verður að segjast eins og er að ég virðist hafa tekið út minn skammt af slíkum bókmenntum þetta ár; ég hef ekki nennt að lesa fjöldaframleiddar ástarsögur síðan. Það verður að hafa það ef einhverjum finnst ég snobbuð fyrir vikið en ég vil meina að í þessum flokki bókmennta eigi hver sagan það til að líkjast annarri og hafi maður lesið nokkrar verður nokkuð fyrirsjáanlegt eftir fyrstu blaðsíðurnar hvernig sögunni muni lykta. Sumar bækur eru skrifaðar eftir nokkuð einfaldri formúlu, persónurnar flatar og söguþráðurinn fyrirsjáanlegur og í þennan flokk set ég það sem er skilgreint sem ástarsögur. Þær geta vissulega haft prýðilegt afþreyingargildi fyrir þá sem smekk hafa fyrir þeim, og eru ekkert verri en hver önnur fánýt afþreying sem við stundum sjálfsagt flest á einn eða annan hátt, en sé maður í leit að einhverju sem segir manni eitthvað nýtt eða vekur mann til umhugsunar þá held ég að vænlegra sé að róa á önnur mið.

25. apríl 2012

Þar sem eru konur, þar eru karlar

Í síðustu viku kom út skáldsagan Korter, sem er fyrsta bók blaðakonunnar Sólveigar Jónsdóttur. Hún hefur vakið töluverða athygli og fengið lofsamlega dóma.

Bókin er kynnt til sögunnar sem skvísubók, en ég hef einmitt mikinn áhuga á, og ber nokkuð blendnar tilfininngar til, skvísubókaformsins. Einn af mínum uppáhaldsrithöfundum er flokkuð sem skvísubókahöfundur og margar skvísubækur eru alveg frábærar, en um leið set ég spurningarmerki við markaðssetninguna, einsleitar umbúðirnar sem þessar bækur eru oftar en ekki settar í og svo ég tali nú ekki um litavalið og myndmál á kápum (þið vitið, háir hælar, varalitir og martini-glös). Að sama skapi þá fer afskaplega í taugarnar á mér hversu margir líta niður á þetta bókmenntaform þar sem konur fjalla um raunveruleika kvenna.

Ég ákvað þess vegna að setja mig í samband við Sólveigu og fá að forvitnast svolítið um hana og nýútkomna bók hennar.

Hvað heitir þú fullu nafni, hvað ertu gömul og við hvað vinnurðu? 
Sólveig Jónsdóttir, er 29 ára og starfa sem blaðamaður.

Hefur þú lengi haft áhuga á skrifum? Þú hefur starfaði sem blaðamaður, en hefurðu skrifað mikið af skáldskap líka? 
Mér hefur þótt skemmtilegt að skrifa alveg frá því ég var í grunnskóla og hef skrifað töluvert af skáldskap þó svo að hann hafi að mestu verið fyrir skúffuna. Reyndar fékk framhaldssagan um einkaspæjarann Sly Cunningham að koma fyrir sjónir almennings þegar ég bjó úti í Edinborg.

Bókin er kynnt undir formerkjum "chick lit" eða skvísubókmennta. Nú hafa sumir skvísubókahöfundar (t.d. Marian Keyes) talað um að þeim sé ekki sérstaklega vel við skvísubókastimpilinn og segja hann raunar gera lítið úr áhugamálum og reynsluheimi kvenna (t.d. með því að nota styttinguna lit., sem gefi til kynna að þetta sé ekki alvöru litteratúr). Og að sama skapi sé gert lítið úr alvarlegum umfjöllunarefnum með því að skella varalit, hælaskóm eða bleikri kápu á bækurnar. Hvernig líður þér með "skvísubókastimpilinn"? 
Ég get að sumu leyti tekið undir þetta. Þetta hefur með þá tilhneigingu að gera að þurfa að setja bækur í flokka en bækur innan „skvísubókmenntaflokksins“ geta verið jafn misjafnar og þær eru margar, alveg eins og krimma-bækur eru ólíkar þó svo að þær eigi það sameiginlegt að snúast um glæpi. Konur sem hafa áhuga á pólitík, listum og menningu mega líka hafa áhuga á háum hælum og varalit án þess að það sé verið að gera lítið úr neinu af þessu. Bókin er fyrst og fremst saga um fólk þó svo að ég vissi að ég kæmi til með að eiga auðveldara með að setja mig inn í hugarheim kvenna en karla og þær séu því í forgrunni. En þar sem eru konur þar eru karlar, þar sem eru karlar eru konur og sagan er því fyrst og fremst um samskipti fólks.

23. apríl 2012

Paradís sjoppunnar

Er alveg örugglega allt þá þrennt er? Síðast þegar ég reyndi að skilgreina nýja bókmenntatísku tókst mér bara að finna tvö dæmi um körfukjúklinga sem sveimuðu um í nýlegum íslenskum skáldsögum (það upplýsist hér með að engan kjúkling var að finna í Nóvember 1976 eins og ég hafði gert mér vonir um). Nú þykist ég búin að koma auga á trend í bókmenntum níunda áratugarins en er aftur bara með tvö dæmi. „Allt er þá tvennt er“ – er ekki alveg hægt að semja um það?

Þessa fínu sjoppumynd og margar aðrar fann ég hér.
Nýja kenningin mín er sú að í bókmenntum níunda áratugarins hafi sjoppan birst sem eins konar paradís og að útilokun frá henni hafi þá um leið verið paradísarmissir. Gott dæmi um þetta er smásaga Þórarins Eldjárns, „Eftir spennufallið“ sem mér sýnist að hafi fyrst verið birt í Tímariti Máls og menningar árið 1988. Sagan byggir á frásögninni af syndafallinu og segir frá parinu Aðalsteini og Eddu sem fær vinnu í sjoppunni Paradís. Sjoppan er engin venjuleg sjoppa því auk þess að vera sérstaklega snyrtileg og arkítektahönnuð er aðstaðan fyrir starfsfólk vegleg. Þar er setustofa búin þægilegum húsgögnum, sjónvarpi, myndbandstæki, hljómflutningstækjum, plötu- og diskasafni auk veglegs bókasafns. Þar er líka að finna snyrtingu með baðkari, sturtu og gufubaði. Eigandi sjoppunnar, Guðni nokkur Weltschmerz, greiðir auk þess hvoru um sig laun sem jafnast á við tvenn bankastjóralaun. Reksturinn gengur smurt, álagið alveg passlegt og einu reglurnar þær að skötuhjúin yfirgefi húsnæðið klukkan hálftólf á kvöldin og láti tvo eplakassa sem standa við útidyrnar alveg vera. Allt leikur í lyndi þar til sölumaður Freistingar hf. Ormur að nafni tekur að venja komur sínar í sjoppuna og dvelja þar löngum stundum hjá Eddu. Kvöld eitt fær hann hana til að opna eplakassana og eins og menn er kannski farið að gruna er parið rekið úr sjoppunni strax daginn eftir og neyðast til að hverfa aftur til fyrra lífernis, fullu af basli og þjáningum.

Íslensku þýðingarverðlaunin afhent - Druslubókadömur dokúmenteruðu

Nú fyrr í dag voru Íslensku þýðingarverðlaunin afhent. Druslubækur og doðrantar hafa löngum verið þekktar fyrir að sitja um Gyrði Elíasson og taka paparazzi-ljósmyndir af honum við ólíklegustu tækifæri, og útsendarar síðunnar voru því að sjálfsögðu á staðnum, enda hlaut Gyrðir sjálfur verðlaunin fyrir ljóðaþýðingar sínar sem hann birti í bókinni Tunglið braust inn í húsið.

Gyrðir hélt litla tölu sem var svo skemmtileg að ég myndi gjarnan vilja heyra hana aftur (eða fá að lesa hana) þar sem hann sagði meðal annars að það væri kannski ómögulegt að þýða ljóð, en það þýddi samt ekki að maður ætti ekki að reyna það.

Hæstvirtur menntamálaráðherra óskaði Gyrði til hamingju með því að slá hann létt á bossann.
Gyrðir að segja margt gáfulegt.
Hressir áhorfendur.
Hressari áhorfendur
Hressasta Druslubókadaman.
Þar sem verðlaunaafhendingin var á sjálfum Gljúfrasteini notuðum við að sjálfsögðu tækifærið og skoðuðum húsið. Þar var margt forvitnilegt að sjá, en skemmtilegast fannst okkur að finna bæði mammútaklám (Seið sléttunnar e. Jean M. Auel) og alþýðlega stjörnuspeki (Hvað segja stjörnurnar um þig? e. Grétar Oddsson) í bókahillum nóbelskáldsins. Þessir merku fundir voru að sjálfsögðu samviskusamlega dokúmenteraðir og ætlunin var að sýna myndirnar hér og færa þannig óyggjandi sönnur á alþýðleika skáldsins, en einhverra hluta vegna skiluðu myndirnar sér ekki í tölvuna og hurfu svo úr símanum.

Í upphafi athafnar var fullyrt að skáldið væri með okkur í anda. Kannski er anda Halldórs einfaldlega, þrátt fyrir 110 ára afmælið, enn svo umhugað um ímynd sína að hann greip til sinna ráða.

Þið verðið bara að fara uppá Gljúfrastein og kíkja sjálf í hillurnar uppi á annari hæð.

22. apríl 2012

Góð bókahelgi

Ragnheiður Gröndal spilar, Alda Björk og Páll hlusta.
Í gær gerði ég mér ferð alla leið upp í Gerðuberg, þar sem Hallgrímur Helgason og verk hans voru til umfjöllunar á ritþingi. Bókmenntafræðingarnir Alda Björk Valdimarsdóttir og Páll Valson ræddu við Hallgrím um verk hans og það var engin önnur en druslubókadaman Þorgerður E. Sigurðardóttir sem var stjórnandi þingsins. Þetta var fyrsta ritþingið sem ég kem á í Gerðubergi, en mér sýnist slík þing vera haldin árlega. Stemmingin var afslöppuð og það var sérstaklega gaman að hlusta á umræðurnar. Spyrlarnir eru sérfræðingar í Hallgrími (Alda Björk hefur skrifað bók um verk hans) og viðfangið sjálft, Hallgrímur, reyndi aldrei að skorast undan því að svara spurningum þeirra heldur talaði á umbúðalausan hátt um verk sín og sjálfan sig. Það er náttúrulega afskaplega gaman að fara svona yfir feril höfundar, setja verk hans í samhengi hvert við annað og við líf hans, en það spillir heldur ekki fyrir að höfundurinn sé svona hress og tilbúinn til að ræða þetta allt saman. Ragnheiður Gröndal flutti svo nokkur lög við kvæði eftir Hallgrím og að ritþinginu loknu var sýning á myndum eftir hann, Myndveiðitímabilið 2012, opnuð á neðri hæð safnsins. Málverkin og teikningarnar sem hanga þar voru allar gerðar á þessu ári og ég mæli svo sannarlega með því að þið tékkið á þeim. Ég tók örfáar myndir á ritþinginu, en þær eru svolítið blörraðar vegna þess að myndavélin mín er biluð – ég veit, hún var líka biluð síðast þegar ég fór á viðburð í Gerðubergi. Næst þegar ég tek bókaviðburðamyndir verður búið að laga hana, ég lofa. Núna skuluð þið bara ímynda ykkur að ég hafi viljað miðla viðburðinum eins og örlítið nærsýn manneskja hefði mögulega upplifað hann.
Alda, Páll, Hallgrímur og Þorgerður alveg að fara að byrja
eftir hlé. Tæknimaðurinn í óða önn að undirbúa.
Til gera þessa helgi að ennþá betri kom nýjasta hefti Spássíunnar inn um lúguna hjá mér rétt áðan. Þar má finna helling af efni um bækur – greinar, ritdóma um nýlegar bækur og viðtal við Steinar Braga. Ég held ég helli mér bara upp á kaffi og kíki á þetta.

20. apríl 2012

Heilinn sem skúrkur sögunnar

Heilinn minn á það til að staðsetja vísindaskáldskap innan bókmennta nokkurnveginn svipað og kántrí innan tónlistar: þótt ég viti að ýmislegt gott, jafnvel frábært, hafi verið samið innan beggja geira virðist svo mikið meira af öðru, slakara, eiga til að skyggja á hið góða. Ógrynni óbærilegheita á móti broti af betur heppnuðu -prinsippið á auðvitað við um fjölmörg önnur mannanna verk, svo sem eins og hálsbindi, skó eða ritvinnslufonta. Þetta með vísindaskáldskapinn kann reyndar að vera töluvert fordómaskotið viðhorf þar sem ég hef alls ekki lesið margar slíkar bækur og þær eru yfirleitt alfarið utan radarsins þegar ég leita mér að lesefni. Nýverið endurlas ég hinsvegar tvær af skáldsögum Kurts Vonnegut sem flokka má sem vísinda-, Cat's Cradle (1963) og Galápagos (1985).

Prjónles

Prjónabækur geta verið af ýmsu tagi eins og fram kom í pistli Eyju um efnið fyrir nokkru. Ég á ekki eins margar prjónabækur og hún – a.m.k. ekki ennþá – en þeim fjölgar óðum og við lesturinn á færslunni rifjaðist upp að ég hafði lengi ætlað að segja lesendum druslubókabloggsins frá bút úr einni þeirra. Sú er eftir Elizabeth Zimmermann (sem var mikið prjónagúrú og er í raun enn þótt hún hafi dáið fyrir þrettán árum) og heitir Knitter‘s Almanac. Projects for Each Month of the Year. Eins og heitið gefur til kynna er bókinni skipt í tólf kafla og hver þeirra hverfist um eitthvað sem Zimmermann telur heppilegt að prjóna á viðkomandi árstíma. Í kaflalok er hefðbundin prjónauppskrift en megnið af hverjum kafla felst í því að Zimmermann „talar“ lesandann gegnum verkefnið með ýmiss konar útúrdúrum, stundum um prjón almennt en líka um daginn og veginn, lífið og tilveruna. Í mars-kaflanum eru nokkrar línur sem hljóta að höfða sérstaklega til áhugafólks um lestur:
„Some may gasp and stretch their eyes, but knitting and reading at the same time is just a matter of practice. Of course you must love knitting and you must enjoy reading; if you don‘t love them equally, one at a time is sufficient.“

18. apríl 2012

Bókasöfn á gististöðum, 12. þáttur: Á endimörkum Evrópu

Á páskunum fór ég í stutt ferðalag frá Lissabon, niður með ströndinni gegnum þjóðgarð sem heitir því langa nafni Parque Natural do Sudoeste Alentejano e Costa Vicentina og spannar strandlengjuna í Alentejo-héraði og þann hluta strandlengjunnar í Algarve sem snýr vestur í Atlantshaf. Þetta er óskaplega fallegt svæði og gott til heimsókna á vorin þegar sumartraffíkin er ekki byrjuð.

Við gistum tvær nætur í smábænum Sagres, yst á tánni á Portúgal, nokkra kílómetra frá Cabo de São Vicente, sem er suðvestasti hluti evrópska meginlandsins. Í íbúðinni sem við leigðum var ein bókahilla sem ég tók að sjálfsögðu mynd af fyrir pistlaþáttinn Bókasöfn á gististöðum. Allar bækurnar voru á portúgölsku nema ein, Quintessential Pleasures, sem ég lauk á um það bil fimm mínútum, en hún inniheldur sígildar myndir og tilvitnanir sem eiga að sýna fram á mikilvægi litlu hlutanna í lífinu, svo sem tedrykkju í skógarlundum. Hún hafði ekki teljandi áhrif á mig, enda hafa litlu hlutirnir ávallt verið mín ástríða í lífinu hvort eð er.

Þótt tilvitnanabókin Quintessential Pleasures verði seint kölluð mikið bókmenntaverk var bókaúrvalið í íbúðinni almennt frekar virðulegt. Til dæmis var þar að finna ekki eina heldur tvær útgáfur af Orðræðu um aðferð eftir Descartes og tvær bækur eftir Platón. Við hliðina á Descartes er Jurassic Parque - ein af þessum bókum sem ég hefði lesið sem krakki þegar ég mátti ekki sjá myndina (ég hef sko lesið Silence of the Lambs, hún er miklu ógeðslegri en myndin) - og Inocência Perversa eftir Patriciu Highsmith, en hún ku heita The Blunderer á ensku. Þarna er einnig til dæmis að finna Gabriel Garcia Márquez, John le Carré og Nicholas Sparks, en ef ég hefði ekki átt fullt í fangi með bókina sem ég kom með mér sjálf hefði ég sennilega loksins byrjað á Middlesex eftir Jeffrey Eugenides. Ég hugsa samt að ég muni ekki leggja í hana á portúgölsku þegar sá tími kemur.

17. apríl 2012

Bókmenntarýni

Hér fyrir neðan eru nokkrar úrklippur úr gömlum blöðum. Bókmenntagagnrýni er allskonar.

Kristmann Guðmundsson skrifar um Aksel Sandemose 1963

Bókafregn í Kirkjuritinu 1960

Úr dómi Sigurðar Hróarssonar um Barnasögu Peters Handke í Helgarpóstinum 1987

DV 1980

15. apríl 2012

misgirnilegt pasta

Hin fagra Paltrow heldur á mat
Eins og fleiri druslubókadömur hef ég mjög gaman af matreiðslubókum og get sökkt mér niður í þær eins og skáldsögur – alveg óháð því hvort ég muni nokkurn tímann matreiða eitthvað upp úr þeim. Ég elskaði matreiðslubækur meira að segja áður en ég kunni nokkuð að elda (eins og kemur fram í þessum pistli). Þegar ég kem í bókabúðir reyni ég yfirleitt að staldra aðeins við matreiðsluhillurnar og skoða myndirnar ef ekkert annað þótt ég kaupi sjaldan nokkuð. Þótt ég eigi dulítið safn af matreiðslubókum (mikið til brúðkaupsgjafir) þá er ég ekki mjög dugleg að bæta í það heilum bókum – frekar stöku handskrifaðri uppskrift – meðal annars af því að a) matreiðslubækur eru yfirleitt frekar dýrar b) það eru fáar bækur þar sem nógu margar uppskriftir heilla til þess að ég þurfi að eignast alla bókina og c) matreiðslubækur eru stórar og þungar bækur svo þær henta illa til bókarkaupa erlendis eða á netinu.

Bókabókhald

Ég hef lengi verið haldin þeirri áráttu að skrifa niður allar þær bækur sem ég les. Ég tók upp á þessum sið einhvern tíma í kringum 10-11 ára aldurinn og var þá að apa eftir vinkonu minni sem skrifaði samviskusamlega niður titla og blaðsíðufjölda; svo lögðum við blaðsíðurnar saman í lok árs og þær hafa eflaust verið óhugnanlega margar, að minnsta kosti finnst mér ég alltaf hafa verið að lesa á þessum tíma, ef ég þá var ekki að skrifa sögur sjálf. Svo datt þetta aðeins upp fyrir hjá mér á seinni únglingsárum en ég byrjaði aftur að halda bókabókhald upp úr tvítugu og hef ekki getað hætt síðan.
Nokkuð fjölbreytilegur listinn á þessari opnu
frá því í fyrra

Hin blómum skrýdda bók
Hingað til hef ég yfirleitt valið mér tilfallandi kompur og minnisbækur til að halda utan um þetta. Einu sinni áskotnaðist mér snotur lestrardagbók frá Borgarbókasafninu en annars hafa þetta verið hinar ýmsustu bækur. Nýverið fékk ég að gjöf tvær sérhannaðar lestrardagbækur sem bíða þess að ég fylli þær af titlum - það eru tvær opnur eftir í minni núverandi og ég verð að sjálfsögðu að klára hana áður en ég byrja á þeirri næstu (áráttan ríður ekki við einteyming). Önnur þeirra er frá einhverju fyrirtæki sem heitir K TWO og ég hef aldrei heyrt um áður, en hún er voðalega falleg með blómum og mynd af bókabunka framan á. Í henni er greinilega ætlast til þess að maður færi inn bækur eftir höfundum, sem er sennilega gáfulegra en að nota bókatitlana sjálfa því þá lenda t.d. bækur úr sama bókaflokki ekki á sama stað, og það fellur nú aldeilis ekki vel að hugmyndum mínum um skipulag á lestri. Mér finnst reyndar pínulítið óþægileg tilfinning að geta ekki bara fært inn titlana í þeirri röð sem ég les þá - breytingar eru stundum svo agalega erfiðar - en ætla þó að láta á það reyna.

