13. janúar 2013

Ennþá í boltanum ...

Aukaspyrna á Akureyri eftir Gunnar Helgason er framhald bókarinnar Víti í Vestmannaeyjum sem út kom fyrir jólin 2011. Bókin er, ef svo má segja, hálfsjálfstætt framhald fyrri bókarinnar. Þráðurinn er tekinn upp tveimur árum eftir að atburðirnir í Vestmannaeyjum áttu sér stað og nú eru Jón Jónson og félagar í Þrótti komnir á óopinbert Íslandsmót fimmta flokks drengja í fótbolta, N-1 mótið á Akureyri.

Líkt og í fyrri bókinni er frásögnin fjörleg og hröð.Tungutakið er lipurt og þannig að maður getur vel ímyndað sér að það sé nærri því sem krakkar á þessum aldri nota. Maður hrekkur a.m.k. aldrei upp við það að eitthvað sé ótrúverðugt eða óþarflega „fornt“ einsog þeir sem ég þekki á þessum aldri telja orðfæri foreldra sinna oft vera. Það sem mér fannst helst að í fyrri bókinni, sjá hér, var að það vantaði dýpt í persónusköpunina, einkum þegar kvenpersónur voru annars vegar. Mér þykir höfundur hafa bætt verulega úr þessu í seinni bókinni. Maður sér mun fleiri hliðar á persónunum hér en áður, og þær kvenpersónur sem koma við sögu fá aðeins meira vægi. Höfundi tekst ágætlega til með Eivöru systur Jóns, og það er skemmtilegt að lesa kaflana sem eru helgaðir henni og afrekum hennar sem nývalinnar landsliðskonu. Mömmu þeirra Jóns og Eivarar er alveg sleppt í þessari bók (nú fer pabbinn með á mótið en mamman situr heima, öfugt við það sem var í Vestmannaeyjum). Miðað við hvernig tókst til við lýsingar á henni í fyrri bókinni er það bara af hinu góða. Hinsvegar eru lýsingar höfundar á pabba Jóns og töktum hans á mótinu mjög skemmtilegar og trúverðugar, geta svo vel átt við fótboltaforeldra af báðum kynjum, einkum þá sem kannski hafa ekki svo sérstaklega mikið vit á hinni fögru íþrótt. Gunnari Helgasyni tekst vel upp í þessum bókum, hann nær að höfða til lesenda, bæði yngri og eldri kynslóðarinnar.

Mér finnst það í raun aðdáunarvert að hafa fengið þessa dágóðu hugmynd að skrifa bækur sem vísa beint í þessa vinsælu íþróttagrein og taka fyrir mótin sem svo margir krakkar, bæði strákar og stelpur, taka þátt í á hverju sumri með misbrjálaða foreldra á hliðarlínunni.

Engin ummæli: