18. apríl 2012

Bókasöfn á gististöðum, 12. þáttur: Á endimörkum Evrópu

Á páskunum fór ég í stutt ferðalag frá Lissabon, niður með ströndinni gegnum þjóðgarð sem heitir því langa nafni Parque Natural do Sudoeste Alentejano e Costa Vicentina og spannar strandlengjuna í Alentejo-héraði og þann hluta strandlengjunnar í Algarve sem snýr vestur í Atlantshaf. Þetta er óskaplega fallegt svæði og gott til heimsókna á vorin þegar sumartraffíkin er ekki byrjuð.

Við gistum tvær nætur í smábænum Sagres, yst á tánni á Portúgal, nokkra kílómetra frá Cabo de São Vicente, sem er suðvestasti hluti evrópska meginlandsins. Í íbúðinni sem við leigðum var ein bókahilla sem ég tók að sjálfsögðu mynd af fyrir pistlaþáttinn Bókasöfn á gististöðum. Allar bækurnar voru á portúgölsku nema ein, Quintessential Pleasures, sem ég lauk á um það bil fimm mínútum, en hún inniheldur sígildar myndir og tilvitnanir sem eiga að sýna fram á mikilvægi litlu hlutanna í lífinu, svo sem tedrykkju í skógarlundum. Hún hafði ekki teljandi áhrif á mig, enda hafa litlu hlutirnir ávallt verið mín ástríða í lífinu hvort eð er.

Þótt tilvitnanabókin Quintessential Pleasures verði seint kölluð mikið bókmenntaverk var bókaúrvalið í íbúðinni almennt frekar virðulegt. Til dæmis var þar að finna ekki eina heldur tvær útgáfur af Orðræðu um aðferð eftir Descartes og tvær bækur eftir Platón. Við hliðina á Descartes er Jurassic Parque - ein af þessum bókum sem ég hefði lesið sem krakki þegar ég mátti ekki sjá myndina (ég hef sko lesið Silence of the Lambs, hún er miklu ógeðslegri en myndin) - og Inocência Perversa eftir Patriciu Highsmith, en hún ku heita The Blunderer á ensku. Þarna er einnig til dæmis að finna Gabriel Garcia Márquez, John le Carré og Nicholas Sparks, en ef ég hefði ekki átt fullt í fangi með bókina sem ég kom með mér sjálf hefði ég sennilega loksins byrjað á Middlesex eftir Jeffrey Eugenides. Ég hugsa samt að ég muni ekki leggja í hana á portúgölsku þegar sá tími kemur.

6 ummæli:

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Ég er einmitt að lesa Middlesex - loksins!

Guðrún Elsa sagði...

Það hljómar nú ekki illa að fá sé einn Sagres og gleyma sér yfir Jurassic Parque...

Kristín Svava sagði...

Það segirðu satt, Guðrún Elsa!

Og Salka, hvernig er svo Middlesex?

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Ég er bara rétt byrjuð, en hún er allavega virkilega fín fyrstu 65 blaðsíðurnar (er sumsé búin að lesa þær). Ég fíla sögumannsröddina (smá svona Tristram Shandy-fílingur nema ... tja, nema ekki óhaminn orðaflaumur) og grísku fjölskylduna. Skal blogga um hana þegar lestri lýkur!

Kristín Svava sagði...

Frábært! Ég hafði ekki heyrt um Tristram Shandy áður en er núna búin að gúgla hann og dauðlangar að lesa! Ég hef eitthvað thing fyrir stefnulausum útúrdúrum.

Eyja M. Brynjarsdóttir sagði...

Ég fílaði Middlesex mjög vel og fannst hún áhugaverðari en Virgin Suicides, sem var svo sem ekkert slæm, sem er hin bókin sem ég hef lesið eftir sama höfund.