12. apríl 2012

Hinn víðlesni maður og viðfang hans

Kápan á útgáfunni minni á Lolitu.
Þetta er sannarlega ekki það versta sem
kemur upp þegar maður myndagúglar titilinn.
Fyrir stuttu komst það í fréttir að roskinn íslenskur embættismaður hefði fyrir mörgum árum, meðan hann var sendiherra í Bandaríkjunum, skrifað ungri frænku eiginkonu sinnar kynferðisleg bréf, á bréfsefni sendiráðsins. Í einu bréfanna líkir hann sjálfum sér við hreðjamikinn „Satýrikon“ og á þar væntanlega við satýr, vætt úr grískri goðafræði. Með þessum bréfasendingum fylgdi erótíska skáldsagan In Praise of the Stepmother (Elogio de la madrastra) eftir perúska rithöfundinn Mario Vargas Llosa, en í afsökunarbeiðni sem bréfritari sendi frá sér eftir að málið komst í hámæli tekur hann sérstaklega fram að Vargas Llosa hafi fengið Nóbelsverðlaunin í bókmenntum. Yfirskrift afsökunarbeiðnarinnar var á latínu („Mala domestica“ - heimilisböl). Annars staðar kemur fram að bréfritari hafi meðal annars verið „undir áhrifum af bókinni“ þegar hann skrifaði bréfin, en hún „sé listaverk“. Okkur er gert ljóst að hér er ekki um neinn hversdagslegan klámhund að ræða, heldur virtan og víðlesinn mann – diplómatabréfsefni, latínuslettur, vísanir í gríska goðafræði, skáldsaga eftir Nóbelsverðlaunahafa.

Ég er yfirleitt ekki vön að lesa skáldsögur oftar en einu sinni, en fyrir stuttu byrjaði ég aftur á skáldsögu sem ég hafði lesið áður og sem mér varð oftar en einu sinni hugsað til meðan þetta mál var til umfjöllunar í fjölmiðlum; Lolitu eftir Vladimir Nabokov. (Það var viðeigandi að hún yrði fyrir valinu til endurlesturs, því eins og kemur rækilega fram í þessum pistli Erlu var Nabokov mjög harður stuðningsmaður þess að bækur væru lesnar oftar en einu sinni.) Lolita olli töluverðu uppþoti þegar hún kom út á 6. áratug 20. aldar en hefur síðan hlotið öruggan sess í bókmenntakanónunni og í menningarlegu samhengi almennt. Þó er í rauninni erfitt að tala um ríkjandi afstöðu til Lolitu; þetta er bók sem hefur ákveðna tilhneigingu til að smjúga manni úr greipum og enn eru skiptar skoðanir um ágæti hennar, auk þess sem forsendurnar fyrir neikvæðri eða jákvæðri afstöðu fólks til bókarinnar geta verið gjörólíkar.

11. apríl 2012

Listalíf í Reykjavík snemma á síðustu öld

Í öðru tölublaði Listviða kemur fram
Gunnar Bohman, frægasti
Bellman-söngvari Svía sé á Íslandi
 og syngi fyrir fullu húsi.
Hafi ég einhverntíma haldið að fásinni hafi verið í Reykjavík fyrir 50-100 árum þá er allavega langt síðan ég hélt það. Fólk sem hefur til dæmis lesið bækur Þórbergs, endurminningar Kristínar Dahlstedt og Sigurðar Thoroddsen og skoðað gömul blöð á timarit.is, veit að Reykjavík var líflegur staður á fyrri hluta síðustu aldar, ég hef reyndar oft á tilfinningunni að hún hafi verið mun líflegri og skemmtilegri fyrir tíma sjónvarpsins en eftir. Innlendir og erlendir lista- og fræðimenn héldu fyrirlestra og tónleika, settar voru upp fjölsóttar leiksýningar, miðbærinn virðist hafa verið fullur af búðum og allskonar búllum og fyrir 1920 var flutt tónlist til miðnættis á Kaffihúsinu Fjallkonunni á Laugavegi.

Í Reykjavík voru líka gefin út allskonar blöð og tímarit. Í fyrradag rakst ég á eitt sem ég hef aldrei séð áður. Það heitir Listviðir og af því komu út þrjú eintök vorið 1932. Þetta skammlífa tímarit hafði að eigin sögn að markmiði að: vekja athygli á allskonar list, eins og hún kemur fram í bókmentum - leiklist - kvikmyndum - dansi - líkamsmenningu - hljómlist - málaralist - höggmyndalist - húsbúnaði - blómagörðum - garðrækt - heimilisiðnaði - iðnaði - verzlun - vörusýningum - og auk þessa listinni að lifa.

