Ég lauk umfjöllun minni um Piparkökuhúsið, fyrstu bók Carin Gerhardsen, á orðunum „Ég er til í að lesa aðra bók eftir Carin! Bring it!“ (dóminn í heild má lesa hér) og ári síðar er ég komin með næstu bók í hendur. Mamma, pabbi, barn olli svo sannarlega ekki vonbrigðum. Þriggja ára stúlka lokast inni í blokkaríbúð – móðir hennar myrt og ungabarnið bróðir hennar berst fyrir lífi sínu á spítala – faðirinn í Japan. Aðrir, ekki síður hrottalegir glæpir eru framdir og spennan er í hámarki alla bókina en það er erfitt að toppa þriggja ára barn eitt að dansa við dauðann lokað inni í lítilli íbúð í stórborg. Eins og vinkona mín sagði – þetta fær þig til að íhuga alvarlega að skrúfa allar hurðir af hjörunum heima hjá þér.
Þessa bók kláraði ég þrjú um nótt – og vart þarf að taka fram að ég lagði ekki kollinn mjúklega á koddann og sveif inn í draumalandið með friðsælan svip. Ég veit ekki einu sinni hvenær ég sofnaði – en þá var ég bæði búin að lesa nokkra kafla í Shakespeare's Local (sexhundruð ára saga kráar sem Shakespeare vandi komur sínar á og ljómandi dæmi um bók sem ekki heldur fyrir manni vöku) og leysa tvær krossgátur. Með öðrum orðum er Mamma, pabbi, barn gríðarlega spennandi reyfari en eins og sá síðasti sem ég las ekki fyrir viðkvæmar sálir – og skyldi ekki lesinn seint að kvöldi.