29. janúar 2013

Ófriður í Rökkurhæðum

Kápurnar eru mjög vel heppnaðar
sem og frágangurinn á bókunum
Eitt af nýjustu forlögum landsins er Bókabeitan sem sinnir einum stærsta og mikilvægasta lesendahópnum, nefnilega börnum og unglingum. Forlagið hefur sett sér metnaðarfullt manifestó sem má lesa á heimasíðu þess:
"Markmið Bókabeitunnar er að efla lestur barna og unglinga.
Tilgangur félagsins er alhliða útgáfa og miðlun menningarefnis, fræðslu og skemmtiefnis sem líklegt er til að auka lestur barna og unglinga og áhuga þeirra á lestri og bókmenntum.
Ætlunin er að bjóða upp á fjölbreytt og vandað lesefni.
Fyrst og fremst með útgáfu frumsaminna barna- og unglingabóka og þýðingum og útgáfu á erlendu á efni fyrir börn og unglinga með sérstaka áherslu á fantasíur og spennusögur. Bækurnar skulu vekja og viðhalda athygli og áhuga lesenda, vera  þægilegar aflestrar en jafnframt vandaðar og á góðu máli. Ævintýra-, spennu-, hryllings-, drauga-, galdra- og bækur sem er lítið af í íslenskri bókaflóru fyrir unglinga fá sérstaka athygli til að byrja með."
Eins og sést á þessari yfirlýsingu hafa aðstandendur forlagsins markað sér skýra útgáfustefnu og hugmyndafræði. Mikið er talað um að bóklestur barna og allra helst unglinga sé á undanhaldi og því mætti segja sem svo að Bókabeitan hafi snúið vörn í sókn. Á stefnulýsingunni má sjá að forleggjararnir hafa kynnt sér það sem í boði er fyrir ungt fólk og ákveðið að fylla í skarðið. Ég tek ofan fyrir þeim og manifestóinu - gott mál.
Rökkurhæðabálkurinn hefur hingað til verið fyrirferðarmestur á útgáfulista forlagsins og mér sýnist á öllu að hann hafi hlotið afar góðar viðtökur í lesendahópnum. Höfundarnir Birgitta Elín Hassell og Marta Hlín Magnadóttir fengu meðal annars Vorvindaviðurkenningu IBBY síðasta vor fyrir framlag sitt til barnamenningar. Hér er hægt að sjá stutt viðtal við þær stöllur. Rökkurhæðir eru yfirnáttúrulegar sögur sem hafa þó einnig á sér raunsæislegan blæ; persónurnar lifa að mörgu leyti og hrærast í kunnuglegu umhverfi, takast á við vandamál sem unglingar þekkja og eru að upplagi ósköp venjulegir krakkar, en höfundarnir skapa sögunum þó sérstakan heim þar sem lögmálin eru önnur en í hversdeginum. Hér á druslubókablogginu hefur verið fjallað um allar bækurnar sem þegar eru út komnar; Hildur Knútsdóttir skrifaði um Rústirnar, Guðrún Elsa rýndi í Óttulund og sjálf skrifaði ég um bókina Kristófer.
Nú er komin út fjórða sagan í bókaflokknum og nefnist hún Ófriður. Sagan segir frá Matthíasi sem er nýfluttur  í hverfið og var að byrja í 10. bekk í Rökkurskóla.

28. janúar 2013

„Svona er þetta bara“: Hvítfeld – fjölskyldusaga

Fyrsta skáldsaga rithöfundarins og skáldkonunnar Kristínar Eiríksdóttur, Hvítfeld – fjölskyldusaga, fjallar um ungu konuna Jennu Hvítfeld og (eins og titillinn gefur vísbendingu um) fjölskyldu hennar. Í upphafi bókar hefur Jenna það náðugt á heimili sínu í Live Oak í Texas ásamt dóttur sinni Jackie. Inn í sjónvarpsþáttalegt og pastellitað umhverfið, sem er sjónvarpsglápurum kunnuglegt í framandleika sínum, berst símhringing frá Íslandi og Jennu eru færðar fréttir af því að systir hennar sé látin. Þessi byrjun er afar viðeigandi, þar sem eitt meginviðfangsefni bókarinnar er það að fjölskyldan verður ekki umflúin. Uppruni persóna og fortíð virðist fylgja þeim sama hversu langt þær fara til að komast undan. Jenna neyðist til að yfirgefa persónuleikasnauða íbúð sína, þar sem myndirnar „á veggjunum fylgdu með römmunum og skrautmunirnir eru svo fjöldaframleiddir að [Jenna] man ekki einu sinni hvaðan þeir komu“ og fara til Íslands, sem verður nokkurs konar fortíðarland þar sem óþægilegar minningar varðveitast í gömlum dagbókum, skókössum og gámum.

Þótt eftirnafn Jennu Hvítfeld hafi yfirbragð flekkleysis á það rætur sínar í eldgamalli lygasögu af forföður sem yfirbugar ísbjörn með ævintýralegum hætti, en fyrirferðarmesti þráður bókarinnar kjarnast í þessu nafni. Hvítfeld er bók um fjölskyldu(r) og fortíð, en hún fjallar kannski fyrst og fremst um óheiðarleikann. Aðalpersónan, sem er sögumaður stóran hluta bókarinnar, er beinlínis lygasjúk – hún ræður ekki við sig. Hún lýsir því hvernig hún lýgur fyrir lesandanum, sem gerir engu að síður ráð fyrir því að hann verði ekki fyrir barðinu á lygum hennar. Þannig er athygli okkar dregin að stöðu lesenda skáldskapar. Skáldverk eru náttúrulega ekki lygi í réttum skilningi þess orðs – þau lúta eigin lögmálum, öðrum lögmálum en til dæmis sagnfræði. En þeir sem lesa bækur vilja láta blekkjast eins og fjölskylda Jennu, sem hún segir að sé „fíkin í skáldskap“ og lifi í lygum. Í bókinni er þó líka fjallað um óheiðarleika í víðum skilningi. Jenna er lítið annað en sögurnar sem hún segir af sér, hana skortir einhvern kjarna eins og sést til dæmis þegar hún leigir íbúð með vinkonu sinni og tileinkar sér smám saman fatastíl hennar, talanda og kæki. Hún veit mögulega ekki sjálf hvenær hún er að grínast eða ljúga, hvenær hún er að meina það sem hún segir og gerir:

„Milli mín og umheimsins eru ótal lög af alvöru, háði, farsa og meðvitund. Ég þarf ekki nema að bæta einum tón við röddina til þess að allir skilji að ég er auðvitað ekki alveg að meina það sem ég segi.“ (Hvítfeld, bls. 53) 

24. janúar 2013

Finnsk skáldsaga grundvölluð í íslenskum veruleika: Ariasman Tapios Koivukari

Íslenska þýðingin.
Rithöfundinn, guðfræðinginn og þýðandann Tapio Kristian Koivukari hafa sumir Íslendingar þekkt sem Kidda Finna, aðrir einfaldlega sem Tapio. Meðal annarra starfa á ferli hans má nefna byggingarvinnu í Reykjavík og smíðakennslu á Ísafirði, en á síðarnefnda staðnum kynntist hann eiginkonu sinni og búa þau nú ásamt syni í heimabæ Tapios, Rauma við vesturströnd Finnlands. Auk þess að skrifa eigin verk hefur Tapio þýtt íslenskar bókmenntir á finnsku, m.a. verk Vigdísar Grímsdóttur, Gyrðis Elíassonar og Gerðar Kristnýjar.
Í október 2011 birtu Druslubækur og doðrantar viðtal við Tapio hér á síðunni. Þar kom meðal annars til tals skáldsaga hans Ariasman – kertomus valaanpyytäjistä sem þá var nýútkomin í Finnlandi, en íslensk þýðing Sigurðar Karlssonar á sögunni kom út hjá Uppheimum nú fyrir jól; hlaut góðar viðtökur og tilnefningu til íslensku þýðingarverðlaunanna, en íslenskur titill bókarinnar er Ariasman – frásaga af hvalföngurum.

Sögusvið Ariasman eru Vestfirðir á öndverðri 17. öld og hverfist sagan um þá atburði er í íslenskum annálum hafa verið nefndir Spánverjavígin, en sem mætti líklega eins vel og jafnvel með meiri rétti nefna fjöldamorð á baskneskum hvalföngurum, svo ég vitni í eftirmála höfundar. Við söguna koma ýmsar sögufrægar íslenskar persónur á borð við Jón lærða Guðmundsson og Ara Magnússon í Ögri (en nafn hins síðarnefnda tók á sig myndina Ariasman í munni Baskanna). Tiltölulega lítið hefur farið fyrir þessum atburðum á Íslandi – sjálf man ég til dæmis ekki eftir að hafa lært neitt að ráði um þá í skóla og kom að bókinni með litla vitneskju aðra en það eitt sem nafnið gefur til kynna.