Leitað með logandi kyndli

Ég er nýlega búin að fá mér „kyndil“ eða Kindle Touch bókhlöðu frá Amazon netbókabúðinni og spanderaði um leið í leðurband með innbyggðu ljósi. Það er fáránlega ánægjulegt að kveikja á bókhlöðunni og smella ljósinu fram. Það lætur mér líða eins og glæstu framtíðarhugmyndirnar sem ég elskaði sem krakki séu á næsta leiti. Við munum öll líða um á svifbílum, maturinn verði í pilluformi og bókasafnið komist fyrir á litlum rafplatta. Þó að sá veruleiki hafi ekki verið kominn árið 2000 eins og maður hafði nú gert ráð fyrir á sjöunda áratugnum þá sé núna farið að glitta í hann.

10. apríl 2012

Doris Lessing og feministarnir eða feministinn Doris Lessing?

Breski rithöfundurinn Doris Lessing fæddist árið 1919 í Tehran í Persíu þar sem hún bjó til fimm ára aldurs ásamt foreldrum sínum og yngri bróður. Næst lá leið fjölskyldunnar til bresku nýlendunnar Suður Rhodesíu, sem að fengnu sjálfsstæði frá bretum árið 1980 fékk nafnið Zimbabwe, en þar höfðu foreldrar Lessing fest kaup á landareign þar sem þau vonuðust til að verða rík á því að rækta maís. Lessing bjó í Suður Rhodesíu fram til ársins 1949 en þá flutti hún ásamt ungum syni sínum til London og hefur búið þar alla tíð síðan. Foreldrar Lessing bjuggu í Suður Rhodesíu það sem eftir lifði æfi þeirra en náðu þó aldrei takmarki sínu að verða rík. Faðir hennar var ánægður með líf sitt þar þrátt fyrir að búskapurinn gengi brösuglega og fjölskyldan væri stöðugt skuldum vafin, en samkvæmt Lessing var hann draumóramaður og stundaði oft allskyns rannsóknir og tilraunir þegar hann hefði átt að vera að sinna bústörfum. Móðir hennar var hinsvegar aldrei fullkomlega ánægð í Afríku. Hún hafði verið hjúkrunarkona áður en hún gifti sig og lífið á sveitabænum veitti henni ekki útrás fyrir alla þá orku og kunnáttu sem hún bjó yfir. Lessing sjálf hefur talað um að það hafi verið sín mesta gæfa að alast upp á þessum stað, hún hafi notið frjálsræðis sem stúlkur á hennar aldri t.d. í Englandi hefðu ekki getað látið sig dreyma um. Sveitabærinn og landslagið þar í kring var hennar skóli; hún lærði öll almenn störf innanhúss og utan og auk þess að fara með byssu yfir öxl á veiðar og fleira slíkt sem hún hefði aldrei fengið tækifæri til að gera hefði hún alist upp í þéttbýli.

9. apríl 2012

Krotað í bók

Ég skrifa stundum í bækurnar mínar (með blýanti).  Þá leiðrétti ég ýmislegt, krota spurningamerki og upphrópunarmerki og skrifa jafnvel á spássíuna: "Þessu ber nú bara ekki saman við það sem stendur á bls. 32". Um daginn fór ég með gamla ferðahandbók til Lissabon og þá kom í ljós að síðast þegar ég var þar hafði ég bætt ýmsum upplýsingum við og mótmælt höfundinum, t.d. skrifaði ég að það væri ekki rétt að matarskammtar á portúgölskum veitingahúsum væru alltaf gríðarlega vel útilátnir, en því hélt höfundur Berlitz-bókarinnar fram. En bókakrot mitt finnst mér almennt vera í hófi og stundum skrifa ég alls ekkert í bækurnar.

Í fyrra keypti ég eintak af Listinni að elska eftir Erich Fromm í Góða hirðinum. Þegar ég fór að fletta bókinni sá ég að hún var merkt konu og að konan hafði m.a.s. skrifað nafnnúmerið sitt undir nafnið sitt fremst. Hún hefur líka strikað undir mjög margar setningar, næstum allar. Auk þess hafði hún skrifað ýmis símanúmer í Listina að elska, t.d. númerið hjá flugfrakt Loftleiða á Akureyri og hjá einhverjum sem seldi ýmislegt í smáauglýsingum DV á sínum tíma og var sennilega líka dagmamma, það er meira að segja símanúmer og götuheiti aftan á bókinni. Ég fletti auðvitað þessum fyrrverandi eiganda bókarinnar upp á timarit.is og í ljós kom að viðkomandi dó fyrir nokkrum árum og átti sér augljóslega viðburðaríkt líf, ýkjulaust má örugglega kalla það mjög dramatískt lífshlaup. Ég fer ekki nánar út í það en hér fyrir neðan eru nokkrar myndir úr bókinni.

