Kápurnar eru mjög vel heppnaðar sem og frágangurinn á bókunum |
"Markmið Bókabeitunnar er að efla lestur barna og unglinga.
Tilgangur félagsins er alhliða útgáfa og miðlun menningarefnis, fræðslu og skemmtiefnis sem líklegt er til að auka lestur barna og unglinga og áhuga þeirra á lestri og bókmenntum.
Ætlunin er að bjóða upp á fjölbreytt og vandað lesefni.
Fyrst og fremst með útgáfu frumsaminna barna- og unglingabóka og þýðingum og útgáfu á erlendu á efni fyrir börn og unglinga með sérstaka áherslu á fantasíur og spennusögur. Bækurnar skulu vekja og viðhalda athygli og áhuga lesenda, vera þægilegar aflestrar en jafnframt vandaðar og á góðu máli. Ævintýra-, spennu-, hryllings-, drauga-, galdra- og bækur sem er lítið af í íslenskri bókaflóru fyrir unglinga fá sérstaka athygli til að byrja með."
Eins og sést á þessari yfirlýsingu hafa aðstandendur forlagsins markað sér skýra útgáfustefnu og hugmyndafræði. Mikið er talað um að bóklestur barna og allra helst unglinga sé á undanhaldi og því mætti segja sem svo að Bókabeitan hafi snúið vörn í sókn. Á stefnulýsingunni má sjá að forleggjararnir hafa kynnt sér það sem í boði er fyrir ungt fólk og ákveðið að fylla í skarðið. Ég tek ofan fyrir þeim og manifestóinu - gott mál.
Rökkurhæðabálkurinn hefur hingað til verið fyrirferðarmestur á útgáfulista forlagsins og mér sýnist á öllu að hann hafi hlotið afar góðar viðtökur í lesendahópnum. Höfundarnir Birgitta Elín Hassell og Marta Hlín Magnadóttir fengu meðal annars Vorvindaviðurkenningu IBBY síðasta vor fyrir framlag sitt til barnamenningar. Hér er hægt að sjá stutt viðtal við þær stöllur. Rökkurhæðir eru yfirnáttúrulegar sögur sem hafa þó einnig á sér raunsæislegan blæ; persónurnar lifa að mörgu leyti og hrærast í kunnuglegu umhverfi, takast á við vandamál sem unglingar þekkja og eru að upplagi ósköp venjulegir krakkar, en höfundarnir skapa sögunum þó sérstakan heim þar sem lögmálin eru önnur en í hversdeginum. Hér á druslubókablogginu hefur verið fjallað um allar bækurnar sem þegar eru út komnar; Hildur Knútsdóttir skrifaði um Rústirnar, Guðrún Elsa rýndi í Óttulund og sjálf skrifaði ég um bókina Kristófer.
Nú er komin út fjórða sagan í bókaflokknum og nefnist hún Ófriður. Sagan segir frá Matthíasi sem er nýfluttur í hverfið og var að byrja í 10. bekk í Rökkurskóla.