Tapio ásamt konu sinni, Huldu Leifsdóttur.
Ariasman er semsagt söguleg skáldsaga og ljóst að mikil heimildavinna liggur að baki verkinu. Höfundi tekst afar vel að nýta sér þann grunn til að byggja sannfærandi söguheim upp af. Að því marki sem maður getur á annað borð gert sér í hugarlund hvers konar samfélag fjölskyldur vestfirskra fiskimanna hafa átt fyrir fjögur hundruð árum, fann ég þann heim rísa ljóslifandi upp af síðunum við lesturinn; þótt Ariasman sé tæknilega séð finnsk skáldsaga finnst mér hún að öðru leyti eins íslensk og frekast má vera. En líkt og undirtitillinn bendir til er það þó ekki saga Vestfirðinganna sem hér er sögð, heldur fyrst og fremst hinna basknesku hvalfangara sem sóttu þá heim með skelfilegum afleiðingum.

17. janúar 2013

Skáldskapur um skáldskap: Undantekningin eftir Auði Övu Ólafsdóttur

Undantekningin ‒ de arte poetica er fjórða skáldsaga Auðar Övu og segir frá fáeinum vikum í lífi Maríu, aðalpersónu sögunnar og vitundarmiðju, í kjölfar þess að eiginmaðurinn til ellefu ára tilkynnir henni að hún hafi, sem kona, verið undantekningin í lífi hans og hann hyggist nú yfirgefa hana fyrir karlmann.

Sjálf hef ég ekki lesið aðrar bækur Auðar Övu en skilst að þessi höfði til margra sem kunnu að meta hinar fyrri. Sagan er vel skrifuð, flæðið gott og myndmálið sérlega safaríkt. Líkt og undirtitill sögunnar, sóttur í samnefnt rit Aristótelesar; de arte poetica eða um skáldskaparlistina vísar til er meginþema hennar form og eðli skáldskaparins, og er þeim pælingum fundinn farvegur og rödd í persónunni Perlu, rithöfundi, hjónabandsráðgjafa og grannkonu Maríu í kjallaraíbúðinni: „Það eru margir sem eru alla ævi að velta fyrir sér hvenær sé rétta augnablikið fyrir stund sannleikans. Sumir komast aldrei að niðurstöðu. Það er eins og í skáldskapnum, maður er stöðugt að glíma við það hvenær eigi að hægja á frásögn og hvenær hraða. [...] Munur á lífi og skáldskap er aðallega sá að í lífinu getur verið erfitt að tímasetja nákvæmlega hvenær eitthvað byrjar að eiga sér stað.“ (35)

16. janúar 2013

Hvað er sögulegur skáldskapur? Hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélagsins

Það er mér ljúft og skylt að vekja athygli á hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélags Íslands á þessum vettvangi, en yfirskrift fyrirlestraraðarinnar í vor er Hvað er sögulegur skáldskapur? Fyrsti fyrirlesturinn var haldinn í gær, þar sem Hólmfríður Garðarsdóttir ræddi um nýju sögulegu skáldsöguna í Rómönsku Ameríku, en fimm fyrirlestrar á mörkum sagnfræði og skáldskapar eru eftir:

29. janúar
Guðni Th. Jóhannesson: Hvað ef? Íslandssagan sem gæti hafa gerst

12. febrúar
Dagný Kristjánsdóttir: Saga handa börnum

12. mars
Þórunn Erlu Valdimarsdóttir: Af landamærahéruðum Clio og skáldgyðjanna

26. mars
Hjalti Snær Ægisson: Sögulega skáldsagan á Ítalíu eftir 1980

9. apríl
Guðrún Harðardóttir: Skáldað í byggingararfinn?

Fyrirlestrarnir fara fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins kl. 12:05-13:00. Þeir eru jafnan teknir upp og hægt að hlusta á þá síðar á heimasíðu Sagnfræðingafélagsins.

14. janúar 2013

Stúlka kynnist gagnrýnni hugsun

Mitt eigið Harmagedón eftir Önnu Heiðu Pálsdóttur segir frá nokkrum vikum í lífi Dagbjartar Elísabetar Davíðsdóttur. Hún er nýbúin með 10. bekk, er í sumarvinnu á leikskóla og ætlar að byrja í FB um haustið, helst á einhverri heilbrigðisbraut svo hún geti undirbúið sig undir læknanámið sem hún hyggur á í framtíðinni. Hún ætlar að verða barnalæknir – það er að segja ef pabbi hennar og nokkrir aðrir karlar í Brooklyn leyfa henni það. Dagbjört er nefnilega vottur Jehóva og þarf að lúta reglum safnaðarins sem stýrt er frá Bandaríkjunum og það að vera læknir samrýmist engan veginn hugmyndum vottanna um hvernig menn helga líf sitt trúnni eða séu Jehóva þóknanlegir. Hversu ákveðin sem Dagbjört er í að láta drauma sína rætast áttar hún sig smám saman á að það geti verið erfitt ef hún ætlar að halda sínum sessi í þúsund ára ríkinu sem vottar Jehóva trúa að bíði sín eftir lokaátök góðs og ills, Harmagedón. Þetta sumar kynnist hún líka systkinunum Fríðu og Benna sem ekki „lifa í sannleikanum“, besti vinur hennar verður alvarlega veikur og svo fær hún nýjar upplýsingar um mömmu sína sem dó nokkrum árum áður. Allt verður þetta til þess að Dabjört tekur líf sitt til rækilegrar endurskoðunar og afleiðingarnar verða afdrifaríkar.

Þótt ég þekki ekki sérstaklega vel til samfélags votta Jehóva er ljóst að Anna Heiða hefur unnið alla heimildarvinnu afar vel. Þarna er mýgrútur af athyglisverðum upplýsingum, ekki bara þeim sem hver sem er getur lesið í Varðturninum eða látið votta sem ganga hús úr húsi fræða sig um heldur líka úr innstu kimum safnaðarins. Það er kannski til marks um þetta að best heppnaða persóna bókarinnar er sú sem virðist staðföstust í trúnni, pabbi Dagbjartar. Hann iðkar sína trú af heilum hug, er einn af öldungum safnaðarins og þrátt fyrir að þar sé illa séð að sækjast eftir metorðum er augljóst að hann er áhrifamikill bæði meðal trúsystkina sinna og innan veggja heimilisins. Myndin sem dregin er upp (hvort sem það er ætlunin eða ekki) er af manni sem beitir trúarbrögðum nánast sem valdatæki. Í rauninni sér maður fyrir sér að hefði hann ekki gerst vottur og getað nýtt regluverk þeirra til að stjórna fólki hefði hann sennilega bara komið sér í einhverja aðra stöðu þar sem hann hefði yfir öðrum að segja. Fyrir vikið er pabbinn ekki bara vel heppnuð persóna heldur er í honum fólgin ein möguleg skýring á því hvers vegna fólk sækir í trúarsöfnuð sem mörgum finnst öfgakenndur og þvingandi.

13. janúar 2013

Ennþá í boltanum ...

Aukaspyrna á Akureyri eftir Gunnar Helgason er framhald bókarinnar Víti í Vestmannaeyjum sem út kom fyrir jólin 2011. Bókin er, ef svo má segja, hálfsjálfstætt framhald fyrri bókarinnar. Þráðurinn er tekinn upp tveimur árum eftir að atburðirnir í Vestmannaeyjum áttu sér stað og nú eru Jón Jónson og félagar í Þrótti komnir á óopinbert Íslandsmót fimmta flokks drengja í fótbolta, N-1 mótið á Akureyri.

Líkt og í fyrri bókinni er frásögnin fjörleg og hröð.Tungutakið er lipurt og þannig að maður getur vel ímyndað sér að það sé nærri því sem krakkar á þessum aldri nota. Maður hrekkur a.m.k. aldrei upp við það að eitthvað sé ótrúverðugt eða óþarflega „fornt“ einsog þeir sem ég þekki á þessum aldri telja orðfæri foreldra sinna oft vera. Það sem mér fannst helst að í fyrri bókinni, sjá hér, var að það vantaði dýpt í persónusköpunina, einkum þegar kvenpersónur voru annars vegar. Mér þykir höfundur hafa bætt verulega úr þessu í seinni bókinni. Maður sér mun fleiri hliðar á persónunum hér en áður, og þær kvenpersónur sem koma við sögu fá aðeins meira vægi. Höfundi tekst ágætlega til með Eivöru systur Jóns, og það er skemmtilegt að lesa kaflana sem eru helgaðir henni og afrekum hennar sem nývalinnar landsliðskonu. Mömmu þeirra Jóns og Eivarar er alveg sleppt í þessari bók (nú fer pabbinn með á mótið en mamman situr heima, öfugt við það sem var í Vestmannaeyjum). Miðað við hvernig tókst til við lýsingar á henni í fyrri bókinni er það bara af hinu góða. Hinsvegar eru lýsingar höfundar á pabba Jóns og töktum hans á mótinu mjög skemmtilegar og trúverðugar, geta svo vel átt við fótboltaforeldra af báðum kynjum, einkum þá sem kannski hafa ekki svo sérstaklega mikið vit á hinni fögru íþrótt. Gunnari Helgasyni tekst vel upp í þessum bókum, hann nær að höfða til lesenda, bæði yngri og eldri kynslóðarinnar.

Mér finnst það í raun aðdáunarvert að hafa fengið þessa dágóðu hugmynd að skrifa bækur sem vísa beint í þessa vinsælu íþróttagrein og taka fyrir mótin sem svo margir krakkar, bæði strákar og stelpur, taka þátt í á hverju sumri með misbrjálaða foreldra á hliðarlínunni.