Gotlandsklám

Ég hef lengi haft þann sið að lesa glæpasögur frá viðkomandi landi þegar ég er á ferðalögum. Skemmtilegast af öllu er að lesa bók sem gerist akkúrat í þeirri borg eða á því svæði sem maður er staddur á en það er auðvitað ekki alltaf sem það tekst. Þannig hef ég lesið Elizabeth George í London, Ian Rankin í Edinborg og þegar ég dvaldi í viku í sumarhúsi á Gotlandi byrgði ég mig að sjálfsögðu upp af seríu Mari Jungstedt um lögregluparið Anders Knutas og Karin Jacobsson og blaðamanninn Johan Berg.

Mari Jungstedt á Gotlandi
Það er auðvitað ekki bara í mínum huga sem ferðamennska og bókmenntir eru tengd. Skáldskapur er almennt frábær leið til að kynnast framandi slóðum. En skáldskapur er líka frábær leið til að markaðssetja framandi slóðir – og framandi slóðir eru frábær leið til að markaðssetja bækur. Glæpasögur Mari Jungstedt eru gott dæmi um þetta. Sögurnar gerast sem sagt á Gotlandi, sænskri eyju í Eystrasaltinu. Þar sem eyjan er nokkuð afskekkt (þangað er um þriggja tíma sigling) hefur tungumál hennar, bygginarstíll, búskaparhættir og menning löngum þróast án stórkostlegra áhrifa frá meginlandinu. Á eynni má til að mynda finna bæði sérstakan fjárstofn og smáhestakyn, þar er töluð áberandi mállýska auk þess sem hvít steinhús leysa þar hin erkitýpísku falurauðu timburhús algjörlega af hólmi enda lítill skógur á eynni en undirlag hennar allt úr kalksteini. Gotland er líka ríkt af fornminjum og frægastur er varnarmúrinn sem umlykur gamla bæjarkjarnann í höfuðstaðnum Visby. Fólkið, náttúran og menning – allt hefur þetta löngum þótt meira „ekta“ en annars staðar í Svíþjóð og gott ef það var ekki ein af skýringum Ingmars Bergmans á óbilandi kærleika sínum til Fårö (sem er lítil eyja við suðausturströnd Gotlands, gjarnan talin einn afskekktasti hluti þess). Bergman er þó ekki sá eini sem hefur heillast af andrúmslofti eyjunnar því vinsældir hennar hafa farið stöðugt vaxandi undanfarna áratugi og í dag er hún jafnþekkt sem sumarparadís forríkra meginlandsbúa og fyrir menningarauðinn. Þessi nýja hlið Gotlands nær hámarki í svokallaðri Stokkhólmsviku en þá yfirtaka ofdekruð Östermalms-ungmenni Visby, dansa við europopp og „vaska“ kampavín (að vaska kampavín er einfaldlega að panta dýrustu kampavínsflöskuna sem skemmtistaðirnir bjóða upp á og biðja þjóninn að hella henni í vaskinn – allt eftir að sett var bann við að sprauta kampavíni yfir innréttingar og gesti á skemmtistöðum sem fram að því hafði verið helsta iðja sama hóps). Það er sem sagt sama út frá hvaða sjónarhorni Gotland er skoðað, það er kjörlendi markaðssetningar þar sem það er ekki bara framandi í augum umheimsins heldur líka þorra Svía.

8. apríl 2012

Lífsins metafórur

Tíðahvörf – nýr kafli í lífi konunnar hefst.
Í bók sinni, Metaphors We Live By, fjalla George Lakoff og Mark Johnson um líkingar; um það hvernig líkingar gegnsýra alla skynjun okkar og skilning á heiminum. Metafórur eru því ekki bara eitthvað sem skáld, stjórnmálamenn og sérvitringar nota, heldur notum við þær öll en erum yfirleitt alls ekki meðvituð um það. Þeir Lakoff og Johnson greina ólíkar tegundir líkinga, en þær eiga það þó sammerkt að vera aðferð til að skilja eitt fyrirbæri í ljósi annars – til dæmis hugsum við oft um deilur eins og stríð, tímann sem fyrirbæri á hreyfingu, ást eins og sjúkdóm, lífið eins og sögu, ástarsambönd eins og ferðalög, og svo framvegis og svo framvegis. Það hvernig við hugsum hefur áhrif á gjörðir okkar og tungumálið (og öfugt).

Það er gaman að myndagúgla.

4. apríl 2012

Edith Södergran 120 ára

Finnlandssænska skáldkonan Edith Irene Södergran hefði orðið 120 ára í dag. Södergran veiktist ung af berklum og lést aðeins 31 árs gömul en gaf þó út fjórar ljóðabækur og lét eftir sig þá fimmtu, Landet som icke är, sem var gefin út að henni látinni. Hún hefur verið talin meðal helstu brautryðjenda módernisma í ljóðagerð á Norðurlöndunum.

