29. apríl 2012

Konunglega bókasafnið í Mafra

Fátt er meira við hæfi á sunnudögum en að heimsækja gamlar konungshallir. Í dag tók ég rútu út fyrir Lissabon og skoðaði konungshöllina og klaustrið í Mafra, sem João konungur fimmti lét byggja á fyrri hluta 18. aldar til að þakka almættinu fyrir að konan hans hefði loksins fætt honum barn (að vísu stúlku, en hey, þú getur ekki fengið allt). Fallegasti hlutinn af konungshöllinni þótti mér að sjálfsögðu bókasafnið og ég tók nokkrar myndir af því til að deila með lesendum bókasíðunnar. Meðal bókanna í safninu ku vera dýrmæt fyrsta útgáfa af frægasta verki stórskáldsins Luís de Camões, Os Lusíadas.


Konunglegt lespúlt.
Höllin í Mafra gegnir stóru hlutverki í öðru frægu portúgölsku bókmenntaverki, Memorial do convento eftir José Saramago, eða Baltasar and Blimunda eins og hún heitir á ensku. Sögusvið hennar er Mafra á þeim tíma þegar verið er að byggja höllina og klaustrið.
Ég tók auðvitað mynd af einni hillu líka. Kannski þekkja lesendur einhverja af sínum uppáhaldsbókum
í safni konungs? Ætli þeir noti Dewey-kerfið þarna?

2 ummæli:

Þórdís Gísladóttir sagði...

Mig langar í lespúlt.

Kristín Svava sagði...

Þau voru þó nokkur, ég hefði átt að athuga hvort ég kæmist upp með að nappa einu. T.d. fyrir eigulegt.blogspot.com?