Einhver ljóða Södergran hafa komið út á íslensku, m.a. var Landet som icke är gefin út 1992 í þýðingu Njarðar P. Njarðvík undir heitinu Landið sem ekki er til. Á síðasta ári kom svo út svonefnt Ljóðasafn með ljóðum hennar í þýðingu Þórs Stefánssonar - ég vissi satt að segja ekki af tilvist þess safns fyrr en ég sá það rétt í þessu á Gegni, en fagna því virkilega að ljóðum Edithar Södergran sé haldið á lofti því hún er afskaplega gott skáld. Langvinn veikindin settu mark sitt á verk hennar sem eru þrungin þjáningu og forgengileika, dauðinnn skammt undan og jafnvel að komu hans virðist beðið með óþreyju á stundum. Ég læt fylgja hér eitt ljóð í þýðingu Njarðar P., úr Landinu sem ekki er til:

Skuggi framtíðar
Ég skynja skugga dauðans.
Ég veit að örlög okkar liggja í haugum á borðum norna.
Ég veit að jörðin drekkur ekki einn dropa regns
sem ekki er skráður á bók eilífðarinnar.
Ég veit jafnvel og að sólin rennur upp,
að ég mun aldrei líta þá óumræðilegu stund, þegar hún rís hæst.
Framtíðin varpar á mig sælum skugga;
hún er ekkert nema flæðandi sólskin:
gegnumníst ljósi mun ég deyja,
þegar ég hef traðkað á hverri tilviljun,
mun ég brosandi snúa baki við lífinu.

2. apríl 2012

Langdregið Nafn rósarinnar

Nýverið lauk ég við The Name of the Rose eftir Umberto Eco – ég tek fram að ég hafi lokið við hana þar sem það var nú eiginlega tvísýnt um það á tímabili. Bókin er um 500 síður sem er í sjálfu sér ekki í frásögu færandi og ég hef lesið margar mun lengri EN ég hef ekki lesið svona langa og langdregna bók síðan ég byrjaði í fæðingarorlofi og það verður að viðurkennast að það er ekki alveg jafn mikill tími fyrir yndislestur þessa dagana. Þess þá heldur er lesefnið valið af mikilli kostgæfni og mætti segja að margir væru til kallaðir en fáir útvaldir.


Connery og Slater með feitum, látnum bróður
Ron Perlman hefur sérhæft sig í að leika afkáralega menn, oft með gervinef


1. apríl 2012

Paulo Coelho á Íslandi

Paulo Coelho og Christina Coelho voru þreytuleg í Keflavík
í morgun eftir næturflug frá Bandaríkjunum. Við hlið þeirra
er Óskar Pétursson, starfsmaður í Leifsstöð, en hann geymir
bók í vinnunni þar sem hann safnar eiginhandaráritunum
þekktra einstaklinga sem eiga leið um Leifsstöð og nú hefur
áritun Paulo Coelho bæst í safnið.
Druslubókadömur eiga sér leyndan draum um að vera rannsóknarblaðamenn með skúbb á hverjum fingri, og af og til hleypur á snærið eins og þegar Þórdís náði sællar minningar paparazzimynd af Agli Helgasyni og Gyrði Elíassyni að spjalla saman á Sauðárkróki.

Skúbb ársins 2012 hlýtur þó að koma frá Maríönnu Clöru Lúthersdóttur, en þegar hún átti leið um Leifsstöð snemma í morgun rak hún augun í engan annan en rithöfundinn heimsþekkta frá Brasilíu, Paulo Coelho.

Maríönnu varð að sjálfsögðu strax hugsað til Druslubókasíðunnar, gaf sig á tal við höfund Alkemistans og fékk að smella mynd af honum og Christinu eiginkonu hans. Í ljós kom að Coelho er staddur á landinu í einkaerindum, nánar tiltekið í vinarheimsókn hjá sendiherra Frakka, Marc Bouteiller, en hann var áður sendiherra í Suður-Afríku og þar kynntust þeir Coelho þegar sá síðarnefndi var þar á ferð og ákváðu Coelho-hjónin að nota tækifærið á leið sinni frá Bandaríkjunum til Spánar, til að stoppa á Íslandi og heimsækja vin sinn.

Maríanna Clara er ekki einungis druslubókadama heldur starfar hún einnig hjá Eymundsson, og þótt Coelho hafi upphaflega ekki ætlað að koma opinberlega fram í Íslandsheimsókn sinni féllst hann á að gera undantekningu á því fyrir þrábeiðni Maríönnu, sem veit að höfundurinn á sér fjöldan allann af lesendum á Íslandi. Coelho verður því í Eymundsson í Austurstræti milli klukkan 15 og 16 í dag og les upp úr nýjustu bók sinni, Aleph. Hann mun einnig vera fáanlegur til að árita nokkrar bækur ef áhugi er fyrir því.

Paulo Coelho (f. 1947) er einn frægasti núlifandi rithöfundur Brasilíumanna. Hann er þekktur fyrir skáldsögur á borð við Ellefu mínútur og Veronika ákveður að deyja en hans þekktasta bók er þó sennilega Alkemistinn. Um hana sagði bókmenntafræðingurinn Þröstur Helgason: „Í raun drýpur lífsspekin af hverju strái í bókinni ...” Þess má geta að Alkemistinn er meðal annars byggð á  pílagrímsgöngu höfundarins til Santiago de Compostela, en mörgum árum síðar gekk íslenskur þýðandi bókarinnar, Thor Vilhjálmsson heitinn, þessa sömu leið og um þá ferð var nýlega gerð heimildarmynd. Paulo Coelho hefur komið áður til Íslands, en það var haustið 2004.